Fyrirliðinn Sunna Jónsdóttir er í stóru hlutverki hjá Fylki og bíður spennt eftir því að Íslandsmótið hefjist um komandi helgi.
Fyrirliðinn Sunna Jónsdóttir er í stóru hlutverki hjá Fylki og bíður spennt eftir því að Íslandsmótið hefjist um komandi helgi. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handboltinn Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.is „Mér líst ótrúlega vel á veturinn. Við erum búnar að fá nokkra nýja leikmenn til okkar og nýjan þjálfara.

Handboltinn

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

„Mér líst ótrúlega vel á veturinn. Við erum búnar að fá nokkra nýja leikmenn til okkar og nýjan þjálfara. Þá erum við árinu eldri og höfum undirbúið okkur mjög vel fyrir tímabilið,“ sagði landsliðskonan Sunna Jónsdóttir, fyrirliði Fylkis, við Morgunblaðið, en fjórða árið í röð teflir Árbæjarliðið fram meistaraflokksliði.

,,Það er mikil eftirvænting hjá okkur að hefja tímabilið. Við erum búnar að bíða eftir þessu í langan tíma og teljum nánast niður dagana þar til Íslandsmótið hefst,“ sagði Sunna en Fylkir fær ÍBV í heimsókn í Fylkishöllina í 1. umferð N1-deildarinnar á laugardag.

Flottur og samstilltur hópur

Fylki var spáð fjórða sæti. Er það eitthvað sem þið stefnið á eða ætlið þið ykkur að komast ofar?

„Maður stefnir að sigri í öllum leikjum og markmið okkar er að vinna alla þá leiki sem við förum í. Að sjálfsögðu stefnum við að því að komast í úrslitakeppnina og miðað við liðið sem við erum með í dag finnst mér það raunhæft markmið. Við erum með flottan og samstilltan hóp og nýju leikmennirnir passa rosalega vel inn í leikmannahópinn. Við erum ungar og sprækar og líklega er liðið okkar í dag eitt það besta sem Fylkir hefur átt,“ sagði Sunna, sem var útnefnd efnilegasti leikmaður í N1-deildinni á síðustu leiktíð á lokahófi HSÍ.

Sunna reiknar með því að Valur og Fram verði í nokkrum sérflokki í vetur og bítist um titlana.

„Valur og Fram eru áfram með rosalega öflug lið og það er eiginlega ómögulegt að segja fyrir um það hvort liðanna hampar titlunum í vetur. Þrátt fyrir að þau séu með talsvert sterkari lið en við munum við mæta óhræddar til leiks á móti þeim sem og öðrum í deildinni. Við ætlum að reyna að stríða þeim og alla vega láta þau hafa fyrir hlutunum. Við höfum æft mjög vel í sumar og gengi okkar á undirbúningstímabilinu hefur verið nokkuð gott. Nýjum þjálfara fylgja áherslubreytingar og mér sýnist þetta vera að smella saman. Við finnum fyrir góðum stuðningi. Stjórnin stendur sig vel og foreldrar okkar eru ótrúlega duglegir að hjálpast að. Það yrði gaman að fá fleira fólk á leiki okkar í vetur en auðvitað er það undir okkur komið. Ef við stöndum okkur vel er fólk tilbúnara að mæta og styðja við bakið á okkur. Við þurfum að rífa svolítið upp stemninguna hér í Árbænum.“

Stefnir á EM með landsliðinu

Sunna er eini leikmaður Fylkis sem er í A-landsliðshópnum en framundan er úrslitakeppni Evrópumótsins þar sem íslenska landsliðið tekur í fyrsta skipti þátt í stórmóti. Sunna var í liðinu sem lék á fjögurra þjóða mótinu í Rotterdam í Hollandi um síðustu helgi en þar tapaði Ísland fyrir Hollandi, Svartfjallalandi og Brasilíu.

„Ég hef sett mér það markmið að komast í EM-hópinn og því er mjög mikilvægt fyrir mig að standa mig sem best með mínu félagsliði og það ætla ég mér svo sannarlega að gera,“ sagði hin 21 árs gamla Sunna sem verður í stóru hlutverki með Fylki eins og undanfarin ár.

FYLKIR VETURINN 2010-2011

LEIKMANNAHÓPURINN

Guðrún Ósk Maríasdóttir 21 árs Markvörður
Áslaug Ýr Bragadóttir 18 ára Markvörður
Helga Dögg Höskuldsdóttir 18 ára Markvörður
Sædís Ósk Helgadóttir 17 ára Markvörður
Áslaug Gunnarsdóttir 21 árs Hornamaður
Sigríður Hauksdóttir 18 ára Hornamaður
Arna Fjóla Pálmarsdóttir 17 ára Hornamaður
Lilja Gylfadóttir 17 ára Hornamaður
Ólöf Kristín Þorsteinsdóttir 17 ára Hornamaður
Vera Pálsdóttir 17 ára Hornamaður
Malen Björgvinsdóttir 18 ára Hornamaður/Miðjum.
Sunna María Einarsdóttir 21 ára Miðjumaður/Skytta
Elín Helga Jónsdóttir 20 ára Miðjumaður/Skytta
Sunna Jónsdóttir 21 árs Skytta
Nataly Sæunn Valencia 20 ára Skytta
Arna Valgerður Erlingsd. 19 ára Skytta
Katrín Hera Gústafsdóttir 19 ára Skytta
Kristrún Steinþórsdóttir 16 ára Skytta
Ásdís Vídalín Kristjánsd. 17 ára Skytta/Hornamaður
Hildur Björnsdóttir 17 ára Línumaður/Skytta
Guðríður Ósk Jónsdóttir 20 ára Línumaður
Hanna Rut Sigurjónsdóttir 20 ára Línumaður
Tinna Soffía Traustadóttir 18 ára Línumaður
Ragnheiður Matthíasdóttir 17 ára Línumaður
Fylkir hefur fengið sex nýja leikmenn fyrir tímabilið. Arna Valgerður Erlingsdóttir kom frá KA/Þór, Ásdís Vídalín Kristjánsdóttir frá Val, Áslaug Ýr Bragadóttir og Kristrún Steinþórsdóttir frá Selfossi og þær Guðríður Ósk Jónsdóttir og Katrín Hera Gústafsdóttir frá Víkingi, sem var með lið í N1-deildinni á síðustu leiktíð en teflir ekki fram liði í ár.

Fimm leikmenn sem léku með Fylki á síðasta keppnistímibili verða ekki með Árbæjarliðinu í vetur. Elzbieta Kowal og Anna Sif Guðmundsdóttir eru hættar, Hildur Harðardóttir er farin aftur til Stjörnunnar en hún var í láni hjá Fylki og sömu sögu er að segja um Laufeyju Ástu Guðmundsdóttur sem er farin aftur til Gróttu. Þá er Tinna Jökulsdóttir í barneignarleyfi.

Sunna Jónsdóttir var langmarkahæst hjá Fylki í deildinni í fyrra með 147 mörk og Sunna María Einarsdóttir skoraði 105. Þar á eftir komu Elzbieta Kowal með 59, Sigríður Hauksdóttir með 56 og Elín Helga Jónsdóttir með 54 mörk.

Fylkir tók þátt í Jako-mótinu sem haldið var í byrjun mánaðarins. Þar hafnaði liðið í öðru sæti. Fylkir vann danska liðið Gladsaxe, 34:32, og Stjörnuna, 32:31, en tapaði stórt fyrir Fram, 38:23.

Fylkir tekur á móti ÍBV í fyrsta leik sínum í N1-deildinni í vetur en leikurinn fer fram í Fylkishöllinni á laugardaginn og hefst klukkan 14. Finnbogi Grétar Sigurbjörnsson stýrir Árbæjarliðinu þar í fyrsta skipti í deildaleik.

Mikill hugur er í Fylkismönnum

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

Hið unga lið Fylkis hafnaði í fimmta sæti í N1-deildinni á síðustu leiktíð undir stjórn Reynis Þórs Reynissonar. Árbæjarliðið hefur verið að byggja upp kvennahandboltann síðustu árin og teflir nú fram meistaraflokksliði fjórða árið í röð.

Reynir Þór er horfinn á braut úr þjálfarastarfinu. Hann er tekinn við karlaliði Framara en Finnbogi Grétar Sigurbjörnsson var ráðinn eftirmaður Reynis í sumar og við hann gerður tveggja ára samningur. Finnbogi hefur verið aðstoðarmaður Júlíusar Jónassonar, þjálfara kvennalandsliðsins, undanfarin ár en þeir voru einnig saman hjá karlaliði ÍR fyrir nokkrum árum þar sem þeir gerðu góða hluti. Finnbogi er ekki ókunnugur Árbæjarliðinu. Hann hefur í þjálfaratíð sinni þjálfað yngri flokka Fylkis og þá var hann þjálfari Fylkis/ÍR þegar þau tefldu fram sameiginlegu kvennaliði á árunum 1996-2003. Aðstoðarmaður Finnboga er Halldór Stefán Haraldsson en hann þjálfaði 4. flokk kvenna hjá Fylki í fyrra.

Aðstaða Fylkis batnar í handboltanum

Það er mikill hugur í forráðamönnum Fylkis. Aðstaða til handknattleiksiðkunar í Fylkishöllinni mun batna mjög um mánaðamótin þegar fimleikadeild félagsins flyst í nýtt húsnæði en við það mun tímum fjölga mjög fyrir handknattleiksdeildina. Kvennaflokkar félagsins eru fjölmennir og mikil uppbygging hefur verið í yngri flokkum Fylkis bæði hjá stelpum og strákum.

Sem stendur er meistaraflokkur kvenna andlit Fylkis í handboltanum og undir stjórn Finnboga Grétars ætla Árbæingar sér að gera góða hluti á komandi leiktíð. Fylkisliðið hefur fengið nokkurn liðstyrk fyrir átök vetrarins og verður spennandi að sjá hvernig Árbæjarliðinu mun vegna, en margir efnilegir leikmenn eru hjá félaginu.