Hlustað af athygli Nokkur hundruð nemendur Menntaskólans á Akureyri hlýddu á Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta, í Kvosinni í gær.
Hlustað af athygli Nokkur hundruð nemendur Menntaskólans á Akureyri hlýddu á Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta, í Kvosinni í gær. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÚR BÆJARLÍFINU Skapti Hallgrímsson Akureyri Hvort er haust eða vor? Væri Eyjafjörður settur í litgreiningu yrði útkoman líklega haust, en hitamælirinn segir vor. Jafnvel sumar. Eða kannski er það bara frábært haust.

ÚR BÆJARLÍFINU

Skapti Hallgrímsson

Akureyri

Hvort er haust eða vor? Væri Eyjafjörður settur í litgreiningu yrði útkoman líklega haust, en hitamælirinn segir vor. Jafnvel sumar. Eða kannski er það bara frábært haust.

Alveg finnst mér það bráðsniðugt hjá Icelandair hótelum að tryggja sér gamla Iðnskólann við Þórunnarstræti undir hótel. Húsið, sem Háskólinn á Akureyri hefur notað undanfarin ár, er á sérlega góðum stað; nokkra metra frá sundlauginni og örstutt er niður í bæ.

Ríkið og Akureyrarbær áttu gamla Iðnskóla-/háskólahúsið til helminga en það mun nýlega hafa verið selt Pálma Harðarsyni fyrir 160 milljónir kr. Hann hefur nú leigt Icelandair hótelum húsið til 20 ára.

Alls verður 101 herbergi á þessu nýja hóteli; 63 eiga að verða tilbúin 1. júní á næsta ári og önnur 38 nákvæmlega ári síðar.

Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, heimsótti bæði Menntaskólann á Akureyri og Háskólann á Akureyri í gær.

Tilefni heimsóknar Vigdísar var evrópski tungumáladagurinn sem var á sunnudaginn og af því tilefni spjallaði Vigdís við nemendur um gildi þess að læra tungumál og mikilvægi tungumálakunnáttu í samskiptum þjóðanna.

Varla er hægt að leggjast lægra en selja börnum fíkniefni. Fjórir menn voru teknir við einn grunnskóla bæjarins að kvöldi dags fyrir skömmu grunaðir um sölu. Í bíl þeirra fundust nokkrir pokar af marijúana. Hvað þarf til að útrýma svona starfsemi? Lögreglan þiggur áreiðanlega allar ábendingar.

Freyvangsleikhúsið bregst ekki þennan veturinn frekar en áður. Síðasta vetur var boðið upp á haustverkefni í fyrsta skipti, í tilraunaskyni og gafst svo vel að framhald verður á. Í kvöld á að frumsýna frumsamið verk, Bannað börnum.

Í nóvember verður árlegur Kabarett í Freyvangsleikhúsinu en aðaluppfærsla leikársins verður Góði dátinn Svejk. Hann verður frumsýndur í febrúar og þá er hætt við því að hátt verði hlegið.

Tónleikahelgin á Græna hattinum hefst í kvöld þegar Hörður Torfason kemur þar fram. Á föstudags- og laugardagskvöld stendur Geimsteinsútgáfan fyrir útgáfuveislu með ýmsum hljómsveitum.