Matthildur Ingólfsdóttir (Didda) fæddist í Reykjavík 14. ágúst 1950. Hún lést á Landspítalanum 16. september 2010.

Útför Matthildar fór fram í kyrrþey.

Kær vinkona er horfin á braut. Matthildur Ingólfsdóttir eða Didda eins og hún var ávallt kölluð var í nánu vinfengi við fjölskyldu okkar Kristins í hartnær 25 ár. Varð okkur fljótt ljóst hverskonar mannkostum hún var búin, hlý og traust, greiðvikin og sannur vinur í raun. Hún reyndist okkur öllum vel í lífsins ólgusjó og nutu börnin okkar ekki síst góðs af því. Við eigum henni mikið að þakka.

Ég átti þess kost að kynnast henni Diddu minni vel og áttum við margar afar góðar og skemmtilegar samverustundir. Didda var lífsfjörug kona með húmorinn í lagi. Hún var vesturbæingur að uppruna eins og Kristinn eiginmaður minn og mikill fótboltaáhugamaður eins og baráttuglaðir KR-ingar eru jafnan. Um leið var hún snilldarkokkur og hafði mikla ánægju af lestri góðra bóka.

Didda var sannur Íslendingur sem hafði mikinn áhuga á þjóðmálum. Hún hafði sterka réttlætiskennd og var ávallt tilbúin til þess að rétta öðrum hjálparhönd. Hún var ráðagóð kona og naut ég góðs af því í mínum störfum. Það bar aldrei skugga á í okkar sambandi og hún studdi mig ávallt með ráðum og dáð. Það er mikill missir fyrir samfélagið þegar slík sómakona hverfur á braut og það svona alltof fljótt. Didda átti við erfið veikindi að stríða síðustu mánuðina en ekki heyrði ég hana kvarta, enda æðrulaus kona.

Fjölskylda Diddu var henni ávallt efst í huga. Hún vinkona mín var framar öllu eiginkona, móðir og amma. Hún var einstaklega stolt af börnunum sínum og barnabörnum og hugurinn var oft hjá þeim. Hvað Sólrún og Bjarki voru að gera þessa stundina og hverjir væru þeirra draumar og væntingar. Amma fylgdist vel með því. Svo má ekki gleyma öllum frænkunum hennar Diddu sem hún átti svo margar ánægjustundir með.

Það eru margir sem sakna hennar, þessarar hjartahlýju og hógværu konu sem gat svo auðveldlega tekið storminn í fangið þegar á þurfti að halda. En góðar minningar munu lifa áfram og ylja okkur öllum um hjartarætur. Eiginmanni, börnum, barnabörnum og öðrum ástvinum sendum við innilegar samúðarkveðjur. Megi Guð veita ykkur styrk í sorginni.

Sólveig Pétursdóttir,

Kristinn Björnsson.

Það er erfitt að trúa því hvað lífið getur virst ósanngjarnt. Elsku Didda mín er farin frá okkur eftir baráttu við erfið veikindi. Ég kynntist Diddu þegar ég var barn að aldri og þótti mér afskaplega vænt um hana. Við áttum margar góðar stundir saman og var hún alveg einstaklega góð við mig. Þegar ég kom svöng heim úr skólanum kenndi hún mér að búa til eggjaköku eða við bökuðum saman skúffuköku. Við vorum miklar vinkonur og það er sárt að sjá á eftir þessari yndislegu konu. Það var ómetanlegt að eiga hana sem trúnaðarvin og ræða við hana um lífsins gang. Það brást ekki að hún gat gefið góð ráð ef á þurfti að halda.

Öllum sem þekktu hana þótti svo mikið til hennar koma. Amma og afi, bræður mínir, frænkur og stórfjölskyldan öll nutu góðs af stuðningi hennar og vináttu.

Ég geymi minninguna um góða konu nálægt hjartanu og votta eiginmanni, börnum og fjölskyldunni allri mína dýpstu samúð. Guð veri með ykkur á þessum erfiðu tímum.

Emilía Sjöfn Kristinsdóttir.