Esther Jónsdóttir fæddist í Reykjavík 30. september 1930. Hún lést 7. júní 2008.

Útför Estherar fór fram frá Langholtskirkju 16. júní 2008.

Móðir mín Esther Jónsdóttir fæddist síðasta daginn í september á því herrans ári 1930. Þegar hún fæddist var hún bara lögð til hliðar sí svona því hún var talin andvana fædd. En það átti eftir að sýna sig að það var töggur í þessari dömu. Hún var yngst fimm systkina og hefur eflaust fengið að berjast fyrir sínu. Hún var ekki sérlega há í loftinu en hún var alltaf dugleg að hjálpa öllum sem á þurftu að halda. Hún var dóttir hjónanna Ólafíu Guðrúnar Sumarliðadóttur og Jóns Ársæls Jónssonar. Fyrstu árin bjuggu þau í Skerjafirði en fluttust síðar niður að Fossvogsbletti 10. Móðir mín óx úr grasi og fór snemma að vinna fyrir sér. Og var hörkutól allt sitt líf.

Hún fór austur á Höfn í Hornafirði í kringum 1949 og hitti þar ofur huggulegan mann að nafni Ágúst sem varð hennar lífsförunautur og þau eignuðust fjögur börn. Móðir mín hafði alltaf taugar til Hafnar og Suðursveitarinnar og fóru foreldrar mínir oft austur og þá sérstaklega á Hala. Þar sem foreldrum okkar líkaði svo vel við sveitina þá veltist það yfir á okkur krakkana líka og síðast núna í september var ég með föður mínum þar og það eina sem vantaði að hans sögn var móðir mín.

Móðir mín vann alltaf utan heimilis og var meðal annars í verkalýðshreyfingunni og svolítið í stjórnmálum og viti menn, þessi lágvaxna kona hafði skoðanir og steytti hnefa á stundum.

Foreldrum mínum hlotnaðist að ala upp þrjú börn (barn númer tvö dó eftir sólarhring) sem öll eru vel af guði gerð. Faðir minn var töluvert á sjó og þá var ábyrgðin hjá henni móður minni. Við systkinin höfum fært foreldrum okkar tíu barnabörn og níu barnabarnabörn. Foreldrar mínir voru alltaf boðin og búin að rétta okkur hjálparhönd og elskuðu barnabörnin og barnabarnabörnin.

Þar sem þú ert farin frá okkur, elsku mamma og amma, þá minnumst við þín á 80 ára afmælisdegi þínum með fallegum hugsunum um góðar minningar sem þú skildir eftir hjá okkur.

Elsku mamma, minning þín ávallt lifir með þökk fyrir allt.

Edda og krakkarnir í Svíþjóð.