Eygló Eyjólfsdóttir, fyrrverandi skólameistari Borgarholtsskóla, er látin, 66 ára að aldri. Eygló fæddist í Reykjavík 28. nóvember árið 1943. Foreldrar hennar eru Eyjólfur Guðmundsson, fyrrverandi kaupmaður, og Svanfríður Þorkelsdóttir húsmóðir.

Eygló Eyjólfsdóttir, fyrrverandi skólameistari Borgarholtsskóla, er látin, 66 ára að aldri.

Eygló fæddist í Reykjavík 28. nóvember árið 1943.

Foreldrar hennar eru Eyjólfur Guðmundsson, fyrrverandi kaupmaður, og Svanfríður Þorkelsdóttir húsmóðir.

Eygló útskrifaðist frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1963. Hún stundaði háskólanám í Bandaríkjunum og Þýskalandi en lauk BA-prófi í þýsku við Háskóla Íslands árið 1969. Árið 1971 lauk hún námi í uppeldis- og kennslufræðum við HÍ og útskrifaðist með MA-gráðu í skólastjórnun frá Minnesotaháskóla árið 1991.

Eygló kenndi um hríð við Vogaskóla og Gagnfræðaskóla Garðahrepps. Árið 1970 hóf hún störf við Menntaskólann við Hamrahlíð þar sem hún starfaði allt til ársins 1994. Á þeim tíma hafði hún gegnt starfi þýskukennara, áfangastjóra og konrektors skólans.

Eygló tók við stöðu fyrsta skólameistara Borgarholtsskóla árið 1995 og gegndi þeirri stöðu í sex ár. Fyrsta árið starfaði hún við menntamálaráðuneytið við undirbúning og skipulagninu skólans og hafði Eygló mikil áhrif á mótun þessa nýja skóla.

Síðustu árin fyrir starfslok starfaði hún sem sérfræðingur í menntamálaráðuneytinu. Eygló var einnig höfundur (ásamt öðrum) kennsluefnisins Þýska fyrir þig, sem Mál og menning gaf út.

Eygló var mjög virk í félagsstörfum og má þar nefna að hún var stofnfélagi og í fyrstu stjórn Brúar, félags áhugafólks um þróunarlöndin, formaður kennarafélags MH, formaður Félags þýskukennara, í stjórn Delta Kappa Gamma, félags kvenna í fræðslustörfum, og formaður Gammadeildar. Þá starfaði hún um árabil með Léttsveit Kvennakórs Reykjavíkur.

Árið 1974 til 1977 tók Eygló sér frí frá kennslustörfum og dvaldi með fjölskyldu sinni í Kenýa þar sem eiginmaður hennar starfaði við þróunarstörf.

Eftirlifandi eiginmaður Eyglóar er Steinarr Höskuldsson viðskiptafræðingur. Eygló og Steinarr giftust árið 1965 og eignuðust tvö börn, þau Höskuld, f. 1968, og Gunnhildi, f. 1975. Barnabörn þeirra eru sjö talsins.