Karl Blöndal kbl@mbl.is Vestrænar leyniþjónustur hafa komist á snoðir um áætlanir hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda um að gera árásir í Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi að því er kom fram í fjölmiðlum í gær.

Karl Blöndal

kbl@mbl.is

Vestrænar leyniþjónustur hafa komist á snoðir um áætlanir hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda um að gera árásir í Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi að því er kom fram í fjölmiðlum í gær. Sagt var að öfgamenn með aðsetur í Pakistan væru á bak við ráðabruggið.

„Ógnin er mjög raunveruleg,“ hafði fréttastofan AFP eftir háttsettum embættismanni leyniþjónustu í Evrópu. Hann staðfesti að spjót hryðjuverkamannanna beindust að Frakklandi og Bretlandi og bætti við að fyrirskipanir hefðu verið gefnar af æðstu valdamönnum al-Qaeda um að refsa Evrópu og þá Frökkum sérstaklega.

Í fréttum BBC og Sky News kom fram að vígamenn ætluðu að taka vestræna gísla og myrða þá með svipuðum hætti og gert var í Mumbai á Indlandi þegar tíu vopnaðir menn myrtu 166 manns og særðu rúmlega 300 fyrir tveimur árum. Heimildarmaður AFP sagði hins vegar líklegra að framið yrði sprengjutilræði og fleiri lönd kæmu til greina en Frakkland, Bretland og Þýskaland.

Fram hefur komið að bandarískir leyniþjónustumenn hafi orðið þess áskynja að hryðjuverk væru í aðsigi úr ýmsum áttum, þar á meðal úr yfirheyrslum yfir grunuðum hryðjuverkamönnum frá landamærum Afganistans og Pakistans. Bandarísku fréttastofurnar ABC og CNN sögðu að upplýsingarnar hefðu komið frá Þjóðverja, sem handtekinn var í Afganistan. Í fréttum ABC sagði einnig að verið gæti að hryðjuverkamennirnir hygðust láta til skarar skríða í Bandaríkjunum og hefði Barack Obama forseta verið gert viðvart.

Dagblaðið The Wall Street Journal sagði að bandaríska leyniþjónustan, CIA, hefði gert sprengjuárásir á vígamenn í landamærahéruðum Pakistans til að koma í veg fyrir að hryðjuverkin yrðu framin. 20 slíkar árásir hefðu veri gerðar í það minnsta í þessum mánuði og væru það fleiri en gerðar hefðu verið á einum mánuði undanfarin sex ár.

Ekki hefur fengist staðfest opinberlega að umrædd hryðjuverk standi fyrir dyrum, en Janet Napolitano, yfirmaður heimavarna í Bandaríkjunum, sagði í liðinni viku að greinst hefði aukin virkni hryðjuverkahópa, sem beindu spjótum sínum að Vesturlöndum.

  • Janet Napolitano, yfirmaður heimavarna í Bandaríkjunum, segir ógnina fjölbreytilegri en áður og hópana fleiri.