Efnilegur Guðlaugur Victor hefur verið fyrirliði varaliðs Liverpool.
Efnilegur Guðlaugur Victor hefur verið fyrirliði varaliðs Liverpool. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.is „Ég vonast til þess að verða lánaður og ég reikna með að málin skýrist eftir landsleikina við Skota.

Viðtal Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

„Ég vonast til þess að verða lánaður og ég reikna með að málin skýrist eftir landsleikina við Skota. Southampton, Peterborough og Swindon hafa öll staðfest áhuga sinn á að fá mig að láni og það fleiri lið að spyrjast fyrir um mig. Þetta eru allt lið úr 2. deildinni og mér er svo sem alveg sama til hvaða liðs ég fer. Ég þarf að fá að spila og öðlast reynslu,“ sagði Guðlaugur Victor Pálsson, leikmaður Liverpool og U21 árs landsliðsins í knattspyrnu, við Morgunblaðið í gær.

Ekki verið rætt um nýjan samning

Guðlaugur er 19 ára gamall og gekk til liðs við Liverpool frá danska liðinu AGF í janúar 2009. Hann var í röðum Fylkis áður en hann fór 16 ára gamall til AGF. Guðlaugur hefur spilað með unglinga- og varaliði Liverpool frá því hann kom til liðsins en fékk að spreyta sig með aðalliðinu í undirbúningsleikjum þess í sumar. Samningur hans við Liverpool rennur út næsta sumar.

„Ég veit svo sem ekkert hvert framhaldið verður. Það hefur ekki verið rætt við mig um nýjan samning en þetta veltur svolítið á því hvað gerist hjá mér á næstunni. Ef ég stend mig vel hjá því liði sem ég fer til láns hjá er aldrei að vita nema mér verði boðinn nýr samningur,“ sagði Guðlaugur Victor, sem æfir nær eingöngu með varaliðinu og hefur verið fyrirliði þess.

Andrúmsloftið hefur verið betra

Eins og flestir vita hefur gengi Liverpool, eins sigursælasta liðs Bretlandseyja, ekki verið upp á marga fiska. Liðið er í 16. sæti í úrvalsdeildinni og var niðurlægt á heimavelli sínum í síðustu viku þegar 3. deildar liðið Northampton sló Liverpool út í deildabikarnum. Spurður hvernig andrúmsloftið sé í herbúðum Liverpool sagði Guðlaugur; „Það hefur verið betra. Því miður hefur liðinu ekki gengið nógu vel en vonandi fer það að lagast,“ sagði Guðlaugur.

Guðlaugur er ekki eini Íslendingurinn sem er á mála hjá Liverpool en í fyrrasumar skrifaði Kristján Gauti Emilsson undir samning við félagið. Hann spilar með U18 ára liðinu en hefur verið frá síðustu sex vikurnar vegna meiðsla í ökkla.