Matreiðslumaður ársins Gústav Axel Gunnlaugsson t.v með aðstoðarmanni sínum, Ara Þór Gunnarssyni.
Matreiðslumaður ársins Gústav Axel Gunnlaugsson t.v með aðstoðarmanni sínum, Ara Þór Gunnarssyni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gústav Axel Gunnlaugsson vann keppnina Matreiðslumaður árins 2010 sem var haldin um síðustu helgi. Gústav ákvað að verða kokkur þegar hann var smápatti að alast upp á Húsavík þar sem hann byrjaði ferilinn í eldhúsi sjúkrahússins.

Gústav Axel Gunnlaugsson vann keppnina Matreiðslumaður árins 2010 sem var haldin um síðustu helgi. Gústav ákvað að verða kokkur þegar hann var smápatti að alast upp á Húsavík þar sem hann byrjaði ferilinn í eldhúsi sjúkrahússins. Í dag er hann yfirkokkur á Fiskifélaginu, 23 ára gamall, og verður fulltrúi Íslands í keppninni Matreiðslumaður Norðurlandanna sem fer fram í Noregi í júní.

Ingveldur Geirsdóttir

ingveldur@mbl.is

Ég stefndi að sigri núna og hef stefnt að sigri í þessari keppni frá því ég byrjaði að læra,“ segir Gústav Axel Gunnlaugsson, yfirkokkur á Fiskifélaginu. Hann var valinn Matreiðslumaður ársins 2010 um síðustu helgi en keppnin fór fram á Matardögum í Smáralind.

Gústav hafði einu sinni áður tekið þátt í keppninni um matreiðslumann ársins, það var árið 2008, nokkrum dögum eftir að hann útskrifaðist sem kokkur, þá náði hann fjórða sætinu.

„Ég var búinn að æfa mig mjög vel fyrir keppnina núna. Til að vinna svona keppni þarf maður að hafa metnað, vera með höfuðið í lagi og æfa sig, maður uppsker alltaf eins og maður sáir,“ segir Gústav.

Súrur og garðablóðberg

Forkeppni fyrir aðalkeppnina fór fram í síðustu viku, þar kepptu tíu kokkar og fimm komust áfram í aðalkeppnina.

„Það liðu þrír dagar á milli forkeppni og aðalkeppni. Við fengum að vita hráefnið í aðalkeppninni fimm dögum fyrir keppnina en þá vissi maður ekki hvort maður kæmist áfram í hana eða ekki,“ segir Gústav sem lagði áherslu á íslenskt hráefni í réttum sínum.

„Við þurftum að elda íslenska villta sveppi í forrétt, svínasíðu og gæs í aðalrétt og jarðarber og heslihnetur í eftirrétt og svo þurfti að ráða meðlætinu með því. Ég var með léttgrafna bleikju, reyktan humar og kóngakrabba með sveppunum. Í aðalréttinum var ég með hægeldaða svínasíðu, steikta gæsabringu og hægelduð gæsalæri og með því var ég m.a. með íslenskar rófur og grænertufroðu.

Í eftirréttinn notaði ég íslenskt skyr með hnetunum og íslensku jarðarberjunum,“ segir Gústav. „Ég reyndi að nota íslenska náttúru eins og ég gat en ég var líka með súrur í forréttinum og íslenskt garðablóðberg í aðalréttinum.“

Gústav segir matreiðslu úr íslensku hráefni í uppáhaldi hjá sér. „Við Íslendingar eigum mikið af góðum fiski, góðu kjöti og rótargrænmeti, við eigum miklu meira en fólk veit af.“

Kokkur eins og afi alnafni

Gústav er fæddur og uppalinn á Húsavík. Hann ákvað að verða kokkur þegar hann var smápatti.

„Ég hef alltaf haft áhuga á matargerð, afi minn og alnafni var kokkur og ég byrjaði að vinna hjá honum sem gutti í eldhúsi sjúkrahússins á Húsavík. Ég fór suður þegar ég var sautján ára til að læra á Sjávarkjallaranum, þaðan fór ég að vinna á Silfri á Hótel Borg og þaðan á Texture í London. Svo opnaði ég Fiskifélagið með eigendunum og er yfirkokkur þar.“

Spurður hvort kokkurinn hafi staðist væntingar segir Gústav þetta mjög skemmtilegt starf.

„Það er keppni í þessu eins og mörgu öðru, ég hafði keppnisskap í íþróttunum sem krakki og maður vill enn vinna allt og vera bestur í öllu,“ segir Gústav og hlær. Hann kveðst ekki vera strangur yfirkokkur.

„Ég myndi segja að ég væri mjög þolinmóður og jákvæður einstaklingur. Þannig nær maður því besta úr fólki. Ég vil frekar fá nemana með mér í lið en að fá þá upp á móti mér.“

Með sigri í Matreiðslumanni ársins verður Gústav fulltrúi Íslands í keppninni Matreiðslumaður Norðurlanda sem verður haldin í Bergen í Noregi í júní. „Ég stefni á að koma með bikarinn heim, það hefur aðeins gerst einu sinni svo það er tími til kominn að það gerist aftur,“ segir Gústav kankvís. Hann verður einnig fulltrúi Íslands á matreiðslukeppninni Nordic Challenge í Danmörku í febrúar ásamt Jóhannesi Steini Jóhannessyni á Vox sem vann Matreiðslumann ársins í fyrra.

Í tilefni af því að Gústav sigraði í Matreiðslumanni ársins fer af stað nýr fjögurra rétta matseðill á Fiskifélaginu, sérvalinn af honum, 6. október næstkomandi.