Matthews Viðskiptajöfurinn sem stóð fyrir gerð hágæða golfvallar. Sjálfur hefur hann þó ekki mikinn áhuga á að spila golf og segist geta gert 10 viðskiptasamninga á sama tíma og það taki að leika einn golfhring.
Matthews Viðskiptajöfurinn sem stóð fyrir gerð hágæða golfvallar. Sjálfur hefur hann þó ekki mikinn áhuga á að spila golf og segist geta gert 10 viðskiptasamninga á sama tíma og það taki að leika einn golfhring. — Reuters
Sir Terence Hedley Matthews setti drauma sína ekki í nefnd – hann lét verkin tala

Það þarf kjark og hugrekki til að láta sig dreyma um að halda þriðja stærsta íþróttaviðburð heims í 150.000 manna samfélagi í landi sem telur rétt um þrjár milljónir íbúa. Verkfræðingurinn sir Terence Hedley Matthews lét sér ekki nægja að láta sig dreyma – hann setti málið ekki í nefnd, hann lét verkin tala og á morgun verður fyrsta höggið í Ryder-keppninni í golfi slegið á The Twenty Ten-golfvellinum á Celtic Manor-golfsvæðinu sem er allt saman í eigu hins vellauðuga Matthews. Og það skrýtna er að hann hefur ekki mikinn áhuga á að leika golf sjálfur. „Ég get gert 10 viðskiptasamninga á sama tíma og það tekur að leika einn golfhring. Ég er betri í því en golfi,“ sagði verkfræðingurinn.

Fyrsti milljarðamæringurinn í Wales

Sir Terence Hedley Matthews fæddist árið 1943 í Newport í Wales þar sem Ryderkeppnin fer fram. Hann hefur hagnast gríðarlega á viðskiptum tengdum hátækni og er hann fyrsti milljarðamæringurinn sem fæddur er í Wales. Matthews var sannfærður um að Wales væri heppilegur staður fyrir Ryder-keppnina og hóf hann undirbúning að því að gera keppnisvöll sem væri engum líkur og sá fyrsti sem hannaður er frá upphafi með Ryder-keppnina í huga.

„Ég horfði á málið út frá því sjónarmiði að það væri afar ólíklegt að Ólympíuleikarnir eða heimsmeistarakeppnin í fótbolta færu fram í Newport. Ég sagði því við sjálfan mig: „Hvað er næst í röðinni á eftir þessum stórmótum. – Ryderkeppnin!“ Og trúið mér, þessi keppni hefur komið Wales á alheimskortið. Hvert sem ég fer þá hafa allir heyrt af Celtic Manor,“ sagði Matthews í blaðaviðtali.

Matthews fékk stjórnmálamenn í Wales með sér í lið og þeir settu upp áætlun sem miðaði að því að koma Wales á golfkortið með eftirminnilegum hætti. Forsvarsmenn Ryder-keppninnar tóku ákvörðun árið 2001 um að keppnin færi fram á Celtic Manor árið 2010 og frá þeim tíma hefur undirbúningur staðið yfir. Í fyrsta sinn í sögu Ryder-keppninnar var búið að ákveða að halda keppnina á velli sem var ekki einu sinni tilbúinn.

18 milljarðar í endurbætur

Matthews hefur eytt rúmlega 100 milljón sterlingspundum í að byggja upp Celtic Manor-svæðið eða sem nemur um 18 milljörðum kr. Til samanburðar eyddi eigandi enska úrvalsdeildarliðsins Manchester City um 27 milljörðum kr. í leikmannakaup á árinu 2010!

Matthews hefur átt yfir 80 fyrirtæki en hann stofnaði hugbúnaðarfyrirækið Mitel árið 1983 sem síðar var keypt fyrir háa upphæð af British Telecom. Frá þeim tíma hefur Mattthews komið að rekstri margra fyrirtækja og hann seldi m.a. Newbridge Networks rétt áður en „netbólan“ sprakk í kringum síðustu aldamót fyrir 700 milljónir bandaríkjadala sem nemur um 80 milljörðum króna.

Árið 1980 náði Matthews samningum við kínversk yfirvöld um sölu á hugbúnaði og var það fyrsti samningur vestræns fyrirtækis við Kína. Matthews fylgdist vel með þróun mála í Kína allt frá árinu 1969. Hann dvelur mestmegnis í Kanada þar sem hann er búsettur og hann er ráðandi hluthafi í stærsta golfsvæði heims, Mission Hills í Kína, þar sem eru 12 golfvellir en við framkvæmdina störfuðu 35.000 manns.

Matthews eignaðist Celtic Manor-svæðið í nokkrum áföngum. Hann keypti gamalt hjúkrunarheimili þar árið 1980 og smátt og smátt keypti hann landareignir í Usk-dalnum þar sem hann fæddist. Markmið hans er í höfn; stærsta golfmót heims fer þar fram í fyrsta sinn. „Ég geri þetta af því ég hef áhuga á viðskiptum og ég veit að þessi völlur og þetta svæði á eftir að skapa mikil verðmæti. Það verða 50.000 áhorfendur á hverjum einasta degi hér og mörg hundruð milljónir horfa á keppnina í sjónvarpi. Það eru margir sem eiga eftir að heimsækja okkur í framtíðinni og til þess er leikurinn gerður,“ segir Matthews.

seth@mbl.is