Yfirlýstur tilgangur Atlanefndarinnar var að auka virðingu Alþingis sem var ekki vanþörf á. Hvílík öfugmæli

Margt ógeðfellt blasti við þeim sem fylgdust með atburðarásinni á Alþingi þegar froðusnakk „Atlanefndarinnar“ var samþykkt með 63 atkvæðum og í framhaldinu ákæra á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Eftir því sem best verður séð var atburðarásin þessi: Þegar Samfylkingunni höfðu borist áreiðanlegar upplýsingar úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins um að flokkurinn myndi halda sínu striki, hvað sem gerðist, út atkvæðagreiðsluna um ákærurnar, sá hún sér ljótan leik á borði. Sjálfstæðisflokkurinn hafði tekið sína ákvörðun í ljósi upplýsinga um hvernig staðan væri í þingflokkum Samfylkingar og Framsóknarflokks og flokkurinn hafði treyst sínum heimildarmönnum. Hann var kannski ekki klókur en hann var í góðri trú og vildi vera sjálfum sér samkvæmur. Og Samfylkingin ákvað að taka áhættuna og láta nægjanlega marga samfylkingarþingmenn styðja ákæruna, þrátt fyrir það sem áður hafði verið gefið til kynna. Og þegar Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur hafði verið bjargað fyrir horn af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins féllu þingmenn Samfylkingarinnar enn fyrir freistingunni og reyndu nú að koma snörunni um háls Árna M. Mathiesen. Munaði aðeins einu atkvæði að það tækist. En yfirmann bankamála, þegar allt hrundi, þótti flestum þingmönnum rétt að láta sleppa með sem allra minnstan skrekk á meðan reynt var að ákæra aðra! Skyldi nokkru sinni hafa setið á Alþingi annar eins flokkur og Samfylkingin? Leiðtogar hans, sem sitja í hæstu embættum núverandi ríkisstjórnar, annar utangátta og hinn sofandi, sátu við ríkisstjórnarborðið með þeim sem þingið reyndi að ákæra og ætti auðvitað að draga fyrir landsdóminn, ef á annað borð væri rétt að draga þangað nokkurn fyrrverandi ráðherra, sem alls ekki hefur verið sýnt fram á að sé rétt að gera. Þessir forystumenn hanga enn í tignarsætum sínum en eru nú aðeins eins og kóngar í drafinu.

Virðing Alþingis var lítil fyrir þessa atburði og enn sannast að lengi getur smátt smækkað. Framsóknarflokkurinn hrökk af sínum hjörum þegar hann sá skoðanakönnun í blaði, sem sýndi fylgi, sem nýjustu atburðir staðfesta, að er þó mun meira en hann á skilið. Framsóknarflokkurinn ætlaði í eymd sinni að reyna að slá sér upp með því að fylkja sér með siðleysingjunum úr Samfylkingunni. En svo ógeðfellt sem þetta allt saman var tókst þó Steingrími J. Sigfússyni að toppa viðbjóðinn með svörum sínum í sjónvarpi eftir atkvæðagreiðsluna. Átti það ekki að vera hægt, en tókst. Hann birtist áhorfendum tifandi og hrærður og sagðist vera með brostið hjarta eftir að „heiðursmaðurinn Geir H. Haarde“ hefði þurft að sæta þessum aðförum af hálfu þingsins. Eitt augnablik virtist sem Steingrímur J. Sigfússon hefði orðið undir í þingsalnum og stæði naumast undir persónulegu áfalli sínu yfir hinum ómálefnalegu ákærum á hendur „heiðursmanninum“. Það höfðu margir þörf fyrir að kasta upp sem þurftu að horfa upp á þetta. Júdas hefði öfundað Steingrím af þessum tilþrifum og kunni hann þó margt fyrir sér.