Arilíus Marteinsson
Arilíus Marteinsson — Ljósmynd/Sigfús
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Úttekt Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Íslandsmeistarar Breiðabliks fengu fæst spjöld allra liða í úrvalsdeildinni í fótbolta í sumar.

Úttekt

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Íslandsmeistarar Breiðabliks fengu fæst spjöld allra liða í úrvalsdeildinni í fótbolta í sumar. KR-ingar voru það lið sem oftast fékk spjald en Fylkir er með flest refsistig þegar gefin eru fjögur stig fyrir rautt spjald og eitt fyrir gult spjald.

Leikmenn Breiðabliks fengu samtals 34 gul spjöld og eitt rautt í deildinni en KR-ingar fengu 53 gul og tvö rauð. Fylkir var aftur á móti með flest rauð spjöld, sex talsins, en Árbæingarnir fengu líka þrjú rauð spjöld í bikarleik gegn Fram. Samtals voru þeir því níu sinnum reknir af velli í sumar, í deild og bikar.

Valur var eina liðið sem aldrei missti mann af velli með rautt spjald allt tímabilið. Valsmenn voru hinsvegar næstduglegastir við að sanka að sér gulu spjöldunum.

Ásgeir fékk þrisvar rautt

Tveir leikmenn voru tvisvar reknir af velli í deildinni í sumar. Fylkismaðurinn Ásgeir Börkur Ásgeirsson og Framarinn Jón Guðni Fjóluson. Að auki fékk Ásgeir rautt spjald í áðurnefndum bikarleik en hann þarf að hefja næsta tímabil í þriggja leikja banni til að ljúka afplánun refsinganna.

Arilíus spjaldakóngur

Spjaldakóngur sumarsins í deildinni er Arilíus Marteinsson, miðjumaður Selfyssinga, en hann fékk 8 sinnum gula spjaldið í leikjum nýliðanna. Næstir honum komu Valsararnir Baldur Ingimar Aðalsteinsson og Martin Pedersen, KR-ingurinn Skúli Jón Friðgeirsson og Eyjamaðurinn Andri Ólafsson sem allir fengu 7 sinnum að líta gula spjaldið í deildaleikjum.

Rúnar og Andri oftast áminntir

Óstýrilátustu þjálfararnir í deildinni voru Rúnar Kristinsson hjá KR og Andri Marteinsson hjá Haukum en þeir fengu þrjú gul spjöld hvor.

Heimir Guðjónsson hjá FH var hinsvegar eini þjálfarinn sem fékk brottvísun í deildaleik en Ólafur Þórðarson hjá Fylki var einnig rekinn af bekknum í títtnefndum bikarleik.

Þeir Guðmundur Benediktsson hjá Selfossi, Gunnlaugur Jónsson hjá Val og Heimir Hallgrímsson hjá ÍBV voru einu þjálfararnir í deildinni sem aldrei voru áminntir.