Hlaðin borð Þingmenn skyldu fjölmörg mál eftir á borðum sínum þegar þingi var slitið á þriðjudag. Þau verður að flytja aftur á næsta þingi.
Hlaðin borð Þingmenn skyldu fjölmörg mál eftir á borðum sínum þegar þingi var slitið á þriðjudag. Þau verður að flytja aftur á næsta þingi. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Andri Karl andri@mbl.is Síðastliðinn þriðjudag lauk 138. löggjafaþingi, eftirminnilegu þingi fyrir margar sakir, ekki síst hvernig því einmitt lauk. Þá er um að ræða lengsta þing sem haldið hefur verið.

Fréttaskýring

Andri Karl

andri@mbl.is

Síðastliðinn þriðjudag lauk 138. löggjafaþingi, eftirminnilegu þingi fyrir margar sakir, ekki síst hvernig því einmitt lauk. Þá er um að ræða lengsta þing sem haldið hefur verið. Þingfundirnir stóðu í rúmlega 886 klukkustundir en það sem kemur næst er 116 þing sem hófst í ágúst 1992 og afgreiddi EES-samninginn. Það þing stóð í 879 klukkustundir. Eins og gengur og gerist tókst ekki að klára öll þau mál sem vonast var til og þarf því að klippa á vænan þingmálahala.

Í lögum um þingsköp Alþingis segir í 52. gr.: „Þingmál, sem ekki hafa hlotið lokaafgreiðslu við þinglok, falla niður.“ Samkvæmt því sem kemur fram á Alþingisvefnum voru fjörutíu stjórnarfrumvörp sem klippt voru af á þriðjudag, þ.e. þau sem höfðu farið í gegnum 1. umræðu, voru í nefnd, biðu 2. eða 3. umræðu. Þar sem þessi mál eru fallin niður þarf að leggja þau fyrir Alþingi á nýjan leik og flytja aftur.

Sex þingfundir í umræðurnar

Málin fjörutíu eru bæði stór og smá. Lengst var rætt um frumvörp til laga um persónukjör eða í þrjár klukkustundir og 35 mínútur. Þá var rætt um sameiningu héraðsdómstóla í rúmar þrjár klukkustundir. Fjölmiðlalögin voru rædd í tæpa tvo tíma og lög um innistæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta í rúma tvo tíma. Þá fór um ein og hálf klukkustund í að ræða ný umferðarlög. Eitthvað svipað í fækkun lögregluembætta.

Alls fóru rúmlega þrjátíu klukkustundir í að ræða málin fjörutíu sem féllu niður og – ef vilji stendur til – leggja þarf fyrir Alþingi á ný. Að meðaltali stóð hver þingfundur í rúmar fimm klukkustundir og því má ætla að um sex þingfundir hafi farið í að ræða stjórnarfrumvörpin fjörutíu.

Þrjátíu klukkustundir eru þó ef til vill smáræði þegar horft er til þess að umræðan um ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, þ.e. Icesave-samningana, stóð í rúmar 135 klukkustundir. Og það mál er hvergi nærri leyst!

Sú staðreynd að þingmálahalinn svonefndi skuli ávallt skilinn eftir milli löggjafarþinga hefur nokkuð verið gagnrýnd, og í gegnum árin lögð fram frumvörp til breytingar á þingskaparlögum. Meðal annars var Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, fyrsti flutningsmaður að frumvarpi þess efnis á síðasta þingi, en með honum voru flutningsmenn úr Samfylkingunni, Vinstri grænum og Framsóknarflokki. Frumvarpið var hins vegar ekki tekið til umræðu og segir Þór að það verði lagt fram að nýju. Öll rök um að frumvarpið standist ekki stjórnarskrá hafi verið hrakin af sérfæðingum.

Verkefni stjórnlagaþings

Í frumvarpinu er lagt til að þingmál sem ekki hafa hlotið lokaafgreiðslu við lok löggjafarþings skuli taka upp á næsta þingi nema flutningsmaður dragi málið til baka. Þingmál sem ekki hafa hlotið lokaafgreiðslu við lok kjörtímabilsins falli hins vegar niður.

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, segir ástæðuna fyrir því að breytingar hafi ekki verið gerðar þá að áhöld séu um hvort það standist stjórnarskrá. Niðurstaðan hafi verið sú að leyfa stjórnarskránni að njóta vafans. Hins vegar telur Ásta Ragnheiður eðlilegt að stjórnlagaþingið taki þetta til skoðunar í sinni vinnu.

Lengsta þingið

169

þingfundir voru haldnir

á 138. löggjafaþingi

Icesave

Lengsta umræðan á þinginu var um ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

Stóð hún í rúmar 135 klukkustundir.

886

klukkustundir fóru í þingfundina 169 sem haldnir voru á 128 þingfundadögum.

137

frumvörp urðu að lögum, af þeim 224 sem lögð voru fram á nýliðnu þingi. Atkvæðagreiðslur voru 1.972.