Tólf Valsmenn réðu lítið við Björgvin Hólmgeirsson sem skoraði 10 mörk í fyrri hálfleiknum á Hlíðarenda og 12 alls. Hér er eitt þeirra í uppsiglingu.
Tólf Valsmenn réðu lítið við Björgvin Hólmgeirsson sem skoraði 10 mörk í fyrri hálfleiknum á Hlíðarenda og 12 alls. Hér er eitt þeirra í uppsiglingu. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á vellinum Ívar Benediktsson iben@mbl.is Íslandsmeistarar Hauka hófu titilvörn sína í N1-deild karla í handknattleik í gærkvöldi með nokkuð sannfærandi sigri á Val, 30:26, á heimavelli Vals.

Á vellinum

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Íslandsmeistarar Hauka hófu titilvörn sína í N1-deild karla í handknattleik í gærkvöldi með nokkuð sannfærandi sigri á Val, 30:26, á heimavelli Vals. Sigurinn var miklu öruggari en fjögurra marka munur segir til um því um tíma í síðari hálfleik var tíu marka munur á liðunum Haukum í vil, 27:17 og hreinlega vandræðalega mikill munur á liðunum. Haukar voru sjö mörkum yfir í hálfleik, 20:13. Þeir koma gríðarlega sterkir til leiks á Íslandsmótinu og virðast til alls líklegir þótt þeir hafi misst sterka leikmenn og gengið í gegnum þjálfaraskipti frá síðustu leiktíð.

Ungu leikmennirnir í liði Hauka eru svo sannarlega klárir í slaginn. Heimir Óli Heimisson, Stefán Rafn Sigurmundsson, Þórður Rafn Guðmundsson og Aron Freyr Eðvarðsson eru á meðal þeirra leikmanna sem eiga eftir að láta mikið að sér kveða á keppnistímabilinu ef að líkum lætur. Þá var Guðmundur Árni Ólafsson öflugur í hægra horninu svo ekki sé minnst á Björgvin Hólmgeirsson sem fór hreinlega hamförum í fyrri hálfleik og skoraði þá 10 af 12 mörkum sínum í leiknum.

Valsmenn voru hinsvegar úti á þekju lengst af leiknum. Varnarleikur og markvarslan slök og sóknarleikurinn tilviljunakenndur. Þó ber að geta þess að Ingvar Guðmundsson, markvörður, vaknaði til lífsins í stöðunni 27:17 og tók þá að verja allt hvað af tók. Hann hélt markinu hreinu í tæpar sextán mínútur en það var of seint til þess að breyta niðurstöðu leiksins. Þess ber að geta að hann var ekki öfundsverður af hlutverki sínu í markinu fyrir framan það gatasigti sem Valsvörnin var lengst af.

Ljóst er miðað við þennan leik að Júlíus og lærisveinar hans eiga mikið verk fyrir höndum. En Íslandsmótið er langt og þeir hafa einhvern tíma fyrir sér.

„Sóknarleikur okkar var í lagi lengst af leiksins en varnarleikurinn var aldrei eins og við vildum hafa hann,“ sagði Þórður Rafn Guðmundsson, einn hinna ungu leikmanna Hauka, eftir leikinn.

„Síðustu 20 mínúturnar voru hinsvegar slakar hjá okkur. Við ætluðum ekki að slaka á en gerðum það samt,“ sagði Þórður og taldi það ekki vera afsökun fyrir liðið að framundan eru tveir leikir í Evrópukeppninni um helgina.

„Við höfum búið okkur mjög vel undir tímabilið þótt það hafi ekki alveg sést að þessu sinni,“ sagði Þórður Rafn.

Valur – Haukar 26:30

Vodafone-höllin á Hlíðarenda, úrvalsdeild karla, N1-deildin, miðvikudaginn 29. september 2010.

Gangur leiksins : 0:1, 2:3, 4:7, 7:9, 7:12, 10.14, 13:16, 13:20 , 14:20, 16:23, 17:27, 23:27, 24:28, 26:30 .

Mörk Vals : Anton Rúnarsson 8, Sturla Ásgeirsson 5/3, Valdimar Fannar Þórsson 5/3, Gunnar Harðarson 3, Finnur Ingi Stefánsson 2, Arnar Guðmundsson 2, Orri Freyr Gíslason 1.

Varin skot : Ingvar Guðmundsson 10/1 (þar af 1 til mótherja).

Utan vallar : 6 mínútur.

Mörk Hauka : Björgvin Hólmgeirsson 12, Heimir Óli Heimisson 7, Guðmundur Árni Ólafsson 5/1, Stefán Rafn Sigurmundsson 4/1, Þórður Rafn Guðmundsson 1, Gísli Jón Þórisson 1.

Varin skot : Aron Rafn Eðvarðsson 17/2 (þar af 5 til mótherja).

Utan vallar : 6 mínútur.

Dómarar : Ingvar Guðjónsson og Jónas Elíasson.

Áhorfendur : 400.