Á Hverfisgötu Alls var 35 bílastæðum breytt í hjólastíg í ágúst.
Á Hverfisgötu Alls var 35 bílastæðum breytt í hjólastíg í ágúst. — Morgunblaðið/Eggert
Hjólreiðastíg á Hverfisgötunni í Reykjavík verður aftur breytt í bílastæði um næstu mánaðamót. Þegar ákveðið var að gera hjólastíg á götunni var jafnframt ákveðið að endurskoða ákvörðunina 1. október.

Hjólreiðastíg á Hverfisgötunni í Reykjavík verður aftur breytt í bílastæði um næstu mánaðamót. Þegar ákveðið var að gera hjólastíg á götunni var jafnframt ákveðið að endurskoða ákvörðunina 1. október.

Gunnar Hersveinn, upplýsingafulltrúi umhverfissviðs borgarinnar, segir að reynslan af þessari tilraun verði metin í framhaldinu. Rætt verði við hagsmunaaðila og gögnum safnað. „Þessi stígur verður ekki áfram í þessu formi, en ráðstafanir fyrir hjólandi verða gerðar. Þetta er hluti af hjólaleiðakerfi sem borgin ætlar að leggja á næstu árum.“

Gunnar segir að kostnaði við þetta verkefni hafi verið haldið í algjöru lágmarki. Kostnaðurinn hafi aðallega falist í málun og umsjón með verkefninu. Hjólavísar, sem hafi verið settir í götuna, séu hluti af kostnaði og verði þarna áfram.

Hjólreiðastígurinn var tekinn í notkun um miðjan ágústmánuð. Ákveðið var að hleypa verkefninu af stokkunum til að efla mannlíf í miðborginni og hvetja til aukinna hjólreiða. Nokkrir verslunareigendur við Hverfisgötuna voru ósáttir við framkvæmdina og óttuðust að viðskipti myndu minnka í kjölfarið.