Erla Ingimundardóttir fæddist í Hveravík í Strandasýslu þann 17. desember 1937. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 18. september 2010. Foreldrar hennar voru hjónin Ingimundur Jón Guðmundsson, f. 13.10. 1895, d. 23.1. 1983, og Svanfríður Guðmundsdóttir, f. 16.5. 1902, d. 20.10. 1994. Erla var næstyngst af tíu systkinum. Systkini Erlu eru: Sigríður Svava, f. 4.5. 1923, Álfheiður, f. 24.4. 1926, d. 13.4. 1988, Unnur, f. 6.8. 1927, d. 6.4. 2003, Sigmundur, f. 11.2. 1929, d. 22.11. 1994, Jónas Högni, f. 2.1. 1931, d. 2.12. 1991, Hulda, f. 9.9. 1932, Olgeir Söebeck, f. 15.5. 1934, Sigríður, f. 5.6. 1936, og Olga, f. 2.12. 1942.

Erla giftist Snjólfi Fanndal Kristbergssyni, f. 4.5. 1940, þann 12.12. 1964. Móðir hans var Guðbjörg Guðríður Bjarnadóttir, f. 24.10. 1915, d. 2.1. 1992, og fósturfaðir hans var Kristberg Jónsson, f. 15.1. 1916, d. 5.12. 1996.

Börn Erlu eru fjögur: 1) Anna Berglind, f. 2.9. 1957, faðir hennar er Þorsteinn Jónsson, f. 24.9. 1937. Eiginmaður Önnu er Guðmundur Valgeirsson, f. 31.1. 1957, og eiga þau þrjú börn, þau eru: Valgeir Fanndal, f. 5.7. 1979, sambýliskona hans er Sigþrúður Oddsdóttir, f. 19.1. 1989, sonur Sigþrúðar er Kristófer Máni, f. 12.8. 2006, Erla Ósk, f. 24.4. 1987, sambýlismaður hennar er Bjarki Þórðarson, f. 4.8. 1988 og Hlynur Már, f. 28.4. 1995. 2) Ingimundur Heimir, f. 28.11. 1961, faðir hans hét Hannes Rafn Jónsson, f. 19.4. 1932, d. 19.11. 1991. Eiginkona Ingimundar er Þórlaug Braga Stefánsdóttir, f. 11.12. 1966, og eiga þau fjögur börn, þau eru: Andri Snær, f. 23.10. 1992, Tanja Sif, f. 1.2. 1994, Sindri Snær, f. 5.9. 1996, og Erla, f. 28.11. 2002. Börn Erlu og Snjólfs eru tvö: 3) Kristberg, f. 8.6. 1964. Eiginkona Kristbergs er Margrét Marísdóttir, f. 6.4. 1969. Dætur Kristbergs frá fyrra hjónabandi eru Alma Glóð, f. 30.4. 1996, og Lilja Björt, f. 8.4. 1998, móðir þeirra er Ásbjörg Guðný Jónsdóttir, f. 24.11. 1968. Fyrir átti Margrét þrjá syni, þeir eru: Kristófer Már, f. 11.11. 1987, Jóhann Helgi, f. 23.8. 1990, sonur hans er Þórhallur Ingi, f. 3.1. 2009, og Bjarni Freyr, f. 7.4. 1995. 4) Guðbjörg Dögg, f. 23.2. 1975. Eiginmaður Guðbjargar er Ingólfur Snorri Bjarnason, f. 2.11. 1960, og eiga þau þrjú börn, þau eru: Snorri Steinn, f. 9.5. 2004, Eva Dögg, f. 18.4. 2006, og Helgi Þór, f. 18.4. 2006. Fyrir átti Ingólfur þrjú börn, þau eru: Daníel Bjarni, f. 20.1. 1982, sambýliskona hans er Fríða Hermannsdóttir, f. 8.11. 1982, sonur þeirra er Matthías Freyr, f. 24.4. 2009, Fanney Björk, f. 19.12. 1990, og Guðjón Oddur, f. 25.11. 1992.

Erla fluttist ung til Hólmavíkur og ólst þar upp til ellefu ára aldurs en þá fluttist fjölskyldan til Patreksfjarðar þar sem þau bjuggu í sex ár en fluttu þá á Akranes, þar bjó Erla til ársins 1961 þegar hún flutti til Reykjavíkur og þar bjó hún þar til hún lést. Erla vann hin ýmsu störf, meðal annars hjá Sláturfélagi Suðurlands, Hampiðjunni og sinn starfsferil endaði hún hjá dvalarheimilinu Seljahlíð.

Útför Erlu fór fram í kyrrþey að hennar ósk 27. september 2010.

Elsku hjartans mamma mín, mikið er erfitt að sætta sig við að þú sért dáin, þú sem varst svo stór hluti af lífi okkar allra.

Þú varst búin að vera mjög kvalin síðustu vikurnar en þrátt fyrir það þá kom ekki í ljós hversu alvarleg veikindi þín voru fyrr en þremur dögum áður en þú kvaddir. Þú hafðir verið viku á spítala í rannsóknum og varst send heim og áttir að fá sjúkraþjálfara og fara síðan á Reykjalund til að fá meiri kraft í kroppinn því læknarnir fundu ekki meinið sem þú varst komin með. Á miðvikudeginum þar á eftir fórum við með þig fárveika á bráðamóttöku Landspítalans og þá um kvöldið fengum við þessar hræðilegu fréttir og á laugardeginum varstu dáin. Við gerum okkur grein fyrir hvílík hetja þú hefur verið því kvalirnar hafa örugglega verið hræðilegar.

Þú varst alltaf til staðar fyrir okkur öll hvort heldur sem var að passa barnabörnin, baka eða hvað sem beðið var um. Þú varst snillingur í bakstri og kleinurnar þínar alveg örugglega þær allra bestu sem nokkur hefur smakkað og ekki varstu síðri í eldamennskunni.

Það var alltaf mikill gestagangur á heimili ykkar pabba og þá sérstaklega eftir að þú hættir að vinna. Fjölskyldan okkar er mjög samrýmd og þið systkinin hittust oft, frænkur þínar og vinkonur voru alltaf duglegar að heimsækja þig og það var ósjaldan sem einhver var í heimsókn hjá ykkur þegar við komum.

Valgeir okkar var í pössun hjá þér á daginn frá því hann fæddist og þar til hann var fjögurra ára þegar hann komst á leikskóla. Þið áttuð frábærar stundir saman ásamt Guðbjörgu systur. Alltaf var hann tilbúinn að kúra lengur hjá þér þegar hann kom til þín á morgnana því ömmu-hola var svo hlý. Valgeir minnist þessara stunda alltaf með mikilli hlýju.

Erla Ósk var mjög náin þér, mamma mín, og var dugleg að kíkja til þín. Hún byrjaði alltaf á því að kíkja í ísskápinn hjá þér þegar hún kom, því það var alltaf eitthvað gott sem hún fann þar, því eins og hún sagði þá var allt miklu betra hjá ömmu en heima. Alltaf gat hún líka platað þig til að útbúa eitthvað sem hana langaði í.

Hlynur Már fór í keppnisferðir í íþróttum bæði í sumar og fyrrasumar og þurfti að safna fyrir því sjálfur. Hann fann góða leið og samdi við þig um að baka kleinur sem hann síðan hljóp með nýbakaðar í hús og gekk þetta það vel að báða veturna tókst honum að safna fyrir öllum þeim ferðum sem hann fór í. Fyrir þetta og allt annað er hann þér ævinlega þakklátur.

Það var alltaf gott samband milli þín og Gumma míns og hann er alveg með það á hreinu að betri tengdamömmu gat hann ekki fengið enda tók hún alltaf upp hanskann fyrir hann ef einhver ágreiningsmál voru okkar á milli, því eins og þú sagðir var ekki hægt að fá betri tengdason.

Elsku mamma, tengdamamma og amma, við söknum þín öll.

Saknaðarkveðjur.

Anna, Guðmundur og börn.

Elsku mamma, ég trúi því varla að ég skuli vera að skrifa þessi orð. Enginn átti von á því að þú yrðir tekin frá okkur svona fljótt. Við eigum margar góðar minningar sem við munum varðveita og börnin mun alltaf muna eftir yndislegu ömmu Erlu sem allt vildi fyrir þau gera.

Þú varst mikil fjölskyldukona, ef eitthvað var að frétta í fjölskyldunni eða jafnvel ættinni var hringt í þig og þú barst fréttirnar áfram, þú varst „límið“ sem tengdir okkur öll saman.

Þó þú segðist nú ekki vera mikið fyrir veislur þá voru fáar veislur glæsilegri en þínar, alltaf hlaðin borð og það versta sem gat gerst í þínum huga var ef veitingarnar væru ekki nægar. Þú varst ekki lengi að komast að því eftir að Ingó kom í fjölskylduna hversu mikill sælkeri hann er og þú vildir helst alltaf eiga kókosbollutertu í frystinum því honum Ingólfi fyndist hún svo rosalega góð. Eins hringdirðu alltaf í hann þegar þú gerðir brauðsúpu því þú vissir að hann fengi hana ekki heima hjá sér og hann mátti ekki missa af svoleiðis góðgæti.

Minningarnar eru ótalmargar og má þar nefna ferðina sem þið pabbi komið með okkur í til Kaupmannahafnar fyrir rúmum 3 árum. Þar var mikið hlegið og þú hafðir gaman af því að sjá alla þá hluti sem við skoðuðum þar. En best fannst þér nú alltaf að koma heim, þar leið þér best og eins í sumarbústaðnum, þar fannst þér gott að vera.

Við áttum saman góðar stundir á ættarmótinu í sumar, þú varst svo glöð með hvað það var vel heppnað og hve margir gátu komið. Þrátt fyrir svakalega rigningu þá skemmtu allir sér konunglega. Þú meira að segja komst upp og söngst með okkur lagið um afa og ömmu þó þér fyndist við nú varla halda lagi.

Snorri Steinn, Eva Dögg og Helgi Þór eru alveg með það á hreinu hvernig amma Erla kallar á englana á himnum, þú bara flautar með litlu puttunum eins og þú ein gast gert og allir reyndu að læra en engum tókst.

Elsku mamma, tengdó og amma, þín verður sárt saknað.

Ástarkveðja.

Guðbjörg, Ingólfur, Snorri Steinn, Eva Dögg og Helgi Þór.

Elsku mamma, ég á erfitt með að trúa að þú sért farin, einhvern veginn fannst manni að þú yrðir alltaf hjá okkur, en að þú skyldir fara svo snöggt átti enginn von á.

Við vorum farin að vona að þú gætir komist inn á Reykjalund og ættir einhverja von um að ná betri heilsu, en þú varst svo sem ekkert alltof hrifin af því að fara þangað.

Það er skrítið að hugsa til þess að þú og pabbi sitjið ekki og spilið rommý í hádeginu og skjótið á hvort annað um að hitt hafi verið að svindla, ég skildi aldrei hvað þið nenntuð að vera að spila þetta spil ár eftir ár og alltaf allt saman reiknað út eftir hvert einasta spil en þessi tími hjá ykkur verður ekki á næstunni því miður.

Þegar Ingi bróðir hringdi í mig til Spánar og sagði mér að þú værir komin inn á spítala og að það liti ekki vel út með bata var það einhver erfiðasta lífsreynsla sem ég hef lent í, að vera á Spáni og geta ekki verið hjá þér þegar þú þurftir á okkur öllum að halda var erfiðara en orð geta lýst. En ég fékk þó allavega að heyra aðeins í þér áður en þú kvaddir og var það mér ákaflega mikils virði, mér fannst ákaflega vænt um að þú skyldir komast örlítið til meðvitundar og að ég gæti sagt við þig örfá orð og að vita að þú meðtókst þau.

Við Magga vorum svo heppin að fá að vera með þér og pabba í hálfan mánuð á Spáni í maí sl. og fá að fara með ykkur og sýna ykkur áhugaverða og fallega staði. Þessi tími var mér ákaflega mikilvægur því að við áttum öll frábæran tíma saman. Ég var reyndar að vona að við gætum endurtekið þetta og að þið kæmuð aftur út til okkar, en æðri máttarvöld voru á öðru máli og sáu til þess að það gerist ekki aftur.

Það hefur oft verið sagt að hundurinn sé besti vinur mannsins og það fór ekkert á milli mála að þegar þið fenguð Gutta til ykkar þá eignuðust þið traustan vin sem gaf ykkur ákaflega mikið, en núna síðustu mánuði var hann orðinn mikið lasinn og þú áttir erfitt með að kveðja hann, en svo fór að þú fórst á undan honum, en það var greinilegt að hann vissi að þú varst farin, hann gafst upp og vildi greinilega fá friðinn líka. Mér finnst gott að vita til þess að Gutti er hjá þér og fékk að leggjast með þér þar sem honum þótti ávallt best að vera. Ég er ekki í vafa um að það er það sem þú hefðir viljað ef þú hefðir vitað að hverju stefndi hjá þér.

Elsku mamma mín, takk fyrir allt það sem þú gafst mér og mínum í lifanda lífi, það er ómetanlegt og mun fylgja mér og mínum þar til yfir lýkur hjá okkur.

Guð geymi þig, elsku mamma mín.

Kristberg.

Að setjast niður og skrifa kveðjuorð til hennar mömmu er hlutur sem ég er engan veginn tilbúinn að gera. Það er nú bara þannig að maður gerir ráð fyrir því að foreldrar manns verði manni til halds og trausts um ókomna tíð þótt reyndin sé önnur. Ég hef jafnvel verið byrjaður að slá inn símanúmerið hennar þegar ég átta mig skyndilega á því að hún er farin fyrir fullt og allt. Andlát hennar bar brátt að, hún greinist með krabbamein á miðvikudegi og þremur dögum síðar er hún öll. Eftir sitjum við sem elskuðum hana og skiljum ómögulega hvernig þetta gat gerst. Hún hafði átt við veikindi að stríða en við þessu bjóst enginn.

Mamma var afskaplega félagslynd þótt hún væri feimin inn við beinið. Hún naut þess að dansa og syngja og skildi hreint ekkert í því að ég deildi þeim áhuga ekki með henni. Hvatti hún mig oft til þess að læra dans svo að ég gæti nú farið að dansa við hana Lauju mína, eins og hún orðaði það. Hún var afskaplega mikill Íslendingur í sér og vildi helst bara ferðast um Ísland en ekki vera að flækjast til útlanda. Þegar hún fór utan var hápunktur ferðarinnar alltaf að koma heim. Henni leið líka afskaplega vel í sumarbústaðnum þeirra pabba í Svarfhólsskógi og hefði sennilega viljað eyða hverri sumarhelgi þar.

Í sumum hlutum áttum við mamma meira sameiginlegt en öðrum. Hún hafði mikinn áhuga á íþróttum og var á sínum yngri árum góð íþróttakona. Hún var mikill stuðningsmaður íslenska landsliðsins sem og Vals og Leeds, mér til mikillar gleði. Hún átti afskaplega bágt með að stilla sig þegar hún horfði á íþróttir og lét óspart í sér heyra. Til allrar hamingju var það yfirleitt fyrir framan sjónvarpið en ekki innan um annað fólk. Þann hluta hef ég séð um enda sennilega alveg nægilegt.

Annað sem við áttum sameiginlegt var ánægjan af því að halda stórar veislur. Alltaf var hægt að leita til hennar þegar veisla var framundan. rækjubrauð, fléttubrauð að ég tali nú ekki um Dísudrauminn voru ómissandi réttir í öllum veislum. Það var sama hvernig stóð á, alltaf var hún tilbúin að hjálpa.

Ef ég ætti að lýsa mömmu á einhvern hátt þá væri það að hún var afskaplega hlý manneskja. Hún var næstyngst tíu systkina og elskaði þau öll afar heitt. Ég hef held ég aldrei séð samhentari systkinahóp. Okkur, pabba og börnin sín, elskaði hún skilyrðislaust. Vildi hún allt fyrir okkur gera. Hún sá ekki sólina fyrir barnabörnunum, sem í hennar huga voru hvert og eitt yndislegasta barn sem til er. Ekki má gleyma honum Gutta, hundinum hennar góða, sem rétt náði að lifa hana mömmu sína en fær nú að hvíla með henni.

Elsku mamma. Að kveðja þig er það erfiðasta sem ég hef gert. Engin lífsins reynsla býr mann undir þetta. Börnin okkar sakna þín sárt og Erla okkar, litla nafnan þín, skilur varla enn að hún geti ekki heimsótt þig og fengið kossa og knús frá ömmu sinni. Hún segist ætla að vera dugleg að þiggja faðmlögin frá afa Snjólfi í staðinn.

Hvíldu í friði elsku mamma.

Þinn sonur,

Ingimundur (Ingi).

Elsku besta amma mín, ég get á engan hátt lýst sársaukanum sem fylgir því að kveðja þig. Að vita það að ég muni aldrei aftur faðma þig og kyssa er mér um megn. Þú varst svo fullkomin fyrir mér og þú getur ekki ímyndað þér hversu stolt ég er að heita í höfuðið á þér.

Ég mun aldrei gleyma öllu því sem þú gerðir fyrir mig en hjá þér leið mér ávallt eins og sannri prinsessu. Það eru bara nokkrar vikur síðan þú lagaðir lopapeysuna mína því ég kunni ekki að festa tölu. Þú sem ætlaðir alltaf að kenna mér að prjóna, mér finnst svo sárt að hugsa til þess að það mun aldrei verða.

Ég man svo vel eitt skiptið sem ég var með þér og afa uppi í bústað og hafði skriðið upp í ykkar ból. Þó að plássið væri nú ekki mikið tróð ég mér samt til fóta. Afi hraut hástöfum eins og vanalega en þú sparkaðir í gríð og erg til að fá hann til að hætta. Þú vissir það þó ekki fyrr en daginn eftir að það var ég sem lá til fóta svo afi fann ekki mikið fyrir spörkunum.

Áður en þú fórst upp á spítala kúrðum við saman uppi í rúmi og hlógum þótt þú værir kvalin en þú kvartaðir aldrei, vildir bara fá að vera heima þar sem þér leið vel.

Þrátt fyrir að þú sért farin löngu fyrir aldur fram og löngu áður en þú kenndir mér allt það sem ég vildi af þér læra þá er ég þakklát fyrir allar þær dásamlegu stundir sem við áttum saman, þær eru það dýrmætasta sem ég á. Mér finnst svo gott að vita að Gutti hafi fengið að fara með þér því hann var þér svo kær.

Ég elska þig af öllu mínu hjarta

Mig dreymir þig

Þú brosir til mín

Við föllumst í faðm

Ég vakna og græt

Í hjarta mínu heyri

Erla, ég er hér

Finn til hlýju

Því þú ert hjá mér.

Þín

Erla Ósk.