Orð eru til alls fyrst Maður getur ekki orða bundist, hvað er í gangi? Það læðist að manni að allir, sem einhverju ráða hér á landi, séu bara hreinlega að tapa sér.

Orð eru til alls fyrst

Maður getur ekki orða bundist, hvað er í gangi? Það læðist að manni að allir, sem einhverju ráða hér á landi, séu bara hreinlega að tapa sér. Þessa dagana kemst ekkert að nema leita leiða til að klekkja á vinum sínum, fyrrverandi ráðherrum og Guð má vita hvað. Hvernig væri að byrja á byrjuninni? Byrjunin er að sjálfsögðu að hjálpa fyrirtækjum á fæturna, skapa vinnu, það þarf engan ofvita til að skilja samhengið; engin vinna = engir peningar og engin greiðsla reikninga. Er það virkilega það sem stefnt er að, að leysa upp heimilin, vísa fólki úr íbúðum sínum? Til hvers? Hvað svo? Það væri að bera í bakkafullan lækinn að telja upp allt það hróplega ranglæti sem íslenskt alþýðufólk hefur mátt þola undanfarið, ég spyr því enn og aftur: Hvað er að? Getur verið að alþingismenn, allir sem einn, hafi orðið fyrir eldingu? Eitthvað meira en lítið er að, það eitt er víst. Hvað getum við gert? Ég vil höfða til kvenna þessa lands, ömmur, mæður, dætur – látum í okkur heyra. Skrifum eitthvað uppbyggilegt á bréfaræmu og skiljum ræmu eftir hvar sem okkur finnst nauðsynlegt. Við erum þá að minnsta kosti að láta álit okkar í ljós. Eflaust telst þetta barnalegt en þetta er einfalt; allir skrifa á sína ræmu við morgunverðarborðið t.d. og taka með sér í skólann, vinnuna, sundið eða bara hvert sem er, með því skapast umræða.

Soffía.


Svarað í síma 5691100 frá 10-12
velvakandi@mbl.is