Dómsmálaráðuneytið vinnur nú að því að fá framseldan Steingrím Þór Ólafsson, sem var handtekinn í Venesúela á mánudag en hann er eftirlýstur vegna rannsóknar á umfangsmiklu fjársvikamáli sem teygir anga sína inn fyrir veggi ríkisskattstjóra.

Dómsmálaráðuneytið vinnur nú að því að fá framseldan Steingrím Þór Ólafsson, sem var handtekinn í Venesúela á mánudag en hann er eftirlýstur vegna rannsóknar á umfangsmiklu fjársvikamáli sem teygir anga sína inn fyrir veggi ríkisskattstjóra. Nafn mannsins var birt í fjölmiðlum í Venesúela.

Um er að ræða mál þar sem sviknar voru 270 milljónir króna út úr virðisaukaskattskerfinu en sex manns eru í gæsluvarðhaldi hér á landi vegna þess. „Við létum vita að hann væri að öllum líkindum í Venesúela. Og í framhaldi af því fengum við í fyrrakvöld tilkynningu frá þeim um að þeir hefðu farið og handtekið hann,“ segir Smári Sigurðsson hjá alþjóðadeild ríkislögreglustjóra. Ekki er vitað hvenær Steingrímur verður framseldur.

Fréttamiðlar í Venesúela sögðu frá handtökunni og birtu myndir af Steingrími. Þar kom fram að hann hefði verið tekinn höndum á Margarita-eyju er hann reyndi að bóka flug til Frankfurt á mánudag.

Lögmaður Steingríms, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður, segir hann hafa verið á leið til Íslands. Hann gagnrýnir að handtökuskipunin á hendur Steingrími hafi ekki verið afturkölluð þannig að hann kæmist heim. Eftirlýsingin seinki rannsókn málsins og flæki það.