Jóhann Ágústsson fæddist í Reykjavík 4. maí 1930. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð 23. september 2010. Jóhann var næstyngstur fjögurra systkina. Foreldrar hans voru Ágúst Markússon, veggfóðrarameistari, f. 1891, d. 1965, og Guðrún Guðmundsdóttir, f. 1893, d. 1947. Systkini Jóhanns voru Hörður, listmálari, f. 1922, d. 2005; Kristín, húsfrú í Washington, f. 1923, d. 2001; og Erla, flugfreyja, f. 1932, d. 2008.

Jóhann kvæntist Svölu Magnúsdóttur, f. 15. september 1933, þann 29. ágúst 1952. Foreldrar hennar voru Magnús Vilhelm Jóhannesson, framfærslufulltrúi, f. 1891, d. 1958, og Fríða Jóhannsdóttir, f. 1906, d. 1997. Börn Jóhanns og Svölu eru: 1) Magnús Valur, f. 2. desember 1954. Kona hans er Bjarnveig Ingvarsdóttir, f. 31. janúar 1955, og börn þeirra: a) Svala Birna, f. 29. desember 1976, gift Jens Hjaltalín Sverrissyni, þau eiga tvo syni, b) Edda Elísabet, f. 29. júlí 1981, í sambúð með Bernharð Aðalsteinssyni, c) Valur, f. 6. nóvember 1988. 2) Guðmundur Örn, f. 23. desember 1960. Kona hans er Íris Gunnarsdóttir, f. 23. maí 1965, og börn þeirra: a) Díana Íris, f. 17. maí 1985, b) Jóhann Berg, f. 27. október 1990. 3) Sólveig Fríða, f. 30. nóvember 1972. Maður hennar er Ingimar Guðjón Bjarnason, f. 3. október 1972, og börn þeirra: a) Sindri Þór, f. 24. nóvember 1998, b) Andrea Sif, f. 1. ágúst 2002.

Jóhann og Svala hófu búskap í húsi foreldra Svölu í Miðtúni 2 í Reykjavík en byggðu síðan hús við Fífuhvammsveg 7 í Kópavogi og fluttu þangað 1958. Þar bjuggu þau þangað til fyrir tveimur árum er þau fluttu í Kópavogstún 8.

Jóhann lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Reykjavíkur 1948 og hóf störf hjá Landsbanka Íslands 1949. Hann starfaði í ýmsum deildum bankans. Hann var starfsmannastjóri um tíma, útibússtjóri Austurbæjarútibús, Laugavegi 77, framkvæmdastjóri afgreiðslusviðs bankans í Austurstræti, aðstoðarbankastjóri Landsbankans frá 1988 og síðan framkvæmdastjóri við bankann þar til hann lét af störfum fyrir aldurs sakir. Þá vann hann að undirbúningi Visa Ísland og var stjórnarformaður frá stofnun þess í fimmtán ár. Jóhann aflaði sér frekari menntunar og reynslu erlendis og starfaði m.a. við banka í París 1952-53 og í London 1974-1975. Jóhann var félagi í Lionshreyfingunni um tíma og sat lengi í stjórn Alliance Francaise í Reykjavík. Hann var virkur í Frímúrarareglunni um árabil og gegndi þar trúnaðarstörfum.

Jóhann verður jarðsunginn frá Bústaðakirkju í dag, 30. september 2010, og hefst athöfnin kl. 13.

Tengdafaðir minn, Jóhann Ágústsson, er látinn og mig langar að minnast hans í nokkrum orðum. Ég hef þekkt hann í ríflega þrjátíu ár og ætíð af góðu. Flottari og viðkunnanlegri maður er vandfundinn. Í Íslendingasögum hefði hann verið sagður vænn og gervilegur. Og þau Svala, tengdamóðir mín, voru glæsilegt par og einstaklega samrýnd hjón.

Þegar við Maggi ákváðum að rugla saman reytum var Jóhann strax boðinn og búinn að greiða götu okkar. Við vorum nýbyrjuð í háskólanámi en okkur þótti ekki koma annað til greina en að eignast eigið húsnæði. Jóhann bjargaði því með því að finna fyrir okkur íbúð sem við réðum við að borga. Hann útvegaði mér sumarvinnu í bankanum og hef ég ætíð verið þakklát fyrir það. Það stóð aldrei til að gera bankastörf að ævistarfi en ég hugsa enn með hlýju til þess stutta tíma sem ég vann bæði í Vegamótaútibúi á Laugavegi 7, þar sem ég stofnaði minn fyrsta tékkareikning, og í Langholtsútibúi Landsbankans. Þessi bankaútibú eru nú bæði horfin af sjónarsviðinu. Þegar við bjuggum í Englandi, á meðan Maggi lauk framhaldsnámi, nutum við Jóhanns einnig því að það kom að sjálfsögðu í hans hlut að sjá um gjaldeyrismillifærslur til okkar. Þetta var fyrir tíma kortanna og strangar reglur giltu um gjaldeyriskaup. Þá þurfti að millifæra námslán um hver mánaðamót.

En Jóhann var auðvitað ekki bara bankamaður. Hann var traustur heimilisfaðir, sem börnin hans báru mikla virðingu fyrir, og yndislegur afi. Ég sé hann fyrir mér heima við um helgar í molskinnsbuxum, úlpu og vaðstígvélum, annaðhvort að slá blettinn, dytta að tréverki eða þvo bílinn sinn. Fallegir og hreinir bílar voru hans yndi og ekki var verra að góður kraftur væri undir húddinu. Þau Svala ferðuðust mikið utanlands og innan, fóru á skíði, í golf, laxveiði og fleira. Fyrir fjórum árum fór fjölskyldan öll saman í skíðaferð til Ítalíu, Jóhann og Svala, börnin, tengdabörnin og þrjú barnabörn. Mikið var gaman að fara saman í þessa ferð.

Og nú er komið að kveðjustund, allt of snemma. Aldur er afstæður og Jóhann hefði átt að geta notið margra góðra ára til viðbótar en einhvers staðar stendur að enginn ráði sínum næturstað. Ég kveð góðan tengdaföður minn með söknuði.

Bjarnveig Ingvarsdóttir.

Mig langar til að minnast tengdapabba og þakka fyrir ljúfar samverustundir og þau lífsviðhorf sem ég kynntist hjá honum.

Strax frá fyrstu kynnum tók Jóhann mér opnum örmum og mér leið ávallt vel í návist hans. Fljótlega eftir að ég kynntist Sólveigu flutti ég inn á heimilið sem hann og Svala byggðu í Kópavogi fyrir rúmum 50 árum. Nú, sextán árum seinna, erum við Sólveig aftur komin í Fífuhvamminn og njótum þeirra strauma og þess góða anda sem ríkti á heimili þeirra hjóna. Þá lifa í minningunni ánægjulegar samverustundir bæði á Spáni og Englandi ásamt eftirminnilegri skíðaferð til Frakklands. Þessar stundir rifjast nú upp og minning Jóhanns mun lifa í hjörtum okkar. Börnin okkar, Sindri Þór og Andrea Sif, sakna þeirrar hlýju og umhyggju sem ástkær afi sýndi þeim.

Það fylgdi Jóhanni ára sem byggðist á jákvæðni, trausti og krafti. Þessir eiginleikar ásamt heiðarleika og ráðsemi hafa eflaust skilað sér í góðum árangri hans bæði í starfi og einkalífi. Í tímans rás hef ég fundið fyrir þeirri virðingu sem hann ávann sér hjá samferðamönnum sínum. Ég var því ákaflega stoltur að eiga Jóhann sem tengdapabba og vonandi tekst mér að lifa eftir þeim gildum sem hann stóð fyrir.

Ingimar.

Það var á haustjafndægrum sem hann afi í Kópavoginum kvaddi okkur. Þrátt fyrir veikindi sín undir lokin gátum við þó alltaf treyst á sólskinsbrosið þegar maður gægðist inn til hans í heimsókn. Jafnvel þó að við barnabörnin værum mörg á víð og dreif um lands- og heimshluta fylgdist hann alltaf vel með okkar lífi.

Við systkinin vöndumst snemma á að nefna afa okkar og ömmur eftir því hvar þau bjuggu. Svo amma Svala og afi Jóhann hafa alla tíð verið kennd við Kópavoginn. Það var alltaf svo spennandi að koma í Kópavoginn og fá að gista, þar gátum við alltaf gert ráð fyrir vídeóspólu að kvöldi og Honeynut Cheerios að morgni, svona smá lífsins gæði sem gleðja barnshjartað.

Afi var ótrúlega hraustur og sterkur maður, þrátt fyrir annasama vinnu hafði hann alltaf tíma fyrir líkamsræktina, sundið, skíðin, golfið og ferðalögin. Það er aðdáunarvert hversu ötul amma og afi voru við skíðamennskuna.

Þessa elju tökum við okkur svo sannarlega til fyrirmyndar. Við barnabörnin höfum öll alist upp við skíðamennskuna og er nokkuð ljóst að skíðagarparnir amma og afi verða okkur ofarlega í huga þegar árin færast einnig yfir okkur.

Við hugsum til þín afi með miklum söknuði en vitum að þú ert kominn á betri stað, teinréttur og hraustur eins og þú átt að þér að vera.

Hugur okkar dvelur jafnframt hjá ömmu sem nú kveður æskuástina sína.

Vaka þá og skína

á vonarhimni

alskærar stjörnur,

anda leiðtogar:

Traust og trú

og tryggrar speki

augað ólygna

og andarnir lifa!

Gráti því hér enginn

göfugan föður,

harmi því hér enginn

höfðingja liðinn.

Fagur var hans lífsdagur,

en fegri er upp runninn

dýrðardagur hans

hjá drottni lifanda.

(Jónas Hallgrímsson)

Svala Birna, Edda Elísabet og Valur.

Í dag kveðjum við kæran vin, Jóhann Ágústsson. Margs er að minnast eftir 60 ára vinskap við þau hjón Svölu og Jóhann. Skemmtilegar eru minningarnar frá útilegum sem við fórum, þegar börnin voru lítil. Ógleymanleg ferð, sem við fórum spilaklúbburinn norður Sprengisand fyrir 40 árum um óslétta troðninga og óbrúaðar ár með bensínbrúsa aftur í jeppunum, sem fóru svo á hliðina og bensínið yfir hangikjötið sem átti að gæða sér á um kvöldið. Allar skíðaferðirnar sem við fórum saman til Austurríkis og Ítalíu. Alltaf var Jóhann frábær félagi.

Elsku Svala, Magnús, Guðmundur, Sólveig og fjölskyldur. Við biðjum Guð að vera með ykkur. Minningin lifir um góðan dreng.

Halldóra og Benedikt.

Mig langar í fáum orðum að minnast góðvinar míns Jóhanns Ágústssonar. Við kynntumst í æsku og með okkur tókst einlæg og heil vinátta sem varað hefur æ síðan. Jóhann var alla tíð heiðarlegur og sannur. Hann var áreiðanlegur og ávann sér traust þeirra sem honum kynntust. Hann lauk gagnfræðaprófi og hóf í kjölfarið störf hjá Landsbanka Íslands. Þar komu menn auga á mannkosti hans og vann hann sig hratt upp innan bankans. Síðustu árin gegndi hann stöðu aðstoðarbankastjóra. Hann er gott dæmi um mann sem óx af verðleikum sínum, átti innistæðu fyrir allri þeirri ábyrgð sem honum var falin. Jóhann tranaði sér ekki fram en skoraðist hins vegar ekki undan. Honum voru falin ýmis trúnaðarstörf s.s. hjá Frímúrarareglunni en einnig innan viðskiptalífsins. Eftir að við vinirnir höfðum stofnað fjölskyldu héldum við hópinn í spilaklúbb ásamt tvennum öðrum hjónum. Þessi spilaklúbbur starfaði í meira en hálfa öld. Þetta voru dýrmætar samverur fyrir okkur öll og átti Jóhann sinn þátt í að skapa þann stöðugleika og reglusemi sem einkenndi klúbbinn. Oft var glatt á hjalla á spilakvöldunum. Einnig fór hópurinn saman í nokkrar ferðir innanlands sem utan. Þótt gangur lífsins sé augljós og þjáning nú á enda þá kveðjum við hjónin með söknuði og virðingu kæran vin og minnumst með þakklæti samverustunda á lífsins vegi. Við biðjum Guð að blessa fjölskylduna alla og gefa styrk á komandi tíma.

Sigurður K. Gunnarsson.

Þegar aldur færist yfir er eðlilegt að í hugann komi orð Bólu-Hjálmars „Mínir vinir fara fjöld“, maður skilji þau og láti hugann reika til liðinnar tíðar.

Rúm fimmtíu ár er ekki langur tími, þegar horft er til baka, en þó drjúgur hluti mannsævinnar. Þann tíma hefur vinátta okkar Jóhanns Ágústssonar staðið, sem og vinátta eiginkvenna okkar og þeirra þó vel lengur og gott er þess að minnast nú er leiðir skilur, að á þá vináttu bar aldrei skugga.

Við fjögur ásamt einum hjónum enn áttum góðar samvistir til áratuga eftir því sem annir hversdagsins og gott eigið fjölskyldlíf hverrar fjölskyldu fyrir sig leyfðu, í þessum fámenna hóp er nú skarð fyrir skildi.

Jóhann Ágústsson var maður vel á sig kominn, bjartur yfirlitum, hógvær, en staðfastur, glaðvær alvörumaður og mikill vinur vina sinna.

Hann var bankamaður alla sína starfsævi. Þeirrar gerðar, sem þjóð hans hefði sannarlega þurft að eiga að í starfi sl. tæpan áratug, því að við stjórn hans og annarra gætinna, yfirvegaðra og langreyndra bankamanna hefði tæpast farið svo sem nú er reyndin orðin.

Eins og Jóhann var vel virtur og trúað fyrir miklum ábyrgðar- og trúnaðarstörfum í störfum sínum á sviði banka- og fjármálalífs, var hann ekki síður vel metinn og virtur í þeim félagsmálastörfum, sem hann tók þátt í utan hins daglega starfsvettvangs.

Víð áttum samleið á sumum þeim sviðum og þar var sem endranær að mæta hinum stefnufasta og skipulagða stjórnanda og félagsmálamanni, mannasætti og mannvini og oftar en ekki a.m.k. þátttakanda í fjármálalegri forsjá félagsskaparins og skipulagi þeirrar forsjár.

Í Frímúrarareglunni á Íslandi var Jóhann félagi til áratuga og sinnti stjórnunnar- og ábyrgðarstörfum í stúku sinni og síðar í aðalstjórn Reglunnar við traust og vinsældir bræðranna og Reglunnar. Þau miklu og mikilsverðu störf eru honum nú þökkuð enn á ný af Reglu hans og stúku, en minning mikilhæfs bróður lifir meðal bræðranna og í sögu stúku og Reglu.

Við vinir Jóhanns, sem hefðum viljað geta átt miklu lengri samvistir við hann, söknum nú vinar í stað og hörmum fráfall hans, en mestur er auðvitað missir fjölskyldu hans og ástvina.

Við Jóhanna hörmum það mjög að vegna ferðaskipulagningar, sem ekki verður breytt, getum við ekki fylgt Jóhanni síðasta spölinn, en við sendum Svölu vinkonu okkar og öðrum ástvinum Jóhanns einlægar samúðarkveðjur og biðjum honum allrar blessunar á Guðsvegum og góðrar heimkomu.

Einar Birnir.

Fáein orð um frábæran samferðamann. Kynni okkar Jóhanns hófust í gagnfræðaskóla. Hann var einn af glæsilegri piltum þar, ætíð orðvar og kurteis. Þegar litið er yfir liðin ár áttum við ótal samverustundir, meðal annars við bridgespilamennsku um árabil á 4. hæð Oddfellowhússins við Vonarstræti ásamt Ara Guðmundssyni og öðrum félögum. Það voru ótal samverustundir á heimilum hvor annars og sameiginlegra félaga, svo og ferðalög. Minnisstæð er ferð til Ítalíu og sigling á Miðjarðarhafi svo og til Portúgals. Bankamál. Ef ég þurfti á að halda fyrirgreiðslu brást Jóhann ætíð vel við og leysti það strax með ljúfmennsku. Jóhann var Frímúrari, ég Oddfellowi, en aldrei ræddum við um reglumál okkar, enda vissum við að báðar reglurnar eru mannbætandi. Þakka vil ég Jóhanni og Svölu konu hans góð kynni og ánægjulegar samverustundir á liðnum árum. Hvíl þú í friði.

Páll Vígkonarson.

Jóhann Ágústsson er látinn en hann var sannarlega einn af máttarstólpum gamla Landsbankans, enda vann hann fyrir bankann í um 50 ár. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast Jóhanni fyrst í útibúi Landsbankans Laugavegi 77, en þar var hann skrifstofustjóri og síðar útibússtjóri. Landsbankinn Laugavegi 77 var á þessum árum uppeldisstofnun ungra bankamanna. Fjöldinn allur af ungu fólki byrjaði sinn bankaferil í þessu stóra útibúi, fólk sem síðar átti eftir að vera leiðandi í starfsemi Landsbankans og jafnvel annarra banka. Jóhann ól okkur upp, kenndi okkur og leiðbeindi á sinn traustvekjandi og föðurlega hátt. Kunni að taka á ungæðishætti okkar og ærslum og beina okkur á rétta braut. Við öll sem „ólumst þarna upp“ hugsum með miklum hlýhug til Jóhanns og þess láns okkar að fá yfirmann eins og hann.

Jóhann var einstaklega ljúfur maður og leysti mál friðsamlega. Hann stóð þó fastur á sínu, kenndi okkur að bera virðingu fyrir bankanum okkar, sögu hans, og vinna fyrir hann af trúmennsku. Gildi sem bankamenn dagsins í dag ættu að hugleiða. Margt getur komið upp í einum banka og upp í hugann kemur það sem ég kalla „buxnamálið“. Málið var það að Jóhann var mjög óánægður með að konurnar í bankanum klæddust buxum. Hann taldi þetta ekki snyrtilegt og ekki samræmast virðingu bankans. Hann tók því af skarið og bannaði kvenþjóðinni að klæðast buxum í vinnunni. Ekki óraði Jóhann fyrir afleiðingum þessarar ákvörðunar. Það varð uppreisn í bankanum, kvenþjóðin fór hamförum. Kurteisasti og friðsamasti maður sem ég þekki var útmálaður með orðum sem hér verða ekki rifjuð upp. Stríðið stóð í nokkra daga, þá varð Jóhann að gefa sig, annars hefðu 80% starfsmanna gengið út.

Leið Jóhanns í bankanum lá alla tíð uppávið, hann varð starfsmannastjóri og aðstoðarbankastjóri. Engum sem þekkti hann kom þetta á óvart. Hann verðskuldaði svo sannarlega þessar mannvirðingar, af sínum eigin verðleikum, enginn klíkuskapur kom þar við sögu.

Ég veit ég tala fyrir munn gömlu starfsmanna bankans, þegar ég þakka langt samstarf, og hans miklu mannkosti og viðmót. Ég færi öllum aðstandendum Jóhanns innilegar samúðarkveðjur.

Jón Atli Kristjánsson.