Júrí Lúzhkov
Júrí Lúzhkov
Júrí Lúzhkov, fyrrverandi borgarstjóri Moskvu, veittist í gær að Dmítrí Medvedev, forseta Rússlands, sem í fyrradag rak hann úr embætti, og sakaði hann um kúgun og ritskoðun í ætt við stjórnarfarið í Rússlandi í tíð Stalíns.

Júrí Lúzhkov, fyrrverandi borgarstjóri Moskvu, veittist í gær að Dmítrí Medvedev, forseta Rússlands, sem í fyrradag rak hann úr embætti, og sakaði hann um kúgun og ritskoðun í ætt við stjórnarfarið í Rússlandi í tíð Stalíns.

Ummælin voru í bréfi, sem Lúzhkov sendi stjórnvöldum í Kreml seint á sunnudag og birtist í vikuriti stjórnarandstöðunnar, New Times , í gær. „Í landi okkar hefur ríkt ótti við að segja skoðun sína frá 1937,“ skrifaði Lúzhkov og vísaði til þess er ógnarstjórn Stalíns náði hámarki. „Ef forusta okkar elur aðeins á þessum ótta í yfirlýsingum sínum...getur sú staða hæglega komið upp þar sem aðeins einn leiðtogi er í landinu, orð hans eru höggvin í stein og honum verður að fylgja möglunarlaust. Hvernig samræmist þetta kröfu þinni um „þróun lýðræðis“?“

Lúzhkov sakaði stjórnina um að hafa komið í veg fyrir að sjónvarpsstöð í Moskvu sýndi heimildamynd vegna efnis hennar. „Þetta er ekkert annað en ritskoðun,“ sagði hann.

Medvedev rak Lúzhkov vegna þess að hann hefði glatað trausti sínu. Talsmaður Medvedevs sagði í gær að hann hefði vitað af bréfinu, en það hefði ekki haft áhrif á ákvörðun hans.