Þór Magnússon
Þór Magnússon
Þór Magnússon: "Þjófnaðir og skemmdarverk í kirkjum eru nú gríðarlegt vandamál hvarvetna um lönd."

Skömmu fyrir síðustu jól birtist smáfrétt í Fréttablaðinu um að gripum hefði verið stolið úr Skálholtsdómkirkju, kaleik, oblátuöskjum og prestsskrúða. Jafnframt hafði verið farið í Sólheimakirkju í Grímsnesi, brotinn þar upp söfnunarbaukur og tæmdur.

Þetta er ekki eina frétt á síðari árum um að kirkjugripum sé stolið eða skemmdarverk unnin á kirkjum og kirkjugripum. Í sumar var brotizt inn í kirkjuna í Árbæjarsafni í Reykjavík og stolið þaðan gripum og reynt að ná gömlu altaristöflunni. Frá því segir í Morgunblaðinu 28. apríl 2009, að maður hafi í bræði sinni brotið kirkjugripi á Bessastöðum, forna kertastjaka frá 17. öld og sjö steindar rúður í fjórum gluggum kirkjunnar, einnig skemmt bifreið forsetaembættisins. Sé farið lengra aftur má nefna, að árið 1988 var stolið silfurkertastjökum og einhverju fleiru úr Möðrudalskirkju á Fjöllum.

Birzt hafa fréttir um að farið hafi verið í kirkjur hér í Reykjavík, peningum stolið úr söfnunarbaukum og gripum. – Kunnugt er um marga þjófnaði úr kirkjum á síðari árum eða hvarf hluta á ókunnan hátt sem ekki hefur verið látið hátt fara. Minna má á grein Marðar Árnasonar í Fréttablaðinu 26. ágúst sl. þar sem hann lýsir eftir gripum úr Laufáskirkju í Eyjafirði, sem horfið hafa nú í seinni tíð, fornir og merkir gripir. – Reyndar kom einn þeirra í leitirnar skömmu síðar hér suður í Reykjavík.

Þjófnaðir og skemmdarverk í kirkjum eru nú gríðarlegt vandamál hvarvetna um lönd. Minna má á að í Noregi hafa kirkjur verið brenndar á síðustu árum, þar á meðal stafkirkjur frá miðöldum og þar týnzt ómetanlegur menningararfur. Hér er skemmst að minnast kirkjubrunans í Krýsuvík, þar sem ungmenni brenndu kirkjuna, sér til gamans að því er virðist. Áður hefur kirkja verið brennd hér, líklegast í hefndarskyni við kristindóm og til hugarhægðar.

Svo er nú komið víða erlendis, að kirkjur eru hafðar læstar nema á messutímum og í öðrum er stöðug gæzla og þess vandlega gætt að hvergi séu dýrmætir gripir hafðir uppi við svo að ná megi til þeirra. Samt verða sífellt margar kirkjur fyrir barðinu á þjófum og misindismönnum.

Matthías Þórðarson þjóðminjavörður fór um landið allt á árunum 1909-1922 gagngert til að skrá kirkjugripi og skráði þá jafnframt og kannaði fornminjar og forngripi. Þetta var í fyrsta skipti sem kirkjugripir voru kannaðir frá menningarlegu sjónarmiði, en Matthías lagði þá mat á menningarlegt gildi gripa, aldur og uppruna. Þá var enn margt fornra og merkra gripa í kirkjum landsins, sumir frá miðöldum. Ýmsa gripi fékk Matthías til Þjóðminjasafnsins, oft gamla gripi sem skemmdir voru orðnir og ekki til nota lengur í messunni, en einnig gripi sem hann taldi vart óhulta í kirkjum. Jafnframt vildi hann sem sannur safnmaður, auðga safnið að góðum gripum. Einnig eru ófáir þeir gripir sem hann lét gera við og sendi aftur í kirkjurnar, svo sem kaleikar og ljósastjakar, og marga hefur verið gert við þannig síðan. Í stað gripa sem Matthías fékk til safnsins og í notkun voru, útvegaði hann aðra í staðinn, ævinlega vandaða og góða gripi. Hann sá gerla, að kirkjurnar voru engan veginn öruggir varðveizlustaðir dýrmætra muna, enda var þá enn mikil ásælni manna, ekki sízt erlendra, í forngripi og ekki sízt kirkjugripi, þeir voru beinlínis verzlunarvara. Rötuðu þá margir forngripir enn til útlanda, jafnvel þótt forngripalögin, sem sett voru 1907, bönnuðu förgun kirkjugripa og útflutning þeirra og annarra fornmuna.

Síðan hafa starfsmenn Þjóðminjasafnsins oftsinnis heimsótt kirkjur og borið skráningu Matthíasar Þórðarsonar saman við gripi þeirra, en skipuleg og markviss skráning hefur ekki verið gerð fyrr en nú að kirkjugripir eru skráðir vandlega á ný vegna samningar ritverksins Kirkjur Íslands, sem verið er að gefa út. Er þá grandskoðað allt sem í kirkjunum er, lýst og ljósmyndað, svo og legsteinar í kirkjugörðum. Þá kemur í ljós, að margir gripir, sem Matthías skráði, hafa horfið og oftast án þess að nokkur geti skýrt.

Ekki virðast prófastar alltaf skrá grandvarlega gripi kirknanna við vísitasíur, sem þeim ber þó að gera.

Sumir gripir ganga úr sér, aðrir þykja gamaldags orðnir og þá eru oft fengnir nýir í staðinn en oft lítt hirt um þá gömlu og þeim fargað á einhvern hátt og ekki hugleitt hvert menningarlegt gildi þeir hafi. Stundum bætast kirkjum nýir gripir, svo sem altaristöflur eða stjakar og kirkjusilfur, og þá hefur því gamla oft verið lítill sómi sýndur. Alkunna er að þegar kirkjur fá nýja altarisstjaka eða eru rafvæddar eru gamlir stjakar og ljósahjálmar oft settir upp á loft eða upp í turn, gömlum altaristöflum og minningartöflum, sem áður héngu á veggjum, er komið fyrir uppi í turni, stundum skotið inn undir rjáfrið yfir hvelfingunni, og þar hafa þessir hlutir oftlega stórskemmst eða eyðilagzt. Ekki er fátítt, að slíkum hlutum sé beinlínis hent. Stundum hafa menn, sem áhuga hafa á, fengið að hirða gamla kirkjugripi. Um þetta allt eru fjölmörg dæmi.

Of margar kirkjur hérlendis eru illa hirtar og lítt um þær hugsað. En hitt er líka gleðilegt, að mörgum er mikill sómi sýndur og vel um þær gengið, og víða leggur fólk metnað í að búa þær góðum gripum og skrauti, en því miður ekki alltaf af góðum smekk. Sums staðar má sjá nýja, glansandi stjaka sem fengnir hafa verið í stað gamalla, einkum hinna stóru 17. aldar barokkstjaka, sem þóttu „ljótir hlunkar“ og var þá þokað til hliðar og týndust þá sumir bráðlega. Sums staðar má nú sjá miður smekklega glerstjaka og glervasa á ölturum, og hafa þá stundum vandaðir gripir fengið að þoka.

Víða standa kirkjur ólæstar. Margir eru mótfallnir því að kirkjum sé læst, vilja að fólk geti gengið frjálst þar inn og að þeir sem til þess finna þörf geti gert þar bæn sína. Sumar mega réttilega kallast „ferðamannakirkjur“, það á við um margar hinar stærstu og þekktustu, svo sem dómkirkjurnar og Þingeyrakirkju, auk torfkirknanna, sem haldið er við einkum sem menningarminjum.

Í kirkjum, sem eru ólæstar, ætti hvergi að hafa dýrmæta gripi uppi við, sem geta kallast eftirsóknarverðir eða fémæti er í. Kirkjur eru helgistaðir og fram að þessu hafa menn virt helgi þeirra og farið þar inn með gát og hreinu hugarfari, en nú virðist það vera að breytast. Margrar kirkjur eru beinlínis forngripa- og listasöfn, sem hýsa fagra og dýrmæta gripi, jafnvel einstæða dýrgripi.

Aldrei ætti að láta silfurmuni, svo sem kaleik, patínu og oblátuöskjur, „hin helgu ker“ sem fyrrum nefndust, standa á altari þar sem gestir og gangandi geta handleikið þá og gruflað á þeim. Oft virðast menn helzt líta á slíka gripi sem skrautgripi, slíkt gerist hvergi nema á Íslandi. Sama á við um altarisstjaka. Ölturun eru síður en svo öruggir geymslustaðir slíkra gripa. Þau eru oft einfaldir tréskápar, sum allsendis ólæst og ekki voldugri en svo, að auðvelt er að opna þótt læst séu.

Margar kirkjur til sveita standa nú á eyðijörðum, bærinn í eyði og jafnvel langt til annarra bæja og því engin leið að fylgjast með erindum manna heim á kirkjustaðina. Þar þarf sérstakrar aðgæzlu við og verður að hafa dýrmæta gripi á öruggum stað, í læstum járnhirzlum, heima hjá presti eða í vörzlu fólks, sem treysta má fyrir geymslu þeirra. Gripi eyðikirkna mætti einnig fela söfnum til geymslu með sérstökum samningi og fara með þá til kirkju þegar og ef athafnir eru og þeirra er þörf.

Margar kirkjur eru beinlínis lista- og forngripasöfn. Þar eru víða ómetanlegir dýrgripir og enn eru miðaldagripir í kirkjum hérlendis.

Atburðirnir í Skálholti og í Krýsuvík ættu að verða til áminningar. Kaleikurinn í Skálholti var smíðaður af þekktum íslenzkum gullsmið, Ásbirni Jacobsen, sem nam ungur gullsmíði í Kaupmannahöfn, ílentist þar og varð vel metinn gullsmiður, andaðist árið 1879. Kaleikurinn verður trauðla endurheimtur. Enn bólar ekki á 17. aldar altarisstjaka og fleiri gripum úr Laufáskirkju, sem lýst var eftir. Ekki hefur kaleikur Guðmundar Stefánssonar sem hvarf úr Akraneskirkju um 1970 komið í leitirnar, heldur ekki patína Daníels Hjaltasonar er hvarf úr Álftaneskirkju, ekki patínan sem stolið var úr Narfeyrarkirkju fyrir nokkrum árum, gefin henni af Guðmundi ríka Þorleifssyni árið 1692, og ekki ljósagrindur frá miðöldum úr Holtastaðakirkju, sem Matthías Þórðarson skráði og tók mynd af þar árið 1910, þær hefur enginn séð síðari árin. Ekki hefur þjónustukaleikur Þingvallakirkju komið í leitirnar, sem týndur er eftir að prestssetur var lagt niður þar. Gömlum altarisstjökum Búðakirkju hefur tvívegis verið stolið, þeir fundust í bæði skiptin, en slíkt er undantekning. Enginn veit úr hvaða kirkju barokkstjakarnir eru, frá 17. öld, sem fundust í öskutunnu í Kópavogi árið 1970. Þeim var af tilviljun bjargað frá að lenda á haugunum.

Forráðamenn kirkna þurfa nú enn betur að finna til ábyrgðar sinnar.

Höfundur er fyrrverandi þjóðminjavörður.

Höf.: Þór Magnússon