Veðurfar á Íslandi hefur verið frekar afbrigðilegt upp á síðkastið.

Veðurfar á Íslandi hefur verið frekar afbrigðilegt upp á síðkastið. Í sumar gat veðrið verið eins svo dögum skipti og ekkert virtist til lengur í goðsögninni um svo tíð veðrabrigði að á sömu fimm mínútunum mætti upplifa blindbyl, rigningu, rok, logn, heiðríkju og sólskin. Haustinu fylgja hins vegar gamalkunnug tilþrif. Víkverji áttaði sig á því á mánudaginn þegar hann fór að tala um hvað væri gott veður og viðmælandi hans horfði á hann eins og hann væri ekki með öllum mjalla. Málið reyndist vera að Víkverji hafði farið út í sól og sumaryl í hádeginu, en vinur Víkverja fór út í rok og rigningu síðdegis. Í lok vinnudags var svo aftur komið fallegt veður og sólríkt, en það stóð ekki lengi.

Nóbelsnefndin mun tilkynna 8. október hver hlýtur friðarverðlaunin að þessu sinni. Kínverski andófsmaðurinn Liu Xiaobo hlýtur að koma sterklega til greina og það veldur kínverskum stjórnvöldum nokkrum áhyggjum. Kínverska utanríkisráðuneytið tilkynnti á þriðjudag að það væri í mótsögn við forsendur verðlaunanna að veita honum friðarverðlaunin. Nóbel hefði viljað veita friðarverðlaunin einstaklingi, sem stuðlaði að friði milli þjóða, alþjóðlegri vináttu og afvopnun. Xiaobo hefði verið settur í fangelsi fyrir að brjóta kínversk lög.

Ástæðan fyrir yfirlýsingu Kínverja voru ummæli Geirs Lundestad, stjórnanda Nóbelsstofnunarinnar í Noregi, þess efnis að kínversk stjórnvöld hefðu varað við því að fengi Xiaobo verðlaunin gæti það haft áhrif á samskipti Kína og Noregs. Þetta fékk Lundestad að vita þegar hann hitti Fu Ying, aðstoðarutanríkisráðherra Kína, í kínverska sendiráðinu í Ósló í sumar. Desmond Tutu, Vaclav Havel og fleiri hafa hvatt til þess að Xiaobo, sem var dæmdur í 11 ára fangelsi fyrr á þessu ári fyrir að grafa undan valdi ríkisins í Kína, fái verðlaunin.