Stjórn Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, fordæmir þá ákvörðun Alþingis að ákveða að höfða mál fyrir landsdómi gegn Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra.

Stjórn Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, fordæmir þá ákvörðun Alþingis að ákveða að höfða mál fyrir landsdómi gegn Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. „Með þessu er fetað inn á þá hættulegu braut að gera upp sakir við pólitíska andstæðinga með ákærum og pólitísk átök færð inn í réttarsalinn,“ segir í ályktun frá Verði.

„Það hefur verið sorglegt að fylgjast með þróun þessa máls. Pukur þingnefndarinnar sem vann málið er óskiljanlegt. Tillaga nefndarinnar um að höfða mál gegn tilteknum ráðherrum var illa ígrunduð, byggðist ekki á sjálfstæðri rannsókn og var sett fram án þess að viðkomandi gætu svarað þeim ávirðingum sem á þau voru borin, sem er þó grundvallaratriði í okkar réttarkerfi.

Það hefur verið ljóst frá upphafi að þetta mál snýst eingöngu um pólitík og markmiðið er að koma pólitísku höggi á Sjálfstæðisflokkinn og beina þar með athyglinni frá getuleysi og aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar.“ Forkastanlegt sé að meirihluti Alþingis „skuli hafa dregið stjórnmál á Íslandi niður á þetta sorglega plan.“