Víðförul Frá flutningi Ingbjargar Magnadóttur á gjörningnum „The commitment“ í Bologna 2009.
Víðförul Frá flutningi Ingbjargar Magnadóttur á gjörningnum „The commitment“ í Bologna 2009.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Árni Matthíasson arnim@mbl.is Ingibjörg Magnadóttir tekur þátt í stóru myndlistarverkefni á Möltu um þessar mundir og um miðjan október flytur hún gjörninginn Angistin í Núinu í Samtímalistasafni Möltu.

Árni Matthíasson

arnim@mbl.is

Ingibjörg Magnadóttir tekur þátt í stóru myndlistarverkefni á Möltu um þessar mundir og um miðjan október flytur hún gjörninginn Angistin í Núinu í Samtímalistasafni Möltu. Verkefnið heitir Geography of Proximity og Ingibjörg hefur einnig sýnt í tengslum við það í Bologna og Mílanó. Einnig hefur verið gefin út bók um verkefnið og allmargar sýningar framundan.

Geography of Proximity er farandverkefni og hluti af tengslaneti sem kallast „Little Constallation“. „Verkefnið fjallar um leiðangur í gegnum listina og listaheiminn í samstarfi smáþjóða, svo sem Andorra, Kýpur, Íslands, Lúxemborgar, Liechtenstein, Möltu, Svartfjallalands, San Marínó og annarra menningarsvæða eins og Canton Ticino, Ceuta, Gíbraltar og Kalíningrad. Ferðalag Ritu Canarezza og Piers Paolos Coros, listamanna og rannsakenda, er tvinnað saman við sýningu sem stýrt er af sýningarstjórunum Roberto Daolio og Alessandro Castiglioni,“ segir Ingibjörg, en verkefnin hafa svo verið sameinuð í bók sem gefin er út af ítalska forlaginu Mousse Publishing.

Ingibjörg hitti þau Ritu Canarezza og Pier Paolo Coro á Islandi 2008 þar sem þau voru að leita að listamönnum í verkefnið og fengu síðan hana og Sigtrygg Berg Sigmarsson til samstarfs. Fyrsta sýningin var svo í Bologna 2009 þar sem hún sýndi gjörning sem heitir „The commitment“.

Ingibjörg segist ekki vita hve verkefnið standi lengi, „örugglega bara þangað til allir eru saddir og vonandi sælir“. Það er sitthvað annað framundan en Geography of Proximity, því Ingibjörg er í öðru samstarfsverkefni sem Núna/Now og Lókal settu saman í samvinnu við þrjá listamenn, þau Freyu Olafsson dansara og Arne MacPherson, leikstjóra frá Kanada, og Friðgeir Einarsson sviðslistamann. Annað verkefni, sem er í startholunum, er svo sýning sem Hugleikur Dagsson og Davíð Örn Halldórsson eru að skipuleggja í desember.

GJÖRNINGUR

Um samskipti hjóna

Eins og getið er hér til hliðar hófst farandverkefnið „Little Constallation“ í Bologna. Ingibjörg lýsir gjörningnum „The commitment“ svo:

„Nakin kona og eldri maður sem „dönsuðu“ ofurhægan dans. Hljóðskúlptúr barst úr lokuðu herbergi – þar inni voru upptökur af ítölsku pari sem var að reyna að komast út.

Á gólfinu var ég á hnjánum í stíflakkaðri úlpu og hélt tölu um samskipti hjóna, bað bænir, ráðlagði og var með smáserimóníur.

Eftir mikla ræðu um mjög mikilvæg málefni spilaði ég lag eftir Sting um ástina og hélt höndunum upp til himins í langan tíma. Eftir það hneigði ég mig, þakkaði fyrir áhorfið og hvarf á braut.“