Frá Pálínu Vagnsdóttur: "Með bros á vör og þakklæti í huga sest ég nú niður í þeim tilgangi að óska Vestfirðingum og landsmönnum öllum hjartanlega til hamingju með Bolungarvíkurgöngin."

Með bros á vör og þakklæti í huga sest ég nú niður í þeim tilgangi að óska Vestfirðingum og landsmönnum öllum hjartanlega til hamingju með Bolungarvíkurgöngin. Ekki síst vil ég fagna með Vegagerðarstarfsmönnum sem nú eru lausir við rússnesku rúllettuna Óshlíðina, einn mesta Ó-veg landsins. Hver hefði trúað því, þegar undirrituð og Bergur Karlsson í Bolungarvík fóru af stað með undirskriftalistann „Við viljum göng“ í febrúar 2005, að svo stutt væri í að göng yrðu opnuð milli Bolungarvíkur og Ísafjarðarbæjar eða 25. september 2010.

Ég var fjarri góðu gamni við formlega opnun ganganna en fagnaði í sál og hjarta þessum einstaka áfanga. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka sérstaklega öllum þeim fjölmörgu sem voru svo hugaðir að rita nöfn sín á áðurnefndan undirskriftalista. Með því tjáðum við án nokkurs vafa hug okkar og vilja um göng milli Bolungarvíkur og Ísafjarðarbæjar. Húrra fyrir okkur öllum sem höfum lagt hönd á plóginn.

Við fyrsta tækifæri mun ég aka í gegnum Bolungarvíkurgöngin með systkinum mínum og móður sem búa í Bolungarvík, Ylfu Mist Helgadóttur og Bergi Karlssyni, baráttufólki fyrir bættum samgöngum, Óla Halldórs, þeim einstaka frænda okkar á Ísafirði, en því miður verður „Vega-Valla“ fjarri í Danaveldi. Með „Vega-Völlu“ á ég við Valrúnu Valgeirsdóttur, en í dag hugsa ég til hennar og þakka henni hennar frábæru óeigingjörnu baráttu fyrir Óshlíðargöngum. Þegar þær tóku sig saman „Vega-Valla“ og Ylfa Mist var ekki að spyrja að kraftinum. Í farteskinu í gegnum göngin verður vonandi heimabakað brauð, heimagerð sulta, malt og appelsín og harðfiskur.

Ég skora á gjörningalistamenn að taka sig saman og fremja náttúrugjörning sem gæti haft yfirskriftina „Óður til Ó-veganna“. Bílhræjum yrði raðað þétt á Óshlíðina – nóg er jú af þeim – og Óshlíðarbjörgin látin dynja á þeim í svona eitt ár. Skoðum stöðuna næsta haust, hversu mikið hefur hrunið. Með „Óði til Ó-veganna“ myndum við þakka Óshlíðinni samgönguhlutverkið og í raun mildi sína. Með gjörningnum myndum við fá að sjá með eigin augum hversu lánsöm við höfum verið í gegnum tíðina þrátt fyrir allt.

Þó að nú ríki gleði yfir langþráðum áfanga megum við ekki gleyma. Á þessari stundu minnist ég yndislegs fólks, sem ég þekkti, með trega. Fólks sem allt of ungt fórst á Óshlíð, þeirra Svövu Þorláksdóttur, Bernódusar Finnbogasonar, Ágústar Markúsarsonar og Bjarka Vestfjörð. Ég minnist jafnframt þeirra með trega sem ég þekkti ekki en hafa farist á Ó-vegum landsins. Blessuð sé ævinlega minning þeirra. Um leið og ég rita þessar línur er ég þess fullviss að undir Guðs verndarvæng hafa færri slys orðið á Óshlíð en annars hefðu getað orðið.

Baráttu fyrir bættum samgöngum á Vestfjörðum er hvergi nærri lokið. Betur má ef duga skal. Ég á mér framtíðardraum um Dýrafjarðargöng, Súðavíkurgöng, að tengja betur saman norðanverða og sunnanverða Vestfirði og bæta vegi frá sunnanverðum Vestfjörðum suður. Eitt er víst að öruggar samgöngur eru undirstaða öflugra byggðakjarna.

Með ítrekuðum hamingjuóskum.

PÁLÍNA VAGNSDÓTTIR,

Stóragerði 4, Reykjavík.

Frá Pálínu Vagnsdóttur