Hann er maðurinn Neil „lifandi goðsögn“ Young.
Hann er maðurinn Neil „lifandi goðsögn“ Young.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Með þessari plötu sýnir Neil Young og sannar, enn einu sinni, að hann er í algerum sérflokki þegar litið er til meðreiðarsveina hans og -meyja frá sjöunda áratugnum.

Með þessari plötu sýnir Neil Young og sannar, enn einu sinni, að hann er í algerum sérflokki þegar litið er til meðreiðarsveina hans og -meyja frá sjöunda áratugnum. Á meðan aðrir eru dauðir, sáttir við að sanka að sér stefgjöldum eða einfaldlega útbrunnir dælir Young út plötunum, misgóðum svo sannarlega en alltaf eftirtektarverðum. Hann er eins og Woody Allen að þessu leytinu til, vinnandi listamaður og alltaf að, verkin koma á færibandi, misjöfn að gæðum eins og gengur en í forgrunni er að vera að, skapa, sinna kölluninni og vera óhræddur við að gera mistök og leggja út á ókunna stigu.

Undanfarin ár hafa reyndar einkennst af þónokkrum plötum sem hafa verið skot yfir markið. Living with War , Prairie Wind og Fork in the Road voru t.d. allt plötur sem voru upp og ofan. Hér höfum við hins vegar plötu sem er eitt hans besta verk í tuttugu ár eða síðan Ragged Glory kom út. Hér hlýðum við á Young spila einan á rafmagnsgítarinn sinn, engar trommur eða annað prjál nálægt. Hráleikinn og krafturinn sem lekur í gegn sökum þessarar einföldu uppsetningar er mjög áhrifaríkur. „Angry World“, „Hitchiker“ og „Walk with me“ eru einfaldlega sláandi; lög sem Sonic Youth hefðu drepið fyrir að fá að hafa á sínum plötum. Við þetta styður Young svo með einföldum, nánast barnslegum textum sem hitta í hjartastað sökum hreinskilninnar og ástríðunnar sem þar er bundin í. Já, ég er að segja ykkur það, þetta er svakaleg plata!

Umslagið er sérstætt, minnir helst á eitthvað sem svartmálmssveit hefði getað lætt frá sér. Hvort sem það var með vilja gert eður ei endurspeglar það ágætlega þann kynngimagnaða kraft sem hér er að finna. Young er gangandi dæmi um það að hægt er að gera málsmetandi dægurtónlist fram í rauðan dauðann.

Arnar Eggert Thoroddsen

Vel heppnað samstarf

Ben Folds og Nick Hornby - Lonely Avenue &sstar;stjörnugjöf: 1&sstar;½

Bandaríski tónlistarmaðurinn Benjamin Scott „Ben“ Folds, fyrrverandi leiðtogi rokksveitarinnar Ben Folds Five, fór þess á leit við rithöfundinn Nick Hornby að hann semdi lagatexta fyrir plötuna sem hér er í rýnt, Lonely Avenue , eða Einmanaleg breiðgata. Platan hefur að geyma ellefu lög og er býsna vel heppnuð, sérstaklega í rólegri lögunum þegar angurvær söngur Folds við píanóleik og strengi fær að njóta sín. Textarnir standa þó upp úr, bráðskemmtilegir og hispurslausir hjá Hornby, eins og við var að búast frá þeim ágæta rithöfundi. Í upphafslagi plötunnar, „Working Day“, er kreppa rithöfundarins umfjöllunarefnið og textinn bráðfyndinn. „Ég er snillingur, í alvöru talað, ég er frábær“ segir þar en svo snýst höfundinum hugur og hann segir að hann sé aumingi, sýndarmennskan uppmáluð og allt sem hann skrifi sé bölvað drasl. Skemmtileg blanda listamanna.

Helgi Snær Sigurðsson

Stungið í samband

KT Tunstall - Tiger Suit &sstar;stjörnugjöf: 1&sstar;stjörnugjöf: 1

Skoska tónlistarkonan KT Tunstall komst á kortið árið 2005 með lagið „Black Horse and the Cherry Tree“ sem er að finna á fyrstu plötu hennar Eye to the Telescope sem kom út 2004. Þremur árum síðar kom Drastic Fantastic út.

Nú var að koma út þriðja plata Tunstall, ber hún heitið Tiger Suit . Er það nafn vel viðeigandi enda er hún aðeins meira með klærnar úti á henni en á fyrri plötum.

Tunstall hóf feril sinn á órafmögnuðu poppi en hún er orðin aðeins tæknivæddari núna og má heyra áhrif frá ýmsum tónlistarstefnum á nýju plötunni sem mætti segja að sé dansvænni og rokkaðri en þær fyrri. Þjóðlagaáhrifin eru ekki eins sterk og áður, Tunstall hefur stungið í samband og tekið sér fleiri hljóðfæri í hönd en gítarinn. Það verður að segjast að henni hefur tekist vel til með það. Þetta er kostagripur fyrir þá sem fíla stelpurokk sem hægt er að dilla sér við.

Ingveldur Geirsdóttir