Framfarir „Aðal flöskuhálsinn er seiðafraleiðslan en við höfum náð betri tökum á því með árunum,“ segir Kristján um þá kúnst að rækta Þorsk.
Framfarir „Aðal flöskuhálsinn er seiðafraleiðslan en við höfum náð betri tökum á því með árunum,“ segir Kristján um þá kúnst að rækta Þorsk. — Ljósmynd/Halldór Sveinbjörnsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is „Við fórum í gegnum ákveðna stefnumótunarvinnu í kringum árið 2000.

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

„Við fórum í gegnum ákveðna stefnumótunarvinnu í kringum árið 2000. Eins og allir vita eru flestir þessir hefðbundnu fiskistofnar við Ísland fullnýttir og því var ljóst að ef fyrirtækið ætti að geta stækkað án þess að það væri á kostnað annarra væri það í gegnum fiskeldi, og þá fyrst og fremst þorskeldi,“ segir Kristján G. Jóakimsson, vinnslu- og markaðsstjóri hjá HG á Ísafirði.

Þar hefur átt sér stað mikil þróunarvinna undanfarinn áratug sem nú virðist vera að skila góðum árangri og framtíðarhorfurnar spennandi: „Við byrjuðum á þessu verkefni árið 2001 með áframeldi á villtum þorski. Það fer þannig fram að við veiðum villtan smáþorsk, flytjum hann lifandi í sjókvíar, ölum hann þar upp í 8-12 mánuði og náum á þeim tíma að meira en tvöfalda þyngd fisksins fyrir slátrun,“ útskýrir Kristján. „En aðalvaxtarmöguleikarnir teljum við að séu í svokölluðu aleldi þar sem við höfum stjórn á öllu ferlinu frá því hrognin klekjast út og allt til slátrunar.“

Búa til betri seiði

Fyrir um 7 árum hóf HG að veiða villt seiði í Ísafjarðardjúpi og færa í Strandeldisstöðina á Nauteyri sem rekin er af dótturfélaginu Háafelli. „Seiðin, sem voru í upphafi 2-5 g, voru alin þar upp yfir veturinn og orðin um 100 g að stærð þegar við færðum þau yfir í sjókvíar að vori. Þetta endurtókum við fimm ár í röð og notuðum tækifærið til að byggja upp þekkingu í fiskeldi í fyrirtækinu,“ segir Kristján. „Með þessu erum við líka að vinna að kynbótum, því þeir fiskar sem standa sig best í framleiðsluferlinu hafa verið valdir til undaneldis og eiginleikar þeirra verða æ sterkari í klakstofninum.“

Tilraunin hefur alls ekki verið ódýr og segir Kristján að tugir milljóna hafi árlega farið í verkefnið. Eftir miklu sé að slægjast gangi allt að óskum en þorskeldi sé flóknara en eldi á s.s. bleikju og laxi: „Í laxeldi er t.d. hægt að ala laxaseiðin á þurrfóðri, framleiðsluaðferðirnar löngu orðnar þróaðar og ferlið til muna einfaldara. Þegar kemur að saltvatnsfiskum eins og t.d. þorski og lúðu vandast málið. Þá þarf m.a. að framleiða lifandi fóður sem fiskurinn nærist á í upphafi og enn á eftir að þróa betri bóluefni til varnar sjúkdómum. Framleiðslan er því mörgum sinnum flóknari og erfiðari.“

Kemur með kynbótunum

Í dag er staðan hins vegar orðin ágæt. „Aðalflöskuhálsinn er seiðaframleiðslan en við höfum náð betri tökum á því með árunum. Við höfum m.a. notið góðs af að sækja þekkingu til Noregs þar sem miklir fjármunir hafa verið settir í að þróa framleiðslu af þessum toga,“ útskýrir Kristján. „Það vantar helst enn upp á stöðugleikann í framleiðslunni en okkur er að takast að búa til góð seiði. Eins og við stöndum í dag þarf einkum að vinna að kynbótum til að ná fram hagkvæmni í rekstrinum. Munurinn er strax geysilegur á þeim fiski sem við höfum kynbætt á ekki lengri tíma en liðið hefur.“

Betri afurð með þekkingu

Kristján segir fiskeldi umfram allt vera þekkingariðnað og þar komi reynsla HG af vinnslu þorsks að góðum notum. Hann nefnir t.d. að þótt blæbrigðamunur sé á eldisþorski og villtum þorski þurfi eldisfiskurinn alls ekki að vera síðri. Gæði lokaafurðarinnar velti mikið á hvernig staðið er að slátrun og verkun: „Það má gera mjög flotta vöru úr eldisþorski en einnig er hægt að klúðra framleiðslunni. Meðal þess sem þarf að gæta er að vinna fiskinn sem fyrst eftir slátrun. Ef vinnslan er látin bíða þó að ekki sé meira en 1-2 daga missir fiskurinn ákveðna eiginleika og bæði verður holdið lausara í sér og geymsluþolið skerðist.“

Norska fiskeldið jafn stórt og íslenski veiðikvótinn

Áhugavert er að setja fiskeldi og fiskveiðar á Íslandi í samhengi við framleiðsluna í Noregi. Kristjáni telst til að heildarframleiðsla eldisfisks á landinu sé um 5.000 tonn á meðan fiskveiðarnar nema í kringum milljón tonn í heildina. „Á síðasta ári eru Norðmenn að ala um 900.000 tonn af laxi eingöngu. Eldisframleiðslan þeirra skákar því heildaraflanum á Íslandi auk þess að miklir fjármunir hafa verið lagðir í markaðssetningu á öllum sjávarafurðum þar í landi.“

Aðstæður eru góðar

En Ísland virðist hafa burði til að gera góða hluti á sviði fiskeldis og ýmsar aðstæður hér á landi sem eru hagstæðar. „Það hefur verið ákveðinn tröppugangur í geiranum í gegnum árin en bara núna þessi síðustu tvö til þrjú ár eru menn að byrja að sjá árangurinn. Í t.d. bleikjueldi eru flestir í fínum málum í dag.“

Kristján nefnir að hérlendis sé m.a. hægt að fá mjög góðan sjó t.d. upp úr borholum á Reykjanesi. „Þetta er sjór af réttu seltu- og hitastigi fyrir klak og seiðaeldi og hentar vel fyrir viðkvæm seiðin að dafna í sjó sem er svona hreinn og laus við óværu sem ónæmiskerfi þeirra gæti átt erfitt með að ráða við.“

Hitaskilyrðin hagstæð

Sama er að segja um aðstæður fyrir sjókvíaeldi á þorski að þær eru allgóðar af náttúrunnar hendi víða um land, og hefur þar mest að segja hitastig sjávarins: „Í Noregi er þorskeldið að mestu komið til Norður-Noregs því tilraunir á Vestur-Noregi gengu ekki upp vegna óhagstæðra hitaskilyrða. Við erum nú að upplifa hærra hitastig í sjónum við Íslandsstrendur sem er ágætt, en þorskurinn þarf ekki eins heitan sjó og laxinn til að dafna vel.“

Strandrýmið er þó takmarkaðra hér á landi en t.d. í Noregi, þar sem strandlengjan er löng og fjörðum skorin. „Þetta getur hugsanlega orðið hindrun þegar iðnaðurinn fer að stækka, en þó eru Vestfirðirnir og margir aðrir staðir á landinu ekkert síðri en margir eldisstaðirnir í Noregi.“

Reiknað er með að innan fimm ára muni afköst íslensks fiskeldis hafa tvöfaldast frá því sem er í dag og Kristján segir að HG stefni á að taka ákvarðanir um frekari vöxt eftir um 2-3 ár.“