Unga fólkið Fulltrúar á landsþingi ungs fólks afhentu ráðherrunum Sólveigu Pétursdóttur og Jóni Kristjánssyni ályktanir þingsins, sem haldið var í Gerðubergi árið 2003.
Unga fólkið Fulltrúar á landsþingi ungs fólks afhentu ráðherrunum Sólveigu Pétursdóttur og Jóni Kristjánssyni ályktanir þingsins, sem haldið var í Gerðubergi árið 2003. — Morgunblaðið/Golli
Hið árlega landsmót Samfés og landsþings ungs fólks verður haldið í Garðabæ dagana 1.-3. október nk., en verkefnið er styrkt af Æskulýðsráði ríkisins.

Hið árlega landsmót Samfés og landsþings ungs fólks verður haldið í Garðabæ dagana 1.-3. október nk., en verkefnið er styrkt af Æskulýðsráði ríkisins. Markmið landsmótsins er að stjórnir í unglingaráðum félagsmiðstöðva hafi vettvang til að mynda tengsl og kynnast nýjum hugmyndum sem hægt er að nýta í starfi félagsmiðstöðvanna. Auk þess er lögð rík áhersla á mikilvægi þess að þau hitti jafnaldra sína, kynnist nýju fólki og allir skemmti sér sem best. Nú þegar hafa rúmlega 300 unglingar skráð sig og koma þeir alls staðar að af landinu.

Við upphaf landsmóts er nýtt ungmennaráð Samfés kosið. Þar sem þátttakendur á landsmóti koma hvaðanæva af landinu verður kosið í öllum landshlutum eða níu kjördæmum. Fær hvert kjördæmi tvo fulltrúa kosna auk varamanns til setu í ungmennaráði Samfés. Ungmennaráðið fundar svo á sex vikna fresti út veturinn, þar sem ályktað er um málefni ungs fólks.