Selt Hús Nýherja við Borgartún 37.
Selt Hús Nýherja við Borgartún 37.
Kristján Jónsson kjon@mbl.is Stjórn tölvufyrirtækisins Nýherja hf. hefur ákveðið auka hlutaféð um 120 milljónir að nafnverði. Hefur félagið gengið frá samningum við fjárfesta um kaup á hlutafénu á genginu 7,0 og er heildarsöluverð því 840 milljónir.

Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

Stjórn tölvufyrirtækisins Nýherja hf. hefur ákveðið auka hlutaféð um 120 milljónir að nafnverði. Hefur félagið gengið frá samningum við fjárfesta um kaup á hlutafénu á genginu 7,0 og er heildarsöluverð því 840 milljónir. Um helmingur aukningarinnar kemur frá nýjum hluthöfum.

Eftir aukninguna verður útgefið hlutafé félagsins 400 milljónir að nafnverði. Nýherji hefur einnig samið við Arion banka og Íslandsbanka um endurskipulagningu á langtímalánum félagsins.

„Við seljum fasteign við Borgartún upp á 1650 milljónir og aukum svo hlutafé um 840 milljónir,“ segir Þórður Sverrisson, forstjóri Nýherja. „Við náum ýmsum öðrum ávinningi og lækkum því skuldir um tvo og hálfan milljarð. Um það snýst þetta, að reka fyrirtækið með hagnaði og lækka skuldir, það eru ekki margar leiðir í þessu. Það er ekkert gefið.“

Hann segist ekki geta gefið upp nafn kaupanda húseignarinnar enn þá en um sé að ræða íslenskt fjárfestingarfélag. Síðustu þrjá ársfjórðunga hefur fyrirtækið skilað rekstrarhagnaði. Þórður segist halda að nú sé það að verða betri kostur fyrir fjárfesta að setja peninga í fyrirtækjarekstur en láta þá liggja í banka eða í skuldabréfum. Ávöxtun skuldabréfa sé orðin mjög lág og verð á hlutabréfum að verða tiltölulega hagstætt.

„Kröfuhafar og bankar hafa gengið nokkuð fast eftir fyrirtækjum. Eina leiðin út úr þeirri klemmu er að finna nýtt hlutafé eða selja eignir. Við höfum staðið þokkalega að því leyti að við gátum selt eignir en við höfum þurft að skera niður allan kostnað. Við erum nú með 400 starfsmenn á Íslandi, höfum fækkað um 180 á tveim árum.“

Starfsemi erlendis
» Nýherji á nokkur fyrirtæki í Danmörku og Svíþjóð og þar starfa alls um 160 manns. Einnig hefur fyrirtækið fengið nokkuð af verkefnum erlendis.
» Starfsmenn Nýherja eru að jafnaði velmenntaðir sérfræðingar og með mikla reynslu, bæði í tölvutækni og hugbúnaði.