Banki Anglo Irish Bank er írska ríkinu þungur og afar kostnaðarsamur baggi.
Banki Anglo Irish Bank er írska ríkinu þungur og afar kostnaðarsamur baggi. — Reuters
• Írsk stjórnvöld berjast við að halda þarlendum bönkum á lífi • Kostnaðurinn hleypur á milljörðum evra og fjárlagahallinn er mikill • Ávöxtunarkrafa á írsk ríkisskuldabréf hefur ekki verið hærri frá árinu 1999 • Írskir bankar hafa nær ekkert aðgengi að fjármagnsmörkuðum

Bjarni Ólafsson

bjarni@mbl.is

Írska ríkisstjórnin greindi frá því í gær að hún muni leggja hinum illa stadda banka Anglo Irish Bank til fimm milljarða evra til viðbótar þeim 25 milljörðum sem þegar hafa farið í bankann.

Írska ríkið á í afar erfiðum vanda um þessar mundir, en halli ríkissjóðs er nú um 12 prósent af vergri landsframleiðslu og gæti að sumra mati farið í 25 prósent þegar kostnaður við björgun bankakerfisins er tekinn með.

Til að skelfa ekki kaupendur ríkisskuldabréfa um of þarf ríkið að ná tökum á hallanum, en ávöxtunarkrafa á tíu ára írsk ríkisskuldabréf nálgaðist í gær sjö prósent, sem er 4,7 prósentustigum meira en þýska ríkið þarf að sætta sig við. Er krafan nú sambærileg við þá sem var á grískum bréfum mánuði áður en gríska ríkið þurfti að leita til ESB um aðstoð.

Á hinn bóginn eru írsk stjórnvöld treg til að krefja lánardrottna Anglo Irish um að taka á sig frekara tap af ótta við að það muni koma niður á öðrum írskum bönkum, sem nú þegar eiga afar erfitt með aðgengi að fjármagni.

Þrátt fyrir afar erfiða stöðu gera ekki allir ráð fyrir því að Írland stefni í sambærilega fjármögnunarerfiðleika og þá sem Grikkland þurfti að kljást við. Írland hafi nú þegar fjármagnað rekstur ríkissjóðs út fyrri helming næsta árs og engir stórir gjalddagar eru á næsta leiti. Þá eigi ríkið um 20 milljarða evra í lausu fé.

Fari svo að kostnaðurinn við björgun bankakerfisins reynist minni en nú er gert ráð fyrir ætti ávöxtunarkrafan á írsk ríkisskuldabréf að lækka.

Svartsýnni spámenn benda hins vegar á að landsframleiðsla Írlands hafi á öðrum ársfjórðungi skroppið saman um fimm prósent á ársgrundvelli og því gætu skatttekjur ríkisins minnkað og kostnaður við björgun bankanna aukist.