Andri Karl andri@mbl.is Í næstu viku fara fram lokasölur á 98 fasteignum í umdæmi sýslumannsins í Keflavík. Af þeim eru 94% íbúðarhúsnæði eða 92 eignir. Um miðjan mánuð höfðu farið fram 224 nauðungarsölur í umdæminu og þar af 92% íbúðarhúsnæði.

Andri Karl

andri@mbl.is

Í næstu viku fara fram lokasölur á 98 fasteignum í umdæmi sýslumannsins í Keflavík. Af þeim eru 94% íbúðarhúsnæði eða 92 eignir. Um miðjan mánuð höfðu farið fram 224 nauðungarsölur í umdæminu og þar af 92% íbúðarhúsnæði. Sýslumaðurinn í Keflavík segir tölurnar segja alla söguna um ástandið á Suðurnesjum.

Til að glöggva sig betur á ástandinu má líta til þess að í umdæmi sýslumannsins í Reykjavík (Reykjavík, Seltjarnarnes, Mosfellsbær, Kjósarhreppur) voru 131.555 íbúar 1. desember 2009 en á sama tíma í umdæmi sýslumannsins í Keflavík (Reykjanesbær, Sandgerði, Garður, Grindavík, Vogar) voru þeir 21.348. Fjöldi nauðungarsala í þessum tveimur sýslumannsumdæmum leikur þó á sama hundraðinu á þessu ári, en um miðjan mánuð höfðu farið fram 228 nauðungarsölur í umdæmi sýslumannsins í Reykjavík. Sú staðreynd þýðir, að sjálfsögðu, að nauðungarsölur á hvern íbúa í Keflavík eru margfaldar á við Reykjavík.

Þúsund störf hurfu á degi

„Mér sýnist menn ekki átta sig á því að hér, á Suðurnesjum, er annar í kreppu,“ segir Þórólfur Halldórsson, sýslumaður í Keflavík. „Ekki eru nema fjögur ár síðan varnarliðið yfirgaf landið og þá misstu yfir þúsund manns starf sitt. Þar hurfu því um þúsund störf á einum degi. Svo kemur kreppan og beint ofan í það, þegar menn héldu að þeir væru að vinna sig úr áfallinu sem fylgdi brotthvarfi varnarliðsins.“

Við brotthvarf varnarliðsins var íbúum á Suðurnesjum lofað alls kyns úrræðum vegna tapaðra starfa. Þórólfur segir þó enn standa á því að eitthvað sé gert og fátt annað sjáist en steinar sem lagðir eru í götu þeirra verkefna sem unnið er þó að.

2010 slær öllum öðrum við

Hjá embætti Þórólfs hefur orðið margföldun á beiðnum um nauðungarsölur. Árið 2008 kom fyrsti verulegi kippurinn eftir jafnvægi í gegnum árin. Síðasta ár var metár en þá voru 96 nauðungarsölur. Árið 2010 slær hins vegar öllu við.

„Ekki aðeins er það að málum fjölgar heldur er flækjustig málanna mun meira,“ segir Þórólfur en þessi gríðarlega aukning veldur að sama skapi verulegu álagi á embættið, og ekki fæst fjármagn til að ráða fleira starfsfólk. „Flatur niðurskurður upp á tíu prósent hefur verið boðaður á næsta ári. Þannig að þetta er mjög erfitt.“

Þórólfur segir starfsfólk þó ekki aðeins verða vart við flóknari mál sem tengjast nauðungarsölum heldur einnig í sifjamálum, s.s. þegar um er að ræða sambandsslit eða hjónaskilnaði. „Svo virðist sem þau séu þyngri. Hvert mál tekur lengri tíma og þarf kannski að senda það oftar á milli embætta. Það er því þyngra undir fæti.“

Auk þess sér embættið einnig um innheimtu fyrir ríkissjóð þar sem er sama sagan. Málin eru flóknari og taka því lengri tíma fyrir starfsfólk sem þegar hefur mikið á herðum sér.