Stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) samþykkti þriðju endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands og sjóðsins á fundi sínum í Washington í gær.

Stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) samþykkti þriðju endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands og sjóðsins á fundi sínum í Washington í gær.

Þar með stendur íslenskum stjórnvöldum til boða lánafyrirgreiðsla sjóðsins að fjárhæð um 19 milljarðar króna, að því er segir í fréttatilkynningu. Auk þess er gert ráð fyrir lánafyrirgreiðslu frá Póllandi og Norðurlandaþjóðum í tengslum við endurskoðunina.

Við endurskoðunina sendu íslensk stjórnvöld sjóðnum nýja viljayfirlýsingu sem lýsir efnahagsstefnu Íslands. Í henni segir að stefnan leggi grunninn að endurreisn hagkerfisins og að umtalsverður árangur hafi náðst frá hruni.

Í viljayfirlýsingunni segir að aukið jafnvægi í ríkisfjármálum hafi sýnt sig í vaxandi trausti, sterkara gengi krónunnar og meiri stöðugleika hagkerfisins frá lokum ársins 2009. Atvinnuleysi hafi að líkindum náð hámarki, verðbólga fari ört lækkandi og hagvöxtur verði aftur jákvæður á seinni hluta árs 2010, samkvæmt spám. Þrátt fyrir nokkuð háa skuldastöðu hins opinbera sé hún metin viðráðanleg.

Spáð er minnkun á halla ríkissjóðs úr 14% af vergri landsframleiðslu um mitt ár 2009 í 9% árið 2010.