[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Einar Örn Gíslason einarorn@mbl.is Skattlagning á fjármagnstekjur gerir það að verkum að aðstæður og vaxtakjör þurfa að vera með allra besta móti til þess að eitthvað sé upp úr sparnaði hjá innlánsstofnunum að hafa.

Fréttaskýring

Einar Örn Gíslason

einarorn@mbl.is

Skattlagning á fjármagnstekjur gerir það að verkum að aðstæður og vaxtakjör þurfa að vera með allra besta móti til þess að eitthvað sé upp úr sparnaði hjá innlánsstofnunum að hafa. Samspil verðbólgu og skatthlutfalls gerir það að verkum að innlánsvextir, sem virðast við fyrstu sýn ásættanlegir, skila í raun sáralítilli, eða jafnvel neikvæðri, ávöxtun. Sé horft til þess hluta tekna sem auðlegðarskattur fellur á þurfa raunvextir (nafnvextir á innlánum að frádreginni verðbólgu) að vera svo háir að slík kjör þekkjast ekki hérlendis.

Innstæður dregist mikið saman

Líkt og greint var frá í Morgunblaðinu í vikunni hafa innstæður í innlánsstofnunum dregist saman um 70 milljarða frá áramótum, þar af 17 milljarðar á í ágúst einum. Þar sem fjárfestingarkostir eru fáir má gera ráð fyrir því að margir hafi sett sparifé sitt í skuldabréfasjóði, en velta á skuldabréfamarkaði hefur aukist mikið síðustu vikur. Í sumum tilfellum er vafalaust verið að ganga á sparnað til að fjármagna neyslu, og enn öðrum til þess að greiða niður skuldir. Í öllum tilfellum er það líklegt að lítilfjörleg ávöxtun sparifjár sé ein meginorsaka þess að fjármunirnir „fara af stað“ og nýttir á skynsamlegri hátt, sé þess á annað borð kostur. Í töflunni hér að ofan sjást dæmi um raunávöxtun fjármuna sem bera 6% nafnvexti, miðað við að verðbólga sé 4%. Þó að fjármagnstekjuskattshlutfall sé 18% er skatthlutfall vaxta hátt í 55%. Í neðra dæminu, sem er af einstaklingi sem greiðir auðlegðarskatt af 30 milljónum, sést að hlutfallið fer yfir 70%. Ávöxtun af 30 milljónunum er neikvæð um ríflega 300 þúsund, þó nafnvextir séu 6% og ávinningur af „sparnaðarleiðinni“ þar af leiðandi minni en enginn.

Raunhæfar forsendur?

Í dæminu sem hér er tekið er miðað við 4% verðbólgu, sem er svipað því sem nú er, en verðbólgan hefur lengi verið mun meiri en það. Með hækkandi verðbólgu þurfa raunvextir að hækka hraðar til þess að ávöxtun rýrni ekki.

AUÐLEGÐARSKATTUR

Lítil ávöxtun

Auðlegðarskattur er greiddur af hreinni eign einstaklings yfir 90 milljónir, eða samanlagðri eign hjóna, yfir 120 milljónir. Skatthlutfallið er nú 1,25%, en starfshópur um skattamál hefur lagt til við fjármálaráðherra að skatturinn verði hækkaður. Með tilkomu skattsins þurfa raunvextir fjáreigna sem falla undir skattstofninn að vera gríðarlega háir til þess að komast hjá því að eignirnar rýrni í innlánsstofnunum.