Dagur Sigurðsson
Dagur Sigurðsson
Silvio Heinewetter, markvörður þýska handboltaliðsins Füchse Berlín, er afar ánægður með lífið undir stjórn Dags Sigurðssonar, þjálfara liðsins. Füchse hefur komið mjög á óvart, sigrað bæði Kiel og Flensburg og er eina liðið í þýsku 1.

Silvio Heinewetter, markvörður þýska handboltaliðsins Füchse Berlín, er afar ánægður með lífið undir stjórn Dags Sigurðssonar, þjálfara liðsins. Füchse hefur komið mjög á óvart, sigrað bæði Kiel og Flensburg og er eina liðið í þýsku 1. deildinni sem hefur ekki tapað leik. Liðið er með 12 stig eftir sex leiki en Alexander Petersson hefur leikið geysilega vel með því í haust.

„Við fáum af og til frídaga hjá þjálfaranum og við spilum oft fótbolta,“ sagði Heinewetter þegar Handball-World spurði hann um uppskriftina að óvæntri sigurgöngu liðsins.

Leikmenn Füchse eru einmitt í fjögurra daga fríi sem stendur. Þeir spila ekki um helgina og Dagur gaf þeim frí eftir sigurinn magnaða gegn Flensburg í fyrrakvöld. Þeir mæta næst á æfingu á sunnudaginn og hefja undirbúning fyrir næsta leik sem er gegn Grosswallstadt. vs@mbl.is