Áhorfendurnir Twenty Ten-golfvöllurinn er hannaður með áhorfendur í huga og geta þeir fylgst með úr háum brekkum til hliðar við brautirnar og völlurinn er hannaður með það í huga að tugþúsundir áhorfenda geti flutt sig auðveldlega á milli staða á lokaholunum þar sem spennan verður í hámarki. Myndin er tekin við æfingu á vellinum fyrr í vikunni.
Áhorfendurnir Twenty Ten-golfvöllurinn er hannaður með áhorfendur í huga og geta þeir fylgst með úr háum brekkum til hliðar við brautirnar og völlurinn er hannaður með það í huga að tugþúsundir áhorfenda geti flutt sig auðveldlega á milli staða á lokaholunum þar sem spennan verður í hámarki. Myndin er tekin við æfingu á vellinum fyrr í vikunni. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
The Twenty Ten-golfvöllurinn í Newport í Suður-Wales er fyrsti golfvöllurinn sem hannaður er frá upphafi með Ryder-keppnina í huga.

Á Celtic Manor-golfsvæðinu í New Port í Suður-Wales eru þrír 18 holu keppnisvellir í hæsta gæðaflokki. The Twenty Ten-golfvöllurinn var opnaður í júlí fyrir þremur árum og er hann fyrsti golfvöllurinn sem er hannaður frá upphafi fyrir Ryder-keppnina.

Ross McMurray, golfvallahönnuður hjá European Golf Design-fyrirtækinu, hafði umsjón með verkinu sem tók alls átta ár. Gríðarlegar framkvæmdir voru á vellinum á árunum 2005-2006. Milljón rúmmetrum af mold var ýtt til hliðar og fluttir á milli staðar við framkvæmdina á The Twenty Ten-vellinum. Byggður var til helminga alveg nýr völlur frá grunni en einnig var Wentwood Hills-vellinum breytt og hann felldur inn í nýja völlinn. Robert Trent Jones jr. hannaði þann völl.

Hannaður með áhorfendur í huga

Ryder-keppnin er þriðji stærsti íþróttaviðburður heims í sjónvarpi. Aðeins heimsmeistarakeppnin í fótbolta og sumarólympíuleikarnir eru með meira áhorf. Áhorfendur láta sig ekki vanta á keppnina og er gert ráð fyrir að 50.000 áhorfendur mæti á hverjum degi alla þrjá keppnisdagana. Völlurinn er hannaður með áhorfendur í huga og geta þeir fylgst með úr háum brekkum til hliðar við brautirnar og völlurinn er hannaður með það í huga að tugþúsundir áhorfenda geti flutt sig auðveldlega á milli staða á lokaholunum þar sem spennan verður í hámarki.

Völlurinn er 6.852 metrar af keppnisteigum, par 71, en til samanburðar er Grafarholtsvöllur 6.026 metrar að lengd af öftustu teigum.

Vatn og vatnshindranir koma við sögu á helmingi brauta The Twenty Ten-vallarins, og getur því margt farið úrskeiðis í harðri holukeppni Evrópuliðsins gegn Bandaríkjamönnum. Margar brautir vallarins eru hannaðar með það að markmiði að bjóða kylfingunum upp á ýmsa möguleika í upphafshöggunum. Sóknarleikur getur borgað sig á vissum brautum og á öðrum er betra að spila af öryggi.

Lokaholurnar þrjár, 16., 17. og 18., eru í lægsta hluta dalsins og þar munu úrslitin ráðast í flestum leikjum keppninnar. Sextánda brautin er 456 metra löng par 4-hola, sem er ekkert smáræði. Sú næsta er 182 metra löng par 3, og þar þarf alvöru verkfæri til þess að koma boltanum á flötina. Lokaholan er par 5, og 525 metra löng. Þar er vatn fyrir framan flötina og aðeins fullkomið innáhögg með brautartré eða blending getur komið boltanum inn á flötina í tveimur höggum. Þeir sem ákveða að leggja „upp“ í öðru högginu eiga eftir erfitt vipp úr niðurhalla inn á flötina, sem stendur hátt yfir brautinni.

seth@mbl.is

Rigningin ekki vandamál

Það rignir af og til í Wales, og stundum fellur gríðarlegt magn af vatni á The Twenty Ten-völlinn. Sir Terence Matthews, eigandi vallarins, hefur engar áhyggjur af því að mikil rigning setji keppnishaldið úr skorðum. „Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af regninu. Þegar golfvöllur er hannaður er þrennt sem þarf að hafa í huga. Í fyrsta lagi þarf að koma vatni sem fellur á völlinn í burtu með öflugum niðurföllum, í öðru lagi þarf að koma vatni sem fellur á völlinn í burtu með öflugum niðurföllum, í þriðja lagi þarf að koma vatni sem fellur á völlinn í burtu með öflugum niðurföllum. Og ef það dugir ekki til þarf að koma upp fleiri niðurföllum. Ef eins mánaðar úrkoma myndi falla á völlinn á einum degi þá tæki það aðeins 10 mínútur að þurrka völlinn,“ sagði Matthews kokhraustur í blaðaviðtali á dögunum.