Þarfaþing „Skipstjórinn getur jafnvel tekið ákvörðun úti á sjó um veiðar og vinnslu á aflanum byggða á þeim upplýsingum sem hann sækir sér á vefinn,“ segir Arthúr Ólafsson ritstjóri sjávarútvegsvefsins Sax.is.
Þarfaþing „Skipstjórinn getur jafnvel tekið ákvörðun úti á sjó um veiðar og vinnslu á aflanum byggða á þeim upplýsingum sem hann sækir sér á vefinn,“ segir Arthúr Ólafsson ritstjóri sjávarútvegsvefsins Sax.is. — Morgunblaðið/Ernir
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Að sögn Arthúrs Ólafssonar vefritstjóra hefur aðsóknin að sjávarútvegsvefnum Sax.is verið langt umfram væntingar: „Við fáum allt að 10.000 heimsóknir á viku á meðan um það bil 5.

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Að sögn Arthúrs Ólafssonar vefritstjóra hefur aðsóknin að sjávarútvegsvefnum Sax.is verið langt umfram væntingar: „Við fáum allt að 10.000 heimsóknir á viku á meðan um það bil 5.000 manns í heildina starfa í sjávarútvegi á Íslandi. Við bjuggumst við ágætum viðtökum en ekki svona miklu,“ segir hann en vefurinn fór í loftið árið 2008.

„Það ár höfðu aðilar í sjávarútvegi samband við okkur og lýstu vanda sínum: Greinina vantaði miðil sem safnaði saman á einn stað öllum þeim upplýsingum sem varða þennan geira en eru á víð og dreif. Okkur leist vel á hugmyndina og haustið 2008 opnuðum við vefinn,“ útskýrir Arthúr en Sax.is er starfrækt af Vefmiðlun sem einnig heldur úti viðskiptafréttaveitunni M5.is.

Öllu safnað saman

Arthúr lýsir Sax.is sem yfirgripsmikilli samantekt upplýsinga um sjávarútveginn: „Strax á forsíðunni mætir notandanum yfirlit yfir fréttir dagsins og lykilverðtölur á markaði. Í fréttayfirlitinu eru fréttir af sjávarútvegi frá netmiðlum, tilkynningar frá stofnunum og efni sem birtist á heimasíðum útgerðanna,“ segir hann en miðillinn vaktar bæði netmiðla sem fjalla aðeins um sjávarútveg og almenna fréttamiðla. „Ef t.d. birtist á Mbl.is frétt sem snertir kvótamál þá birtist sjálfkrafa tenging í hana í fyrirsagnalista Sax.is, svo þeir sem venja þangað komur sínar ættu ekki að missa af neinum fregnum af íslenska sjávarútveginum.“

Á vefnum er síðan hægur leikur að fletta upp í skipaskrá, skoða nýjustu upplýsingar frá Siglingamálastofnun, Fiskistofu og Póst- og fjarskiptastofnun: „Okkur hefur tekist að koma saman á einn stað meiri upplýsingum en nokkurn tíma áður hefur verið í boði,“ segir Arthúr og bætir við að vefurinn sé meira að segja orðinn vettvangur fyrir þá sem hafa skipaljósmyndun að áhugamáli að fá útrás:

„Fljótlega urðum við varir við mikinn áhuga frá ljósmyndurum að komast þarna að. Skipaljósmyndun er orðið allvinsælt áhugamál en við tökum á móti aðsendum myndum og komum þannig myndunum á framfæri við umheiminn. Í dag eru í safninu myndir af stórum hluta skipaflotans frá yfir 150 ljósmyndurum.“

Upplýsingarnar viðskiptatæki

Því má halda fram að tilkoma Sax.is sé táknræn fyrir þá þróun sem orðið hefur í íslenskum sjávarútvegi og Arthúr minnir á að í þessum geira þurfi oft æ meira magn upplýsinga til að taka réttar ákvarðanir í viðskiptum og koma auga á ný tækifæri. „Útgerðirnar eru að nýta í rekstrinum upplýsingarnar sem við söfnum saman. Skipstjórinn getur jafnvel tekið ákvörðun úti á sjó um veiðar og vinnslu á aflanum byggða á þeim upplýsingum sem hann sækir sér á vefinn gegnum nettenginguna sem finna má á mörgum skipum í dag,“ segir hann og bætir við að áhafnirnar séu líka duglegar að skoða síðuna. „Menn eru þá að fá með einföldum hætti t.d. nákvæmar upplýsingar um hverju var landað og í hve miklu magni og geta þannig áætlað hvað von er á að fá greitt fyrir túrinn. En svo eru líka margir sem einfaldlega hafa gaman af að fylgjast með hvernig veiðist og gengur, án þess að viðkomandi starfi endilega í sjávarútveginum.“

Eini vefurinn sinnar tegundar?

Aðgangur að Sax.is er öllum opinn og ókeypis, en vefurinn aflar tekna með sölu auglýsingaborða og með því að selja skráningar í þjónustuskrá á síðunni. Flest bendir til að vefurinn eigi engan sinn líka í heiminum: „Þegar farið var af stað í upphafi leituðum við að erlendum fyrirmyndum. Vissulega fundum við nokkra áhugaverða vefi sem fjalla um ýmislegt í sjávarútvegi víða um heim, en engan gátum við fundið sem safnar saman og kemur upplýsingunum á framfæri með sama hætti og við,“ segir Arthúr.

Vefurinn er í sífelldri framþróun og bættust t.d. nýlega við ítarlegri upplýsingar úr skipaskrá, s.s. um vélastærð, lestir og smíðastöð skipanna í flotanum. „Einnig bættum við hafnaskrána okkar þannig að nú má sjá loftmynd af höfninni og helstu tölur s.s. um lengd bryggju og dýpi í innsiglingu. Við vinnum stöðugt að því að finna meira af gagnlegum upplýsingum og bæta við.“