Háhitasvæði Nú þegar hefur verið fjárfest verulega í rannsóknum á Þeistareykjasvæðinu.
Háhitasvæði Nú þegar hefur verið fjárfest verulega í rannsóknum á Þeistareykjasvæðinu. — Morgunblaðið/RAX
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Landsvirkjun á nú tæplega 93% í Þeistareykjum ehf. eftir kaup á meginhluta eignarhluta Orkuveitu Húsavíkur.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Landsvirkjun á nú tæplega 93% í Þeistareykjum ehf. eftir kaup á meginhluta eignarhluta Orkuveitu Húsavíkur. Salan mun létta mjög á fjárhag Norðurþings sem er eigandi Orkuveitunnar og skapa tækifæri til að ráðast í framkvæmdir vegna atvinnuuppbyggingar.

„Við höfum ávaxtað okkar pund ágætlega. Þetta snýst þó í okkar huga meira um samfélagið, framtíðina og uppbyggingu. Þannig höfum við nálgast málið og munum gera áfram,“ segir Bergur Elías Ágústsson, bæjarstjóri Norðurþings og formaður stjórnar Orkuveitu Húsavíkur.

Orkuveita Húsavíkur, Norðurorka á Akureyri og sveitarfélögin sem mynda Þingeyjarsveit stofnuðu Þeistareyki til að rannsaka og afla orku á Þeistareykjasvæðinu til atvinnuuppbyggingar á svæðinu. Landsvirkjun gekk til liðs við félagið fyrir fimm árum. Landsvirkjun keypti hlut Norðurorku í lok síðasta árs og eignaðist þar með meirihluta félagsins. Eftir kaup á meginhluta eignarhluta Orkuveitu Húsavíkur á Landsvirkjun tæp 93%, Þingeyjarsveit rúm 4% og Orkuveita Húsavíkur rúm 3%.

Landsvirkjun kaupir hlutinn á 14 milljónir dala, sem samsvarar tæplega 1,6 milljörðum króna, og verður kaupverðið greitt í áföngum þar til orkuvinnsla hefst.

Sala var samþykkt í stjórn Orkuveitu Húsavíkur en á eftir að fara fyrir bæjarstjórn Norðurþings sem er eini eigandi fyrirtækisins. Bergur segir að salan styrki efnahag og rekstur sveitarfélagsins sem geti greitt verulegan hluta af vaxtaberandi skuldum sínum með söluandvirðinu. Hann segir þó aðalatriðið að sveitarfélagið hafi nú aðstöðu til að ráðast í frekari uppbyggingu innviða samfélagsins vegna atvinnuuppbyggingar á svæðinu.

Samhliða kaupunum gera Norðurþing og Landsvirkjun með sér samstarfssamning um nýtingu raforkunnar. Áfram verður unnið að því að fá áhugasama orkukaupendur til að hefja orkufreka starfsemi í Þingeyjarsýslum.

Sameiginlegu umhverfismati fyrir virkjanir á Þeistareykjum og álveri við Húsavík ásamt tengdum framkvæmdum er að ljúka. „Það er mín von að Norðausturland geti hjálpað upp á atvinnustigið í landinu með umtalsverðum framkvæmdum,“ segir Bergur.