Littlerock Rettum stungið saman. Einfalt efni og snúið en góð mynd.
Littlerock Rettum stungið saman. Einfalt efni og snúið en góð mynd.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikstjóri: Mike Ott. Aðalleikarar: Atsuko Okatsuka, Cory Zacharia, Rintaro Sawamoto, Roberto „Sanz“ Sanchez. 84 mín. Bandaríkin. 2010.

Lítil, áleitin mynd um pílagrímsferð japanskra ungmenna, Atsuko (Okatsuka) og Rintaro (Sawamoto), bróður hennar, sem reynist æ áhugaverðari eftir því sem á líður. Systkinin eru komin til Kaliforníu til að heimsækja fangabúðirnar í Manzanar, þar sem Bandaríkjamenn geymdu á annað hundrað þúsund landa sína af japönsku bergi brotna eftir árásina á Pearl Harbor. Þ.ám. afa þeirra.

Um sinn verða systkinin innlyksa í Littlerock, kalifornískum smábæ, þegar bílaleigubíllinn bilar. Þau koma sér fyrir, kynnast jafnöldrum sínum, fara í partí og hin föngulega Atsuko vill dvelja þar á meðan bróðir hennar hefur uppi á öðru ökutæki.

Atsuko er mállaus á ensku, Rintaro getur bjargað sér. Samt er það hún sem nær að tengjast því framandi þjóðfélagi og persónum sem hún eyðir með tímanum í smábænum. Yfir Littlerock hvílir óþvingað andrúmsloft, Atsuko tekst að hræra upp í hjarta Coreys (Zacharias), en veðjar á vitlausan hest. Þrátt fyrir tungumálaþröskuldinn kemst hún inn undir skinnið á framandi jafnöldrum sínum í bænum og í eftirminnilegu atriði í lokin dregur hún saman reynslu sína í símtali við Corey, þótt hvorugt skilji hitt. Systkinin ná á leiðarenda en það skiptir mun minna máli eftir dvölina í Littlerock. Myndin er skrifuð og stýrt af Ott, sem nær fram firnatrúverðugum leik hjá Okatsuka, tjáning hennar nær beinustu leið til áhorfenda.

Það hefur verið vandasamt verk að vinna langa mynd úr jafnsnúnu en tiltölulega einföldu efni og það hefur Ott tekist ljómandi vel, hann setur þungamiðjuna á unga fólkið en veltir mun minna fyrir sér árekstrum menningarheima, líkt og venjan er í myndum sem þessari. Í stað þess fáum við að kynnast hugarheimi og tilfinningum ólíkra persóna og það tekst eftirminnilega fölskvalaust.

Sæbjörn Valdimarsson

Sýnd í dag og á morgun.

Guð býr í gufunni

Steam of Life ****-

Leikstjórar: Joonas Berghäll og Mika Hotakainen. „Aðalleikarar“: Finnskir karlmenn. 81 mín. Finnland/Svíþjóð. 2010. Flokkur: Heimildarmyndir.

Gufubaðið er Finnum eins og Guinnessinn Írum, rauðvínið Frökkum o.s.frv.; órofa partur af sálarlífi Finnans. Og það er greinilega í þeim aðstæðum sem finnskir karlmenn opna sig og leyfa tilfinningum að flæða út, með svitanum. Karlmenn, og það finnskir í þokkabót, að opna fyrir sínar leyndustu og erfiðustu tilfinningar er eitt af því sem gerir þessa afbragðsgóðu mynd svo áhrifaríka, þessi innbyggða mótsögn, liggur mér við að segja, snertir mann og fær mann til að galopna augun.

Bygging myndarinnar er einföld, við erum nánast eins og flugur á blautum vegg og fylgjumst með karlmönnum á ýmsum aldri og úr ýmsum áttum skrafa saman í gufuböðum af öllum hugsanlegum gerðum, hvort sem það eru almenningsgufuböð eða, eins og í einu tilfellinu, símaklefi. Senurnar eru grátbroslegar, hlægilegar, súrrealískar og sorglegar og það er viss stígandi í myndinni hvað „erfiðleikastigið“ varðar. Við fylgjumst t.d. með tveimur mönnum með downs-heilkenni spjalla, ungur faðir talar glaðlega um unga dóttur sína og einn enn lýsir sérkennilegu vináttusambandi sínu við björn.

Einföld uppsetningin, auk víðra skota úr fallegri en um leið hryssingslegri náttúru Finnlands, leiðir mann áfram og byggir undir stemningu. Myndin líður eiginlega áfram eins og tónverk að þessu leytinu til. Eitt af lokaatriðunum er þannig að þú þyrftir að vera með hjarta úr steini til að komast ekki við. Og lokalokasenan er mögnuð; snilldarlegur lokapunktur á heildstæðri og einkar eftirminnilegri kvikmynd.

Arnar Eggert Thoroddsen

Sýnd í dag og 2. október.

Sagan af Larry hinum blinda

Aardwark/ Mauraæta &sstar;stjörnugjöf: 1&sstar;

Leikstjóri: Kiato Sakurai. Aðalhlutverk: Larry Lewis jr., Darren Branch og Jessica Cole. 80 mín. Bandaríkin/Argentína.Flokkur: Vitranir.

Myndin Mauraæta (Aardvark) fjallar um Larry, blindan mann sem er í leit að lífsfyllingu milli þess sem hann sækir AA-fundi. Hann finnur sig loks í iðkun sjálfsvarnaríþróttarinnar jiu-jitsu og kynnist þar þjálfaranum Darren og í kjölfarið fatafellunni Candy. Fljótlega bankar ógæfan þó upp á og í kjölfarið fer Larry á stúfana til að leita útskýringa á nýliðnum hörmungaratburðum.

Leikstjórinn Sakurai sagði sjálfur frá því í viðtali að myndin væri blanda af kvikmynd og heimildarmynd og ku sagan eiga sér einhverja stoð í raunveruleikanum, aðalpersónurnar bera sömu nöfn og leikararnir sem þær túlka og utan voðaverknaðarins í lok myndarinnar á söguþráðurinn sér hliðstæðu í lífi leikaranna.

Það gerir stærsta ókost myndarinnar enn óskiljanlegri. Áhorfandinn hefur litla sem enga tilfinningu fyrir sambandi aðalpersónanna. Þótt hver og einn karakter virðist vel skapaður og vel „leikinn“ af fyrirmyndunum er samband þeirra ótrúverðugt og illa leikið. Það má eflaust skrifa á bæði reynsluleysi leikaranna, sem þreyta víst allir frumraun sína á hvíta tjaldinu, sem og klént handrit. Mikil áhersla er á hið líkamlega í myndinni í samskiptum aðalpersónanna, hvort sem er á bardagaæfingum eða bara heimavið, og er tónlistin í myndinni ansi mögnuð, hástemmt raf-pönk á köflum, sem ýtir undir yfirvofandi óhugnað í sögunni.

Myndin er stutt, ekki nema 80 mínútur, og inniheldur margar fallegar tökur. Löng skot af aðalpersónum á gangi eða við iðkun jiu-jitsu eru falleg og auka á þá upplifun að verið sé að horfa á tilraunaverk í kvikmyndagerð frekar en að segja heilsteypta sögu. Og það er kannski bara allt í lagi.

Bylgja Björnsdóttir

Sýnd 1. og 2. október.