Nú er niðurlæging Alþingis algjör. Og skrifast á reikning Samfylkingarinnar.

Nú er niðurlæging Alþingis algjör. Og skrifast á reikning Samfylkingarinnar. Flestir vita að þingmenn Vinstri-grænna og Hreyfingarinnar, með fortíðarglampa í augum, dást að Sovétinu þar sem pólitísk réttarhöld voru nær daglegt brauð og fólki var fórnað í þágu málstaðar. Ákærugleði hinna lítt geðþekku þingmanna Vinstri-grænna og Hreyfingarinnar kom því ekki á óvart síðastliðinn þriðjudag í atkvæðagreiðslu um það hvort draga ætti fyrrverandi ráðherra fyrir landsdóm. Furðulegra var að sjá nokkra þingmenn Framsóknarflokks tapa skynsemisglóru og greiða atkvæði með ákærum. Og hörmulegt var að fylgjast með hópi þingmanna Samfylkingar feta sömu slóð. Fyrirlitlegust af öllu var þó framganga þeirra þingmanna Samfylkingar sem ákváðu að fórna einum manni, Geir Haarde, fyrrveramdi samstarfsmanni, til að halda ríkisstjórnarsamstarfinu gangandi og friða lýðinn.

Ef einhver vottur af vitglóru býr í þessum þingmönnum eiga þeir að vita að Geir Haarde er ekki glæpamaður, ekki frekar en Árni Mathiesen, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Björgvin G. Sigurðsson. Að sækja Geir Haarde einan til saka er himinhrópandi óréttlæti. En í huga þessa fólks er einn sjálfstæðismaður ekki mikils virði samanborið við heilt ríkisstjórnarsamstarf – jafn óheilt og það valdasamkrull hefur reynst vera.

Ómerkilegheit Samfylkingarinnar í þessu máli blasa við. Þingmennirnir sem vildu sakfella Geir Haarde einan geta mætt grátklökkir í fjölmiðla og reynt að telja þjóðinni trú um hversu erfitt það var að greiða atkvæði með því að sakfella fyrrverandi forsætisráðherra. Og aðrir þingmenn Samfylkingar sem greiddu atkvæði með ákærum á hendur fyrrverandi ráðherrum Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar geta endalaust talað um það hversu mikla sálarkvöl það hafi kostað að taka þá ákvörðun. Það breytir engu um skömm þeirra allra. Þeir hegðuðu sér eins og ómerkilegir pólitískir loddarar. Og því er engin ástæða til að gleyma.

Við blasir að innan Samfylkingar fórnuðu þingmenn manni til að halda friðinn og framlengja ríkisstjórnarsamstarf, sem er reyndar í dauðateygjum. Fórnin var líka gerð til að friða lýðinn, þannig að hægt væri að segja að Alþingi hefði gert sitt til að kalla menn til ábyrgðar. En hvaða ábyrgð er verið að sýna? Ekkert, alls ekkert, bendir til sektar Geirs Haarde, það var einungis talið heppilegast að fórna honum. Er þetta virkilega réttlæti jafnaðarmanna?

Hver vill vera í flokki með því fólki í Samfylkingunni sem hegðar sér á þennan hátt? Þeir sem hafa sómakennd geta ekki útatað samvisku sína með subbuskap og látið eins og allt sé góðu lagi eftir hinn óréttláta þriðjudag. Það er engan veginn hægt að leggja blessun sína yfir þessa fyrirlitlegu gjörð. Næsta skref, og það eina rétta, hlýtur að vera að segja sig úr Samfylkingunni. kolbrun@mbl.is

Kolbrún Bergþórsdóttir

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir