Á Akureyri togast menn á um staðsetningu hjúkrunarheimilis. Hjálmar Freysteinsson taldi sér málið skylt og kvað í sumar: Fast þótt elli að mér sverfi auðmjúklega þess ég bið að forsjónin mér leggi lið svo lendi ég ekki í Naustahverfi.

Á Akureyri togast menn á um staðsetningu hjúkrunarheimilis. Hjálmar Freysteinsson taldi sér málið skylt og kvað í sumar:

Fast þótt elli að mér sverfi

auðmjúklega þess ég bið

að forsjónin mér leggi lið

svo lendi ég ekki í Naustahverfi.

En nú hefur veður skipast í lofti, að sögn Hjálmars:

Hausinn þarf að höggva af mér

og hóta fári stríðu,

að öðrum kosti aldrei fer

út í Vestursíðu.

Og tekur hann fram, að það sé bót í máli, að enn sé hann þokkalega ern. Björn Ingólfsson telur málið leyst:

Hlutskipti sér karlinn kaus

kunnur af geði stríðu:

Hjálmar verður höfuðlaus

hafður í Vestursíðu.

Þá Friðrik Steingrímsson:

Oft þó brúki elli raus

sem alla virðist kvelja,

á meðan karlinn heldur haus

heima fær að dvelja.

Hallmundur Kristinsson lagði orð í belg:

Ljóst er að þakka má lækninum störf,

lúnum – af erfiði hoknum,

en þá verður Hjálmari hjúkrunar þörf

þegar hausinn er farinn af skrokknum.

Jóni Arnljótssyni leist ekki á:

Illa þetta að mér sló.

Inn með þennan sóða,

sem í gærdag hausinn hjó

af Hjálmarinum góða.

Pétur Blöndal pebl@mbl.is