Íslandsbanki UBS á að koma bankanum í hendur langtímafjárfesta.
Íslandsbanki UBS á að koma bankanum í hendur langtímafjárfesta. — Morgunblaðið/Golli
Þórður Gunnarsson thg@mbl.is Skilanefnd Glitnis hefur sett sér það markmið að ganga frá sölu á 95% hlutafjár í Íslandsbanka fyrir árslok 2015. Þetta kom fram á kynningarfundi bankans fyrir fjölmiðla í gær.

Þórður Gunnarsson

thg@mbl.is

Skilanefnd Glitnis hefur sett sér það markmið að ganga frá sölu á 95% hlutafjár í Íslandsbanka fyrir árslok 2015. Þetta kom fram á kynningarfundi bankans fyrir fjölmiðla í gær. Íslandsbanki hefur áður birt fjárhagsupplýsingar þar sem hlutafé Íslandsbanka er metið á um það bil 100 milljarða króna. Svissneski bankinn UBS hefur unnið með skilanefnd Glitnis að því að finna kaupanda að Íslandsbanka, og ku sú vinna hafa verið langt komin um mitt síðasta sumar. Þegar Hæstiréttur felldi dóm sinn um ólögmæti gengistryggingar lána þann 16. júní síðastliðinn stöðvaðist sú vinna hins vegar alveg. Heimildir Morgunblaðsins herma að þá þegar hafi fundist áhugasamur kaupandi að bankanum. Um var að ræða erlendan aðila sem tilheyrði ekki kröfuhafahópi Glitnis. Vinna við söluna er komin aftur af stað, en eins og áður sagði, gerir skilanefndin sér vart vonir um að selja bankann fyrr en eftir fimm ár eða svo. Því mun Íslandsbanki vera í eigu þrotabús um nokkurn tíma til viðbótar.

Áætla að hefja greiðslur til kröfuhafa Glitnis við lok árs 2011

Skilanefnd Glitnis áætlar að hafið verði að greiða kröfuhöfum bankans út við lok árs 2011. Ekki hefur enn verið mótuð stefna innan skilanefndarinnar um í hvaða mynt verði greitt út til kröfuhafa. Kristján Óskarsson, framkvæmdastjóri skilanefndarinnar, segir að ýmis úrslausnarefni bíði skilanefndarinnar við útgreiðslu krafna. Hugsanlega þurfi að framkvæma útgreiðslurnar í samstarfi við stjórnvöld. Fengju allir kröfuhafar greitt út í krónum, gæti þrýstingur myndast á íslenskan gjaldeyrismarkað, en þess er vænst að talsverður hluti erlendra kröfuhafa vilji skipta þeim krónum yfir í evrur, dollara eða aðra erlenda gjaldmiðla, fái þeir greitt út í krónum. Eignir skilanefndar Glitnis í krónum nema tæplega 200 milljörðum króna. Sú fjárhæð samsvarar um það bil helmingi þess sem erlendir fjárfestar eiga í krónubréfum sem ekki er hægt að skipta yfir í erlenda mynt vegna gjaldeyrishaftanna.

Tekur um það bil 10 ár til viðbótar að klára að greiða kröfuhöfum

Glitnir er langt frá því að hafa lokið sinni starfsemi. Í sjóðstreymisáætlun skilanefndarinnar, það er að segja áætlun þess ferlis að breyta eignum í laust fé, er gert ráð fyrir að innheimta eigna muni standa yfir lengur en til ársins 2019.

Árið 2012 er áætlað að tæplega helmingur eigna hafi innheimst, um 70% árið 2014 og um 96% árið 2018. Þessar áætlanir miða þó við að eignir á borð við Íslandsbanka verði seldar fyrir ákveðin tímamörk, sem voru nefnd hér að ofan.

Árni Tómasson segir þó að skilanefndin muni ljúka sínum störfum þegar nauðasamningar fyrir Glitni hafa verið samþykktir. Þá taka kröfuhafar við stjórn þrotabúsins. Árni gat ekki svarað því hvenær það yrði, en nefndi árið 2015 sem hugsanlega tímasetningu.