30. september 1951 Töframaðurinn Truxa ók bíl um miðbæ Reykjavíkur með bundið fyrir augun. Lögregluþjónn sat við hlið hans en kona hans í aftursætinu, ásamt blaðamanni Vísis.

30. september 1951

Töframaðurinn Truxa ók bíl um miðbæ Reykjavíkur með bundið fyrir augun. Lögregluþjónn sat við hlið hans en kona hans í aftursætinu, ásamt blaðamanni Vísis. Blaðamaðurinn sagði engin brögð í tafli en að milli þeirra hjóna lægju „duldir strengir hugsanaflutnings“.

30. september 1966

Sjónvarpið hóf útsendingar. Dagskráin hófst með ávarpi Vilhjálms Þ. Gíslasonar útvarpsstjóra. Eftirvænting var mikil og daginn eftir sagði Morgunblaðið: „Auðar götur í Reykjavík, bíóin og skemmtistaðir hálftómir, erfitt að ná í leigubíla.“ Fyrst í stað var sjónvarpað tvo daga í viku, tvær til þrjár klukkustundir í einu.

30. september 1996

Eldgos hófst í Vatnajökli, milli Bárðarbungu og Grímsvatna. Það stóð í tvær vikur. Eldstöðin, sem nefnd var Gjálp, bræddi mikið af ís og safnaðist vatn í Grímsvötn og hljóp þaðan mánuði síðar yfir Skeiðarársand og skemmdi mannvirki. Þetta er talið fjórða stærsta gosið á tuttugustu öld.

30. september 2005

Norska söngkonan Sissel Kyrkjebö hélt tónleika í Háskólabíói og „söng sig inn í hug og hjarta Íslendinga“, að sögn Morgunblaðsins. Meðal annars söng hún Á Sprengisandi og Sofðu unga ástin mín.

Dagar Íslands | Jónas Ragnarsson.