Jónas Margeir Ingólfsson jonasmargeir@mbl.

Jónas Margeir Ingólfsson

jonasmargeir@mbl.is

„Þetta var lýðræðisleg kosning en það virtust samt vera einhver undirmál í gangi eða eitthvað sem ég næ ekki utan um,“ segir Atli Gíslason formaður þingmannanefndarinnar um atkvæðagreiðslu um málshöfðanir gegn ráðherrum á Alþingi. Hann kveðst þó sáttur við það að málið hafi verið til lykta leitt af þinginu. „Ég vildi að þingið myndi taka afstöðu til málsins og það gerði það með þessum hætti sem niðurstaðan hefur leitt í ljós.“

Atli kveðst ekki gera sér grein fyrir hvort Geir verður sakfelldur. „Niðurstaða okkar byggist bara á því að það sem fram er komið er nægilegt og líklegt til sakfellis,“ segir Atli en áréttar að Alþingi er ekki dómstóll.

Enn er óráðið hver verður kosinn saksóknari í málinu en Atli hyggst gefa kost á sér í þingmannanefnd sem verður honum til aðstoðar og fylgist með málinu.

Ef í ljós kemur við meðferð málsins að ekki séu efni til að sakfella Geir Haarde kveðst Atli ætla að mæla fyrir tillögu þess efnis að ákæran verði dregin til baka. „Ef það kemur í ljós við þessa sönnunarfærslu þá finnst mér það bara eðlilegt og heiðarlegt.“

ÞUNGT Í ÞINGMÖNNUM SJÁLFSTÆÐISFLOKKS

Ískalt viðmót á þinginu

Reiði þingmanna Sjálfstæðisflokksins í garð ákveðinna þingmanna Samfylkingar og Framsóknarflokks er slík að þeir segjast ætla að sniðganga þá á þingi með öllu; ekki geti orðið um samstarf við þá að ræða og þeir njóti ekki trausts.

Þessi afstaða er tilkomin vegna þess hvernig þessir þingmenn greiddu atkvæði á þingi í fyrradag. 6