Það yljar mér um hjartaræturnar að fylgjast með alþingismönnum fást við það sem raunverulega skiptir máli í íslensku þjóðfélagi þessa dagana. Gleymum sívaxandi og óviðráðanlegum halla á ríkissjóði.
Það yljar mér um hjartaræturnar að fylgjast með alþingismönnum fást við það sem raunverulega skiptir máli í íslensku þjóðfélagi þessa dagana. Gleymum sívaxandi og óviðráðanlegum halla á ríkissjóði. Gleymum skattahækkunum, sem hefta alla verðmætasköpun og þrengja að einstaklingum og fyrirtækjum í landinu. Gleymum gjaldeyrishöftum, sem koma í veg fyrir erlenda fjárfestingu og setja öll eggin okkar í sömu körfuna. Gleymum lífeyrissjóðunum, sem núna er verið að þjóðnýta til að lappa upp á afkomu ríkisins.

Hugsum frekar um það sem mestu máli skiptir, að ákæra fyrir refsidómi mann sem var svo óheppinn að taka við embætti forsætisráðherra árið 2007, þegar fjarstæðukennt var að hann gæti komið í veg fyrir hrun íslenska bankakerfisins. Sýnum í þessum æfingum úr hverju Samfylkingin er gerð – sýnum hvers konar hugsjónafólk skipar þann góða flokk, algjörlega laust við tækifærismennsku og hentistefnu. Sýnum okkar rétta andlit.

Svo , í framtíðinni, þegar lífeyrissjóðirnir eru endanlega horfnir í svarthol óráðsíu og fyrirhyggjuleysis í ríkisfjármálum, skulum við stofna aðra rannsóknarnefnd alþingis. Þá verður heiður alþingis í húfi, því Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir verða að bera refsiábyrgð á því að svo fór sem fór. Þau verður líka að ákæra fyrir að hafa reynt að koma mörg hundruð milljarða skuldbindingum einkabanka erlendis á þjóðina, skuldbindingum sem hún á ekkert með að bera.

Þetta er svo fallegt og innihaldsríkt þjóðlíf og ég hlakka svo til. Virðing alþingis er sannarlega tryggð á næstu árum, þegar hver ráðamaðurinn á fætur öðrum verður ákærður fyrir landsdómi.