Aron Einar Gunnarsson
Aron Einar Gunnarsson
Aidy Boothroyd, knattspyrnustjóri enska 1. deildar liðsins Coventry, lýsti yfir mikilli ánægju með Aron Einar Gunnarsson eftir sigur liðsins á Doncaster, 2:1, í fyrrakvöld.

Aidy Boothroyd, knattspyrnustjóri enska 1. deildar liðsins Coventry, lýsti yfir mikilli ánægju með Aron Einar Gunnarsson eftir sigur liðsins á Doncaster, 2:1, í fyrrakvöld.

Aron skoraði þá fyrra mark Coventry eftir 90 sekúndna leik og lagði svo upp sigurmarkið fyrir Gary McSheffrey þegar fjórar mínútur voru eftir. „Ég tók Aron á eintal eftir leikinn því mér fannst hann eiga frábæran leik og ég tel að hann eigi eftir að bæta sig enn frekar eftir því sem fram líða stundir. Hann er fljótur og góður með boltann og það er því um að gera að benda honum á hve langt hann gæti náð,“ sagði Boothroyd við staðarblaðið Coventry Telegraph.

Aron hefur nú gert þrjú mörk í 1. deildinni með Coventry í haust og er annar tveggja markahæstu leikmanna liðsins. Hann hefur leikið hægra megin á miðjunni að undanförnu, ekki á miðri miðjunni eins og til þessa. vs@mbl.is