Makrílrannsóknir Agnar Már Sigurðsson og Gunnhildur Vigdís Bogadóttir mæla, vigta, kyn- og kynþroskagreina fiskinn í leiðangri Árna Friðrikssonar í sumar. Einnig voru tekin magasýni úr fyrstu 10 fiskunum á hverri togstöð til fæðugreiningar, en allar upplýsingar voru nákvæmlega skráðar.
Makrílrannsóknir Agnar Már Sigurðsson og Gunnhildur Vigdís Bogadóttir mæla, vigta, kyn- og kynþroskagreina fiskinn í leiðangri Árna Friðrikssonar í sumar. Einnig voru tekin magasýni úr fyrstu 10 fiskunum á hverri togstöð til fæðugreiningar, en allar upplýsingar voru nákvæmlega skráðar. — Ljósmynd/Hafrannsóknastofnun
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
BAKSVIÐ Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Samkvæmt endurmati á niðurstöðum á útbreiðslu makríls kemur fram að um 1,1 milljón tonna hafi verið í íslenskri lögsögu í sumar.

BAKSVIÐ

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Samkvæmt endurmati á niðurstöðum á útbreiðslu makríls kemur fram að um 1,1 milljón tonna hafi verið í íslenskri lögsögu í sumar. Það er meira en nokkru sinni áður hefur verið mælt og um 450 þúsund tonnum meira en fram kom í bráðabirgðaskýrslu um sameiginlegan leiðangur Íslendinga, Norðmanna og Færeyinga fyrr í þessum mánuði.

Í tilkynningu frá Hafrannsóknastofnun segir að ástæða endurmats sé sú að eldri útreikningar hafi ekki verið bundnir við efnahagslögsögur, aðferðafræðin við útreikningana hafi verið ónákvæm og forsendur um stærð veiðarfæra skipanna ekki rétt.

Niðurstöður þeirra útreikninga sem nú liggja fyrir sýna að heildarmagn makríls á svæðinu sem leiðangurinn nær yfir er áætlaður um 4.85 milljónir tonna, en fyrra matið var nokkuð lægra eða 4,46 milljónir tonna. Útbreiðsla makríls var yfir stórt hafsvæði.

Villur í forsendum

Þorsteinn Sigurðsson, sviðsstjóri nytjastofnasviðs Hafrannsóknastofnunar, segir að nokkrar skýringar séu á þessu misræmi. Hann nefnir að vegna mannlegra mistaka hafi ákveðnar villur verið í forsendum um stærð veiðarfæranna sem unnið var með, en búið sé að leiðrétta þær. Þá hafi útreikningar ekki náð til alls svæðisins sem kannað var þannig að ekki voru teknar með upplýsingar um makríl fyrir sunnan 62. gráðu suður af landinu. Í framhaldinu hafi verið unnið með rangar upplýsingar við gerð bráðabirgðaskýrslunnar sem birt var 8. september. Í ljós hafi komið að tölur um 650 þúsund tonn endurspegluðu ekki dreifingu í lögsögunni.

Skýrsla um þessa endurskoðun útreikninga hefur verið send sem viðauki við sameiginlega leiðangursskýrslu sem kom út fyrr í mánuðinum og verður hluti skýrslu Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) sem fjallar um stofnmat á makríl. Norðmönnum og Færeyingum hefur verið gerð grein fyrir þessari endurskoðun sem var unnin í sátt við Hafrannsóknastofnun Norðmanna og Havstofuna í Færeyjum.

Íslendingar og Færeyingar tóku nú þátt í leiðangri sem þessum í annað sinn en Norðmenn hafa stundað rannsóknir á hluta svæðisins síðan 2004. Sökum stuttrar tímaraðar eru niðurstöðurnar ekki notaðar beint í mati á stærð stofnsins en þær gefa engu að síðu mikilvægar viðbótarupplýsingar um útbreiðslu og magn makríls í norðurhluta Atlantshafs, segir á hafro.is

Bergmálsmælingar erfiðar

Mælingar á makrílstofninum eru ýmsum vandkvæðum háðar. Í fyrsta lagi er fiskurinn ekki með sundmaga og því næst ekki endurkast með bergmálsmælingum frá makrílnum. Við bergmálsmælingar á öðrum fiskum kemur endurvarp hljóðsins að 95% frá sundmaganum. Norðmenn hafa unnið að þróun tækni til að bergmálsmæla makríl, en sú aðferð hefur ekki hlotið alþjóðlega viðurkenningu.

Í öðru lagi er makríll mjög ofarlega í sjónum og yfir sumarmánuðina er hann ofar en botnstykki skipanna. Þessi staðreynd torveldar enn frekar bergmálsmælingar á makríl. Það er helst á haustin sem makríll leitar neðar í sjónum, en á þeim tíma er makríll lítið eða ekki í íslenskri lögsögu.

„Þar sem bergmálsmælingar hafa ekki dugað til að fínstilla stofnmatslíkön makríls þá hefur frá árinu 1977 verið beitt eggja- eða hrognatalningu,“ segir Þorsteinn. „Í slíka leiðangra er farið þriðja hvert ár og tóku Íslendingar þátt í þeim í fyrsta skipti í ár. Leiðangrarnir stóðu frá janúar og fram í miðjan júní. Egg voru talin syðst og austast í íslensku lögsögunni í lok leiðangursins og alla leið suður í Bisqaya-flóa síðastliðinn vetur.

Vart varð við hrygnandi makríl syðst í íslensku lögsögunni, en talið er að það hafi verið um 1% af heildarhrygningunni. Alls tóku þrettán skip þátt í þessu verkefni í 16 leiðöngrum og nálguðust skipadagarnir heilt ár, sem sýnir hversu umfangsmikið þetta verkefni er,“ segir Þorsteinn.

Í eggjatalningunni eru tekin sýni með háfi úr yfirborðslögum sjávar og síðan er reiknað út miðað við fjölda eggja í hverju kasti hversu margir fiskar hrygndu það árið. Til grundvallar liggja fyrir margvíslegar upplýsingar, meðal annars úr fyrri leiðöngrum auk frjósemismælinga, þ.e. heildarfjölda hrogna í hverri hrygnu.

Á bak við útreikningana er gríðarlegt magn af sýnum og upplýsingum og þetta er sú aðferð sem ICES notar til að meta stærð makrílstofnsins ásamt upplýsingum um aldursdreifingu og afla.

Stöðluð tog í stöðluð troll

„Okkar aðferð við útreikninga á útbreiðslu makríls og magni í íslensku lögsögunni byggist á því að taka stöðluð tog í eins stöðluð troll og hægt er,“ segir Þorsteinn.

„Út frá toglengd og flatarmáli hvers togs er hægt að reikna út hversu mörg tonnin eru. Auðvitað eru víð óvissumörk í þessum mælingum sem og forsendunum, en þessi aðferð er ekki ósvipuð þeim sem Alþjóðahafrannsóknaráðið notar til að mæla karfa. Þó svo að hann sé með sundmaga stendur hann mjög djúpt og að auki er erfitt að greina merkin frá honum frá merkjum sem berast frá fisktegundum í miðsjávarlögum, tegundum eins og laxsíldum, slóansgelgju og öðrum miðsjávartegundum fiska,“ segir Þorsteinn.

MAKRÍLKVÓTINN LANGT KOMINN

Eftir að veiða 10 þúsund tonn

Búið er að veiða um 120 þúsund tonn af þeim 130 þúsund tonna makrílafla sem íslenskum fiskiskipum er heimilt að veiða í ár samkvæmt ákvörðun sjávarútvegsráðherra. Mestu hefur verið landað í Neskaupstað eða um 35 þúsund tonnum, um 25 þúsund tonn eru komin á land í Vestmannaeyjum og tæplega 15 þúsund tonn á Vopnafirði og Eskifirði.

Á heimasíðu HB Granda kemur fram að fyrirtækið á eftir um 7.500 tonn af síld og rúmlega 1.000 tonn af makríl.

Þar segir að nokkur norsk skip hafi komið til veiða á norsk-íslenskri síld í íslenskri lögsögu í síðustu viku. Nokkur færeysk skip eru þar einnig að veiðum.

Hátt hlutfall veiðist í lögsögunni

Útreikningar benda til að 350-400 þúsund tonn hafi verið af makríl í lögsögunni í fyrra þegar farið var í makrílleiðangur. Þá var búið að veiða makrílafla síðasta árs, um 112 þúsund tonn.

Þorsteinn Sigurðsson segir hæpið að hægt sé að segja að um fimmti hver makríll sem gekk inn í íslenska lögsögu í fyrra hafi verið veiddur og tíundi hver í sumar miðað við að um 1.100 þúsund tonn hafi verið í lögsögunni. Makrílrannsóknir sumarsins bregði aðeins upp mynd af stöðunni eins og hún var þegar leiðangurinn stóð yfir.

Fyrri tölur teknar af heimasíðunni

Ný skýrsla Hafrannsóknastofnunar verður send sem viðauki til Alþjóðahafrannsóknaráðsins. Þegar mistök vegna forsendubrests í bráðabirgðaskýrslunni frá 8. september síðastliðinn urðu ljós var frétt um hana tekin út af heimasíðunni hafro.is.

Strandríkjafundur um miðjan október

Um miðjan október verður haldinn strandríkjafundur í London um makrílveiðar. Auk Íslendinga taka fulltrúar Evrópusambandsins, Norðmanna og Færeyinga þátt í fundinum. Undanfarin ár hefur makrílafli verið talsvert umfram ráðgjöf Alþjóða hafrannsóknaráðsins (ICES). Fulltrúar Skota og fleiri hafa gagnrýnt makrílveiðar Íslendinga og Færeyinga.

Á fundinum í London verður gerð grein fyrir niðurstöðum margvíslegra rannsókna, en núna á föstudag kynnir ICES niðurstöður sínar um stofnstærð nokkurra uppsjávartegunda.