Lene Espersen
Lene Espersen
Lene Espersen, utanríkisráðherra Danmerkur, ræddi í gær við sendiherra 17 múslímaríkja. Tilefnið var útgáfa bókar um hinar umdeildu skopteikningar, sem birtust af spámanninum Múhameð í blaðinu Jyllands-Posten fyrir fimm árum upp á dag.

Lene Espersen, utanríkisráðherra Danmerkur, ræddi í gær við sendiherra 17 múslímaríkja. Tilefnið var útgáfa bókar um hinar umdeildu skopteikningar, sem birtust af spámanninum Múhameð í blaðinu Jyllands-Posten fyrir fimm árum upp á dag. Birting teikninganna vakti mikla reiði múslíma víða um heim. Tilgangurinn með fundinum var að draga úr spennu milli Danmerkur og múslímaríkja.

Í dag kemur út bók eftir Flemming Rose, sem var menningarritstjóri Jyllands-Posten þegar blaðið birti teikningarnar 30. september 2005. Bókin nefnist „Harðstjórn þagnarinnar“. Þar verða teikningarnar ekki prentaðar sérstaklega, en birt mynd af forsíðu blaðsins þar sem allar teikningarnar tólf sjást.

Espersen mun hafa lagt áherslu á að „málfrelsi væri hornsteinn lýðræðis í Danmörku og því hefði fólk rétt til að prenta bækur að því gefnu að þær væru innan ramma laganna“.

Um leið kvaðst hún hafa ítrekað að dönsk stjórnvöld virtu öll trúarbrögð og trúfélög og vildu eiga sterk, góð og vinsamleg samskipti við múslímaheiminn: „Uppbyggileg umræða er leiðin fram á við.“