Haraldur Lýðsson
Haraldur Lýðsson
Eftir Harald Lýðsson: "Það sem liggur fyrir, eftir rannsókn á vinnubrögðum þessara aðila, er að læra af mistökum og ganga svo frá hnútum, að slíkt geti bara ekki komið fyrir aftur."

Ég velti því stundum fyrir mér, hvort Íslendingar í dag séu sama þjóðin og sú, sem vann sig upp úr allsleysi og til sjálfstæðis fyrir ótrúlega stuttum tíma. Og nú er unnið hörðum höndum að því að skerða þetta sjálfstæði með inngöngu í ESB og það gegn meirihluta þjóðarinnar og eytt þannig ógrynni fjár, sem við eigum ekki til og í raun minna en ekki neitt. Það er mörgum lítt skiljanlegt hvað Jóhönnu gengur til með þessari framgöngu. Varla frekari metorð. Leitt hún skuli vera að eyðileggja sinn fyrri orðstír. Engar ESB-þjóðir hafa náttúruauðlindir og fiskimið sem við Íslendingar og því engin furða, að þær sækist stíft eftir oss, en jafnframt óskiljanlegt hvað ESB-fylgjendur hér heima eru að leika. En þetta er vinstristjórn, ríkisstjórn fólksins, fólksins sem engu fær ráðið og orðið er skaplaust og vesælt og lætur hverja skömm yfir sig ganga með hendur í skauti, sbr. ICESAVE einnig. Nákvæmlega sovéskur sósíalismi.

Össur er búinn að fá alveg nógu mörg tækifæri og misvel eða illa farið með, og síðan til að bíta höfuðið af skömminni kemur Árni Páll. Ekki mannvalið mikið á bænum.

Minnir á atvinnuleysingjann, sem fékk hvergi vinnu og fór því bara í pólitík.

Ég vorkenni Steingrími. Það er eins og hann kunni bara að vera í stjórnarandstöðu. Veit samt ekki – kannski er honum bara ekki sjálfrátt.

Ráðherrana fyrir landsdóm! Það er nokkuð seint í rassinn gripið – og hvað myndi svo fást út úr því. Auðvitað hafa þeir sýnt mikla vanrækslu. Það hafa ótal forstjórar ríkisstofnana og stórfyrirtækja gert, sem og þingmenn meira og minna. Það sem liggur fyrst og fremst fyrir, eftir rannsókn á vinnubrögðum þessara aðila, er að læra af mistökum og ganga svo frá hnútum, að slíkt geti bara ekki komið fyrir aftur, sbr. nágrannalönd okkar. Ráð mitt til stjórnvalda, sem gefist hefur vel þar sem því hefur verið beitt, er að kosið verði um meiriháttar mál í umræðunni af allri þjóðinni t.d. tvisvar á ári.

Þetta er lýðræði og það gerir ríkisstjórn fólksins. Með nútímatækni er slíkt auðvelt og ekki svo kostnaðarsamt, en mundi á móti greiða fyrir mikilvægum ákvarðanatökum og spara með því bæði mikið fé og mikinn tíma stjórnvalda, sem ella færi í þras og ýmislegt hagsmunapot.

Síðan eru það glæpamennirnir í okkar þjóðfélagi, svokallaðir útrásarvíkingar. Hvernig mátti þeim vera mögulegt að éta bankana innan frá? Veit ekki annað en þeir gangi allir lausir. Hef ekki heyrt að þeir hafi verið sæmdir sérstakri viðurkenningu, en kæmi mér sannarlega ekki á óvart. Mér finnst ég finni meir og meir fyrir skömm að vera Íslendingur.

Höfundur er framkvæmdastjóri.

Höf.: Harald Lýðsson