Styrmir Guðmundsson
Styrmir Guðmundsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Menn venjast kostunum og sjá ekki ókostina fyrr en of seint. Seðlabankinn á því hrós skilið fyrir að ætla að taka á vandamálinu þótt erfitt verði.

Seðlabankinn hefur nú sýnt mikla ábyrgð í því að fylgja eftir margítrekuðum yfirlýsingum hvað varðar afnám hafta, en þessar yfirlýsingar hafa verið tíundaðar á hverjum einasta vaxtaákvörðunarfundi og í fundargerðum Peningastefnunefndar SÍ. Hins vegar höfðu fáir búist við að Seðlabankanum væri alvara í þessum yfirlýsingum og töldu þetta málþóf til þóknunar AGS.

Með höftum er gengi örmyntar haldið uppi með lögum. Það vita allir að markaðsverð ræðst ekki af ákvörðunum hins opinbera, en meðan neyðin var sem mest í kjölfar bankahrunsins komu höftin nauðsynlegum böndum á verðbólgu og efnahagsreikninga heimila og fyrirtækja. Nú hefur öllum gefist svigrúm til að endurskipuleggja fjárhag sinn, hvort heldur sem litið er til heimila eða fyrirtækja. Því þarf að horfa til afnáms hafta. Höftin skila þjóðarbúinu nefnilega engum langtímaávinningi heldur krefjast mikils herkostnaðar.

Íslendingar búa við hærra neyslustig en þeir í raun og veru ættu að gera sökum þess að innflutningur er ódýrari en hann ætti að vera vegna of hás gengis. Útflutningsgreinar myndu blómstra enn frekar verði höftin afnumin en mikilvægast af öllu er að fjárfesting myndi taka við sér. Fjárfesting á sér ekki stað nema með nokkurri vissu um framtíðina. Í dag er hins vegar nær fullkomin óvissa um stjórnmál, skattamál, stöðu gjaldmiðilsins og þar með verðbólgu, erlenda fjárfestingu og meira að segja réttarríkið sjálft. Væru gjaldeyrishöftin ekki til staðar væri mikilvægum hindrunum rutt úr vegi til lengri tíma og Ísland myndi sjá fjárfestingu rísa, sér í lagi innlenda fjárfestingu til skemmri tíma. Hins vegar valda höftin því að áhætta tengd Íslandi stóreykst, sem hamlar fjárfestingu. Þá eru íslenskir fjárfestar, sér í lagi lífeyrissjóðir, nauðbeygðir að kaupa það sem fæst fyrir krónur. Um tiltölulega fáa kosti ræðir og flest hvað nú þegar á yfirverði enda margar krónur að elta fáar eignir. Dæmi um þetta eru sögulega lágir vextir ríkisskuldabréfa og hugmyndir um fjárfestingar lífeyrissjóða í vegaframkvæmdum. Sé kerfið lokað til lengri tíma er því einsýnt að eignaverðbólga skýtur rótum og er þá lausn vandamálsins orðin hið raunverulega vandamál. Þetta ber að forðast með öllu.

Norðmenn fjárfesta ekki heima

Norðmenn eru mörgum fyrirmynd með sínum Olíusjóð og þá aðallega sökum stærðar hans (450 ma USD) en mikilvægast er þó að sjóðurinn fjárfestir ekki á heimamarkaði í heimamynt. Það er því alger andstaða þess sem Ísland býr við í dag enda nær ómögulegt að framkvæma raunverulegan sparnað á heimamarkaði með sjálfstæða mynt sem enginn annar þarf á að halda.

Íslenskir lífeyrissjóðir eiga í dag um 500 milljarða króna (um þrír milljarðar evra) af erlendum eignum og er það fagnaðarefni. Hins vegar verður þessi upphæð síminnkandi verði höftin til langframa. Það þýðir bara að börn okkar eiga allt undir innlendum efnahag, sem við vitum öll að ber einkenni verðbólgu, sveiflukenndra kjara, sértækra lausna og annars sem einkennir lítil opin hagkerfi. Það er því hagur okkar og barna okkar að sparnaður geti sem fyrst farið fram erlendis til að tryggja betur stöðu okkar til lengri tíma.

Verður erfiðara með tímanum

Því lengur sem höftin eru við lýði, þeim mun erfiðara verður að aflétta þeim. Menn venjast kostunum og sjá ekki ókostina fyrr en of seint. Seðlabankinn á því hrós skilið fyrir að ætla að taka á vandamálinu þótt erfitt verði.

Afnemum höftin og minnkum áhættu þjóðarbúsins til lengri tíma. Það örvar fjárfestingu og kemur hagkerfinu í gang.

Höfundur er sjóðstjóri hjá MP sjóðum.