Sarah Baker „...ég næ að sinna akademískri og tónlistarlegri ástríðu á sama tíma.“
Sarah Baker „...ég næ að sinna akademískri og tónlistarlegri ástríðu á sama tíma.“ — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Arnar Eggert Thoroddsen arnart@mbl.is Á dögunum var haldin alþjóðleg málstofa um tónlist í sal FÍH þar sem fræðimenn stigu fram og gerðu grein fyrir rannsóknum sínum á dægurtónlist, m.a. Gestur Guðmundsson og Njörður Sigurjónsson.

Arnar Eggert Thoroddsen

arnart@mbl.is

Á dögunum var haldin alþjóðleg málstofa um tónlist í sal FÍH þar sem fræðimenn stigu fram og gerðu grein fyrir rannsóknum sínum á dægurtónlist, m.a. Gestur Guðmundsson og Njörður Sigurjónsson. Þar mælti einnig Sarah nokkur Baker, doktor við Griffith-háskóla í Ástralíu, en hún stundar um þessar mundir tónlistarfræðilegar rannsóknir hér á landi.

Hvað hlustar fólk á?

Sarah er á rannsóknarstyrk frá ástralska ríkinu, takk fyrir, og er hingað komin til að rannsaka íslenskan tónlistariðnað. Verkefnið er tvíþætt og snýr fyrri hlutinn að því sem hún kallar menningarlega geymd eða „cultural memory“. Nokkurs konar mannfræðileg nálgun.

„Þar er ég að kanna þær sögur sem hafa verið sagðar af viðburðum og þeim einstaklingum sem hafa tekið þátt í að skapa sögu dægurtónlistarinnar hér á landi. Þetta verkefni byrjaði með því að við litum til Bandaríkjanna, Bretlands, Ástralíu, Hollands og Ísraels og við notum tæki eins og sjónvarpsheimildir, kvikmyndir (Rokk í Reykjavík t.d.), bækur, blaðagreinar eða safnplötur sem líta yfir farinn veg. Við erum síðan að rýna í þær sögur sem ganga um þessa menningu/iðnað. Hvað er sagt en kannski það sem er mikilvægast, hvað er ekki sagt. Er t.d. einhver fræg og umtöluð plata eins góð eða eins áhrifarík og hún er sögð vera í dag. Hvernig var umræðan á sínum tíma? Voru kannski einhverjar plötur sem voru jafn góðar eða betri en hafa ekki lifað af í huga fólks fyrir einhverjar sakir?“

Sarah segir að talað sé við fólk, tónlistarmenn, fólk í iðnaðinum, gagnrýnendur, alla þá sem kunna að hafa vitneskju frá fyrstu hendi um þessa plötu. Blaðamaður getur staðfest að Sarah hafði stundað heimanámið vel, og var hún búin að ná í alflesta þá sem máli skipta á þessum stutta tíma (tíu dagar) sem hún dvaldi hér).

„Svo tölum við líka við áhorfendur og áhugafólk. Spyrjum fólk, alls konar fólk, hvað það var að hlusta á þegar það var lítið og reynum svo að púsla saman einhverri mynd sem við berum svo saman við hina „opinberu“ sögu. Hvað var fólk raunverulega að hlusta á, andstætt því sem er miðlað áfram af fjölmiðlum. Það eru alls konar skekkjur í gangi; fólk vill ekki viðurkenna að það hlusti á ákveðna tónlist, en hefur aðra, „fínni“ upp í hæstu hæðir. Evróvisjón er t.d. gott dæmi, eitthvað sem er mjög vinsælt í Ástralíu (hlær).“

Vélavirkið

Síðari hluti verkefnisins snýr svo að vélavirki íslensks tónlistariðnaðar.

„Ég vann með David Hesmondhalg að verkefni árin 2006/2007, en hann er breskur og líkast til kunnasti fræðimaðurinn á sviði menningariðnaðar í dag. Við rannsökuðum þennan iðnað í Bretlandi og töluðum við fólk og niðurstöðurnar koma út á bók nú í haust, sem kallast Creative Labour . Mig langaði til að nýta þekkinguna sem ég safnaði saman hér á landi og í þessu alþjóðlega verkefni. Hér á landi eru auðvitað allt aðrar aðstæður en í Bretlandi. t.a.m.“

Ekki bara Britney

Sarah ólst upp við klassíska tónlist og popp í bland og nam píanóleik. Hún fór svo í háskóla og hætti þá að spila, akademískur áhugi á tónlist ruddi hinu burt.

„Rannsóknir á popptónlist voru leið fyrir mig að tengja mig aftur við þessa ástríðu mína. Mig langaði til að feta nýjar brautir og hóf að rannsaka tónlistarneyslu stúlkna á aldrinum 9 til 12 ára. Stimplunin er sú að þær hlusti einungis á Britney Spears en sú var að sjálfsögðu ekki raunin þegar maður fór að skoða þetta nánar. Ég hef reynt að beita mér á þessu sviði, þessi bransi og ráðstefnur honum tengdar eru ansi karllægar svo ekki sé meira sagt; langir fyrirlestrar um plötusöfnun og Bruce Springsteen! Þannig að mig langar til að hnika aðeins við því. En þetta starf mitt gæti ekki verið betra...ég næ að sinna akademískri og tónlistarlegri ástríðu á sama tíma.“

RANNSÓKNIR Á POPPMENNINGU

Poppfræðin þrífst í Eyjaálfu

Ástralía og Nýja-Sjáland, þaðan sem m.a. Nick Cave, Kylie Minouge og Michael Hutchence (sjá mynd) koma, hafa löngum verið sterkt bakland fyrir háskólarannsóknir á dægurtónlist og var rannsóknarstofnun þar að lútandi komið á í Sydney þegar árið 1963. Sarah Baker er lektor í húmanískum fræðum við Griffith-háskóla og kennir kúrsa eins og „Æska og menningarkimar“ og „Frægð og frami“. Rannsóknarsvið hennar liggja í etnógrafíu, dægurtónlist, æskumenningu, stúlknafræði og sjónvarpsiðnaðinum m.a.