Skák Íslensku keppendurnir að tafli á ólympíumótinu í Rússlandi.
Skák Íslensku keppendurnir að tafli á ólympíumótinu í Rússlandi.
„Hver einasti íslenski keppandi stendur sig betur en skákstigin gera ráð fyrir og við erum mjög stolt af þeim,“ segir Gunnar Björnsson, forseti Skáksambands Íslands, um árangur Íslendinga á Ólympíumótinu í skák sem nú stendur yfir í...

„Hver einasti íslenski keppandi stendur sig betur en skákstigin gera ráð fyrir og við erum mjög stolt af þeim,“ segir Gunnar Björnsson, forseti Skáksambands Íslands, um árangur Íslendinga á Ólympíumótinu í skák sem nú stendur yfir í Rússlandi. Karlaliðið er nú í 37. sæti á mótinu en var í 54. sæti skákstigalistans. Kvennaliðið stendur sig enn betur en það eru í 38. sæti en var í 69. sæti stigalistans.

Í gær vann karlasveitin sigur á Perúmönnum með þremur og hálfum vinningi gegn hálfum í opnum flokki í áttundu umferð mótsins. Að sögn Gunnars eru Perúmennirnir sterkari á blaði en Íslendingar og lukkan hafi fylgt íslenska liðinu.

Lenka með sex sigra í röð

Í kvennaflokki gerðu Íslendingar jafntefli við Ítala, 2:2, en þær ítölsku voru mun hærra skrifaðar fyrirfram.

„Ég vil sérstaklega benda á árangur Lenku Ptácníková sem er búin að fá 6 ½ vinning. Hún tapaði í fyrstu umferð, vann svo sex skákir í röð og gerði jafntefli í gær,“ segir Gunnar.

Í næstu umferð, þeirri tíundu, mætir karlaliðið Chile sem Gunnar segir að sé af svipuðum styrkleika og íslenska liðið. Stelpurnar mæta Mongólum sem eru töluvert stigahærri. Alls eru tefldar ellefu umferðir á mótinu. kjartan@mbl.is

Góðir sigrar
»Allir íslensku karlarnir unnu sínar skákir á móti Perú fyrir utan Björn Þorfinnsson sem gerði jafntefli.
»Gegn Ítölum vann J óhanna Jóhannsdóttir, Lenka Ptácníková og Hallgerður Þorsteinsdóttir gerðu jafntefli en Sigurlaug Friðþjófsdóttir tapaði.